Nemendapistlar, smásögur og ljóð

Hvar er snjórinn, kemur hann aftur eða verður hann einungis til í sögubókum fyrir börn?

Halldóra Lena, bókmenntafræðinemi segir frá því hvernig er að vera nýbökuð móðir í námi í HÍ á veirutímum.

Fjallað um bókina Kærastinn er rjóður eftir Kristínu Eiríksdóttur, með gestum þáttarins, sem eru Haukur Ingvarsson doktor í bókmenntafræði og Áslaug Ýr Hjartardóttir bókmenntafræðinemi.

Vefbókmenntir (e. web fiction) er bókmenntagrein þar sem verkin eru oftast eða alltaf aðgengileg á veraldarvefnum. Algeng tegund vefbókmennta eru framhalds sögur (e. web serial). Ólíkt klassískum bókmenntum eru framhaldssögur á vefnum sjaldan birtar í heild sinni. Heldur eru hlutar af verkinu birtir í senn, en það svipar til sagnasería sem komu oft út í nokkrum hlutum í dagblöðum. Vefbókmenntir komu fljótlega til sögunar eftir að Internetið ruddi sér til rúms. Spot serían, sem kom út á árunum 1995 og 1997, átti eftir að ryðja brautina fyrir fleiri vefbókmenntaverk. Í Spot var sagan sögð með dagbókarfærslum sögupersóna og gagnvirkni við lesendur. Síðan árið 2008 hafa vinsældir vefbókmennta aukist til muna. Aðdáendur skrifa oft sínar eigin sögur sem ýta en þá meira undir vinsældir greinarinnar. Sumar vefseríur notfæra sér frumlegar og gagnvirkar leiðir, eins og myndbönd eða tögg, til þess að miðla sögunum. Eitthvað sem hefðbundið bókarform býður ekki upp á (nema kannski sögur eins og „Þín eigin goðsaga“ eða „Make Your Own Story“ bókaflokkar).

Ég hef alltaf verið mikill lestrarhestur, alveg síðan ég man eftir mér. Bókasafnið var minn griðastaður sem barn. Ég vildi heldur eyða tíma mínum þar og gleyma mér í ævintýraheimum bókanna heldur en til dæmis að reyna að kynnast öðrum krökkum á leikvellinum. Ég var aldrei neitt sérstaklega góð í mannlegum samskiptum hvort eð er og persónurnar í bókunum sem ég las kröfðust þess jafnframt ekki af mér. Þegar ég var 11 ára gömul var ég búin að lesa allar barna- og unglingabækurnar á bókasafninu og snéri mér þá að fullorðins bókmenntum og urðu erótískar ástarsögur Barböru Cartland fyrstar fyrir valinu og opnuðu þær bækur mér innsýn inn í nýjan heim, heim hinna fullorðnu. Í kjölfarið las ég svo allar bækur Isabel Allende og þá var ekki aftur snúið. Ég fór að lesa allar týpur bókmennta sem ég kom höndum yfir og heimur bókanna stækkaði ört fyrir mér, enda er ég og verð alltaf alæta á bókmenntir. Ég elska einfaldlega að lesa.

Smásagan Gula veggfóðrið (The Yellow Wallpaper) eftir Charlotte Perkins Gilman kom út árið 1892 og olli vissu fjaðrafoki þegar hún kom út. Sagan er fyrstu persónu frásögn af konu sem virðist vera að upplifa taugaáfall eftir barnsburð. Hún er öllum stundum lokuð inni í herbergi með byrgðum gluggum, annað hvort á hæli eða í heimahúsi. Það skiptir þó ekki öllu máli, enda er raunverulegt sögusviðið í huga aðalsöguhetjunnar. Hún gerir sér grein fyrir því að hún skynjar raunveruleikann öðruvísi en til dæmis eiginmaður hennar, sem jafnframt er læknir hennar. Samkvæmt honum þjáist hún af tímabundinni móðursýki. Í dag myndi það ástand sem hún upplifir í sögunni líklega kallast fæðingarþunglyndi – eða geðrof.

Móðir Kamölu Harris, Shyamala Gopalan sagði einhverju sinni við dóttur sína: „Vertu fyrst til að gera góða hluti, þú hefur allt sem til þarf“. Orð móður hennar höfðu sterk áhrif á Kamölu, sem nú verður fyrst kvenna til að gegna embætti varaforseta Bandaríkjanna þegar hún verður sett í embætti þann 20. janúar 2021. Árið 2019 gaf Kamala Harris út bókina „The Truths We Hold – An American Journey” en þar helgar hún móður sinni drjúgan hluta frásagnarinnar. Mikið hefur verið ritað um Kamölu sjálfa en athyglisvert er að skoða hvar rætur hennar liggja. Shyamala Gopalan-Harris, móðir Kamölu, var merkileg kona fyrir margra hluta sakir og dóttirin lítur á hana sem sína stærstu fyrirmynd.

Christine situr á bókasafninu sínu. Hún grípur bók að lesa sér til yndisauka, en yndi hennar og gleði minnka heldur við lesturinn. Henni þykir leiðinlegt hversu konur fá slæma útreið í bókinni og hún leiðir hugann að því hvers vegna flestir rithöfundar og karlmenn yfirhöfuð, skrifa niðrandi um konur. Ekki bara einn eða tveir, heldur virðist ekki skipta máli hvort það eru heimspekingar, skáld eða ræðumenn. Orðræðan er öll af svipuðum meiði og þeir komast að þeirri niðurstöðu að konan sé lastafull vera. Hún fellur í þunga þanka og veltir fyrir sér hvort þetta geti verið rétt, að allar konurnar sem hún þekki fyrir gott eitt, séu í rauninni svona meingallaðar? Svo hljóti að vera fyrst svona margir gáfaðir, menntaðir og frægir menn tali með slíkum hætti um konur. Varla fara þeir með rangt mál?

hún elskar mig / hún elskar mig ekki

blómið okkar:
biðukolla í snjóstormi

„Skáldskapur er lifandi heild alls þess skáldskapar sem ortur hefur verið“ sagði T. S. Eliot í kenningum sínum um hefðarhugtakið. Hann sagði enn fremur að til þess að tryggja sér sess í þessu heildarsafni ritaðra texta verði verk að vera tímalaust. Hvað þýðir það? Jú, skáldinu ber að miðla í verkum sínum tímalausum sannindum, umbreyta sammannlegum gildum og átökum yfir í myndir og orð og slíta þar með sína eigin persónu, líf og umhverfi frá verkinu. Skáldið skal iðka sífellda sjálfstjórn og útþurrkun á eigin persónuleika. Þannig og aðeins þannig hljóti verk sess sinn í þessu heildarsafni skáldskapar og lifir af allar mannlegar og samfélagslegar hræringar. Forsenda þessarar ópersónulegu tjáningar skáldsins er svo sú að skáldskapur sé ekki tilfinningaleg útrás höfundar heldur beri skáldinu að miðla raunum sínum og upplifunum á tilvistinni á vitrænan hátt og höfða þar með til skilnings lesandans, alls ekki tilfinninga.

Ég greindist með krabbamein í byrjun árs, 2016, þegar 33 ára. Þrátt fyrir að hafa verið lengi veik og legið inn á spítala þar á undan kom þessi greining eins og þruma úr heiðskíru lofti. Eins og margir aðrir taldi ég mig nánast ódauðlega. Áður en ég veiktist var ég óstöðvandi og fannst ég alltaf þurfa að standa mig fullkomlega í öllu sem ég tók mér fyrir hendur. Ég var metnaðarfull og lifði hratt en taldi mig lifa heilbrigðu lífi. Hreyfði mig mikið og borðaði fjölbreytta fæðu. En ég held að það hafi verið þessar óraunhæfu kröfur sem ég gerði hafi orðið mér að falli að ég hafi brunnið út áður en ég veiktist af lífshættulegum sjúkdómi. Að auki var ég með undirliggjandi áfallastreituröskun sem ég reyndi að horfa fram hjá með því að hafa alltaf nóg fyrir stafni. Ég var greind með krabbamein á lokastigi og ætti tæknilega séð ekki að vera á lífi miðað við þær lífslíkur sem mér voru gefnar. En hvað kenndi þessi reynsla mér og hvaða bækur reyndust vel?

Hayley Nichole Williams fæddist þann 27. desember árið 1988 í Mississippifylki í Bandaríkjunum en flutti með móður sinni til Tennesse árið 2002 og býr þar enn í dag. Williams er best þekkt fyrir að vera söngkona og textahöfundur hljómsveitarinnar Paramore, sem hún stofnaði aðeins 15 ára að aldri. Hún hefur þó einnig ljáð öðrum listamönnum rödd sína á ferlinum. Til að mynda söng hún inn á smellinn Airplaines (2010) með rapparanum B.o.B., Stay the Night (2013) með Zedd og Bury It (2016) með hljómsveitinni Chvrches. Það var þó ekki fyrr en í byrjun þessa árs sem Williams gaf út sína fyrstu sólóplötu, Petals for Armor. Platan samanstendur af 15 lögum sem hún gaf út í þremur hlutum, 5 lögum í senn. Titilinn segir Williams vera vísun í það að besta leiðin fyrir hana til þess að vernda sig er að vera viðkvæm og er hann einnig í samræmi við eitt af helstu þemum plötunnar sem er kvenleiki en Williams tengir hann mikið við blóm.

Lítil sál fýkur framhjá
Þú reynir að grípa hana
en guð vill eiga hana
fyrir sjálfan sig

Andartak
við skulum semja

hjarta fyrir hjarta
auga fyrir auga
nef fyrir nef
munn fyrir munn

Þegar það kemur að ljóðverkum þá á ég mér eina uppáhalds bók, en það er ljóðabálkurinn Lendar elskhugans eftir Vigdísi Grímsdóttur sem kom fyrst út árið 1991. Verkið var hennar seinni ljóðabók en Vigdís hafði áður sent frá sér tvær skáldsögur og tvö smásagnasöfn. Ljóðabók þessi var fyrsta verkið sem ég las eftir Vigdísi í heild sinni og komst skáldið fljótt ofarlega á lista minn yfir uppáhaldshöfunda. Ástæða þess er sú að á bak við yfirborðsmyndina sem Vigdís málar má greina eins konar örvæntingu og djúpa náttúrudýrkun, sem heillar mig ávallt hvað mest við bókmenntir.

Jólin eru tími kærleiks og friðar en einnig tíminn þegar nýjustu bækurnar flæða inn. Sumir nýta sér það og koma sér vel fyrir með góðri bók í vetrarmyrkrinu. Hér á eftir eru tillögur að tíu bókum til að lesa sem komu með jólabókaflóðinu í ár. Flestar, ef ekki allar, þessar bækur hafa ratað á metsölulista og hafa þó nokkrar þeirra verið tilnefndar til íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Klukkan var að ganga fimm þann 8. júní 1949 þegar strandferðaskipið Esjan sigldi í blíðskaparveðri inn ytri höfnina í Reykjavík. Þó nokkuð af fólki hafði safnast saman á hafnarbakkanum þar sem koma skipsins vakti athygli. Meðal farþega voru 130 ungar þýskar konur og 50 ungir menn. Ungmennin hafa eflaust verið bæði spennt og kvíðin í bland við dálitla ævintýraþrá. Það sem blasti við þeim var nýtt og framandi land og húsakynni í misgóðu ásigkomulagi. Þau vissu lítið um lífið á bóndabæ, en vissu fyrir víst að tungumálið gæti vafist fyrir.

Hugmyndin um lúpínuna sem nýlenduherra vaknaði fyrst þegar ég sat námskeiðið Náttúrulandfræði haustið 2018. Þar sat ég alla önnina og hlýddi á ýmsa fyrirlestra um íslenskan jarðveg þar sem lúpínan barst ávallt til tals, alveg sama um hvað ræddi. Við ræddum hvernig innflutta jurtin er í eðli sínu ágeng en engum hefði dottið það í hug að hún myndi sölsa undir sig allan annan gróður og hernema landið. Vegna þess að í Alaska, þar sem lúpínan er upprunnin, bindur hún jarðveginn og víkur svo fyrir öðrum gróðri svo áhrif hennar á vistkerfið eru í raun mjög gagnleg. Og í ljósi þess að íslenski jarðvegurinn var (og er enn) í krísu þótti það tilvalið að flytja plöntuna inn og sá henni út um allt land til landgræðslu. En þar sem Alaskalúpínan nær sér á strik myndar hún þéttar breiður og gjörbreytir eiginleikum jarðvegsins og gróðurfari. Tegundir sem þar áður voru hörfa fyrir henni og þekja þeirra minnkar (Náttúrufræðistofnun Íslands).

I.
Manstu eftir deginum sem sólin skein?
-Vorum við saman þá?
Nei við þekktumst ekki þá
voru bara saman
á sitthvorum staðnum
undir sólinni bæði

Simone de Beauvoir skoðaði stöðu kvenna frá ýmsum sjónarhornum og leitaði svara við því hvert hlutverk þeirra hefur verið, bæði í sögulegu og líffræðilegu samhengi. Hún velti fyrir sér ástæðu þess að konur hafi oftar en ekki sætt sig við að vera settar í óæðra sæti í samfélaginu og leyft þeirri kúgun að viðgangast sem konur hafa svo lengi lifað við. Beauvoir leitaðist jafnframt við að svara spurningunni um kvenleikann, hvaðan sú skilgreining komi og hvort aukið frelsi kvenna hafi orðið til þess að draga úr kvenleika eða jafnvel að hann hafi aldrei verið til.

Gilgameskviða er eitt elsta og best þekkta súmerska hetjukvæði sem vitað er um en það er saga hetjukonungs sem á að hafa verið upp í borginni Úrúk í Mesópótamíu um 2700 fyrir Krist. Mögulegt þykir að Gilgames hafi verið til, þó engar sönnur séu til um það en sagan um hann er einna frægust af þeim textum sem varðveist hafa frá þessum tíma. Sagan um Gilgames hefur allt sem hægt er að ætlast til af góðri hetjusögu, kviða konungsins sem þráði að verða ódauðlegur.

Í geisladiskadrifinu í bílnum mínum lifir Michael Bublé allt árið. Þar bíður hann þolinmóður í 10 mánuði til þess að láta ljós sitt skína yfir myrkustu vetrarmánuðina. Fyrr í kvöld var ég að keyra heim frá systur minni þegar ég mundi eftir honum Búbba mínum. Ég setti því diskinn af stað og við tók dýrlegur bjölluhljómur sem fyllti litlu súkkuna mína með anda jólanna.

Í stað þess að keyra beinustu leið heim ákvað ég að taka lengri leiðina. Svo ég beygði upp á Snorrabraut og niður Laugaveginn.

Að horfa á góða mynd er góð skemmtun. Að horfa á góða hryllingsmynd getur verið átakanlegt. Hver hefur ekki legið andvaka eftir að hafa horft á hryllingsmynd með öll ljós kveikt, bölvandi eigin fífldirfsku og eða sofið óværum svefni ásóttur af martröðum. Margir velta örugglega fyrir sér af hverju í ósköpunum nokkur maður vill gera sjálfum sér slíkan grikk. Þegar við horfum á hryllingsmyndir upplifum við raunverulegan ótta. Það er að segja þegar við sjáum eitthvað ógnvekjandi á skjánum slá hjörtu okkar hraðar, andardrátturinn eykst og magn stresshormóna í líkamanum eykst. Líkamar okkar verja sig þannig fyrir hættu.

[…] Það var eins og honum fyndist það vera sitt hlutverk í lífinu að gæta hinna, sem voru á svipuðu róli og hann sjálfur, að þeim liði þokkalega. Einhvers konar ábyrgðartilfinning, sem hafði tekið sér bólfestu í huganum, og hann virtist ekkert átta sig á af hverju. Hugsanlega átti tilfinningin eitthvað skylt við fyrra starf, þegar hann bar ábyrgð á lífi fjölda manns í hverjum mánuði. Starfið olli honum stöðugt meira kvíða. Hann fór að nota ótæpilega mikið áfengi og stóð í þeirri meiningu að þannig myndi hann slaka á og kvíðinn minnka. […]

Hæka (japanska: haiku) er japanskur bragarháttur sem má rekja aftur til 16. aldar. Hæka hefur þrjár ljóðlínur og samtals 17 atkvæði sem skiptast þannig að fyrsta og þriðja lína innihalda fimm atkvæði hvor en miðlínan hefur sjö atkvæði. Hækur hafa almennt hvorki rím né stuðla og eru iðulega án titils. Hefðbundnar hækur eru náttúruljóð sem innihalda vísun í eina af fjórum árstíðum en mjög mismunandi er hversu náið nútímahækur fylgja því.

Kvikmyndin The Long Kiss Goodnight eftir leikstjórann Renny Harlin kom út árið 1996. Í aðalhlutverkum eru þau Geena Davis í hlutverki Samönthu/Charly og Samuel L. Jackson í hlutverki einkaspæjarans Mitch Henessey. Í fljótu bragði er myndin aðeins góð spennumynd en ef betur er að gáð er hún yfirfull af myndrænu táknmáli sem athyglisvert er að rýna í.

Sir David Attenborough fæddist þann 8. maí, 1926 í bænum Isleworth í Middlesex á Englandi. Hann var ungur að aldri þegar hann fékk áhuga á náttúrunni og varði miklum tíma í að kanna umhverfið í kringum sig og safna steingervingum og öðrum sýnum af náttúrufræðilegum toga. Hann stundaði náttúruvísindanám með áherslu á jarð- og dýrafræði við Háskólann í Cambridge og útskrifaðist þaðan árið 1947. Á lífsleiðinni hefur Attenborough hlotið samtals 32 heiðursgráður frá ýmsum háskólum í Bretlandi fyrir framlag sitt til náttúruvísinda. Þekktastur er hann fyrir sjónvarpsferil sinn þar sem hann hefur verið þáttastjórnandi fjölda náttúru- og dýralífsþátta allt frá árinu 1951. Þar má nefna þættina Life on Earth (1979), State of the Planet (2000), The Blue Planet (2001) og Blue Planet II (2017), Planet Earth (2006) og Planet Earth II (2016), Life (2009) og Our Planet (2019).

Bankið á þakskegginu hélt fyrir henni vöku alla nóttina, aðra nóttina í röð. Miskunnarlaus hávaðinn í þakinu var yfirþyrmandi, þegar veðuröflin börðust um í styrjöld þar sem engum var þyrmt. Austur hittir vestur og járntjaldinu var komið fyrir á þakinu á fallega bláa húsinu hennar. Kalda stríðið geisaði úti og hún gat ekkert gert nema legið í volgu rúminu dauðþreytt. Hún var svo veðurhrædd. Það var eitthvað djúpt innra með henni, hræðslan byrjaði í krepptum fingrunum og tánum og breiddist út um allan líkamann eins og pest. „Hvað ef eitthvað kemur fljúgandi eins og trampólín eða þakplata beint inn um gluggann, lendir á henni og drepur hana óvart, sker hana á háls eða í tvennt svo að hvítu rúmfötin verða blóðrauð og öll búslóðin fýkur út í svartholið? Það er enginn sem stjórnar umferðinni á hlutum sem fjúka í óveðrinu.

Ljóð eftir Áslaugu Ýri Hjartardóttur.

Geðveiki, handanlíf, neysla, ofbeldi, áföll, ást, frelsi, list, þess- og hinseginleiki. Þetta eru allt dæmi um þemu og átakapunkta í bókinni Drottningin á Júpíter – absúrdleikhús Lilla Löve eftir Júlíu Margréti Einarsdóttur. Um er að ræða fyrstu skáldsögu höfundar sem kom út árið 2018 en áður hefur Júlía gefið út ljóðabókina Jarðaberjatungl og smásöguna Grandagallerí. Drottningin á Júpíter minnir mig einna helst á Yosoy Guðrúnar Evu Mínervudóttur. Báðar sögurnar innihalda martraðakennda fjöllistahópa sem draga fram ýmsa þætti í mannlegu eðli.

Nóvember 2020. Skammdegið er að leggjast á með fullum þunga, Zoom þokan liggur yfir öllu og Uglu tilkynningarnar eru farnar að renna saman. Það er áhugavert að reka nemendafélag á tímum sem þessum. Að sumu leyti auðveldara en að mörgu leyti miklu erfiðara. Ég á að minnsta kosti nóg efni í sjálfshjálparbókina 100 leiðir til að aflýsa viðburðum (og bið útgefendur hér með um að mynda einfalda röð). Við í stjórn Torfhildar, nemendafélags bókmenntafræðinema, náðum að halda einn viðburð og einn nefndarfund í persónu áður en smitum fór að fjölga í samfélaginu og líf okkar allra færðist yfir í samanþjappaða mynd á Internetið.

Þegar kvikmyndin Jennifer’s Body var frumsýnd í kvikmyndahúsum árið 2009 var hún ákveðið flopp. Hún fékk slæma útreið gagnrýnenda og skilaði litlu í kassann. En nú rúmlega tíu árum seinna hefur hún öðlast nýtt líf. Internetið geymir fullt af góðum dómum, margir lofa hana sem gleymda klassík. Er Jennifer’s Body allt í einu orðin góð? Eða var hún kannski bara góð allan tímann?

Ljóð eftir Aðalheiði Halldórsdóttur

Nú þrengir að samfélagi svo varla sést í næstu stiku á veginum í átt að því sem verður. Nú þrengir að sviðslistastofnunum, þessum musterum listanna svo heilu leikhúsin sitja nú út í vegkanti og bíða eftir því að rofi til. Tjöldin eru dregin fyrir. Ljósin eru slökkt. Í fyrsta þokumistri kófsins var fólginn mikill kraftur. Þjóðin var slegin niður, listastofnunum skellt í lás. Hinn alræmdi sameiningarandi smáþjóðar sætti sig við tekjumissi, verkefnaniðurföll og frestanir. Kláraði þetta í einni átakslotu og rauk svo út í sumarið sem kálfur að vori. Með haustinu var þjóðin slegin niður aftur og þegar það gerist getur verið þrautinni þyngri að taka því, bera sig vel og að koma sér aftur á lappir. Sameiningarandinn fer nú huldu höfði og í hans stað ber á vonleysi og þreytu. Þetta er nefnilega ekkert grettistak heldur langtímaverkefni.

Á árunum 1784 – 1791 skrifaði þýski heimspekingurinn Johann Gottfried Herder sitt frægasta verk Ideen zur Philosophie der Geschichte der Menschheit (Hugleiðingar um heimspeki mannkynssögunnar). Þar hélt hann því meðal annars fram að ekki væri aðeins til ein tegund menningar, hin eina rétta. Hann sagði að smekkur manna væri breytilegur eftir því hvar þeir byggju og þannig væri aðeins hægt að skilgreina mismunandi og breytilega menningu. Um leið hafnaði hann skilgreiningu upplýsingarinnar á því að upplifun manna væri alltaf sú sama og sagði að ekki væri hægt að greina alla menningu og dæma eftir samtímanum hverju sinni. Það er ekki öruggt að þótt einum finnist eitthvað fallegt, finnist öðrum það líka.

Claude Cahun (fædd Lucy Schwob) fæddist 25. október, 1894 í Nantes, Frakklandi. Hún var alin upp af ömmu sinni, Mathilde Cahun, þar sem móðir hennar átti við andleg veikindi að stríða. Faðir Cahun var af gyðingaættum og varð Cahun fyrir aðkasti í skóla vegna þess. Ákveðið var því að senda hana í skóla í Surrey í Englandi. Þegar Cahun kom aftur til Nantes árið 1909 kynntist hún Marcel Moore (fædd Suzanne Malherbe) og urðu þær ævilangar samstarfs- og ástkonur. Jafnframt urðu þær stjúpsystur árið 1917 þegar fráskilinn faðir Cahun giftist móður Moore, sem var þá ekkja.

Flest okkar hafa heyrt að minnsta kosti eitt lag með poppstjörnunni Elton John. Enda er hann einn af frægustu tónlistarmönnum okkar tíma. En við höfum ekki öll heyrt ævisöguna og hvað liggur að baki vinsælustu dægurlögum hans. Segja má því að kvikmyndin Rocketman sé eins konar ævisaga. Það má varla hugsa sér betri leið til að kynna okkur sögu hans en með söngvamynd, þar sem hvert lag segir sína sögu um hans líf.

Geta vel innrættir einstaklingar gert hræðilega hluti og hvað fær þá til þess? Jeannie Vanasco veltir þessari spurningu fyrir sér í bók sinni Things we didn‘t talk about when I was a girl – Það sem við töluðum ekki um þegar ég var stelpa sem út kom á síðasta árið 2019.

Brot úr ljóðasafni Ragnheiðar Guðmundsdóttur sem mun koma út á næsta ári, 2021.

Sóttkví, það er nú það. Leiðinlegasta tímabil ævi hennar svo hún muni til. Það er varla neitt hægt að gera, dagarnir líða áfram á hraða snigilsins, í sömu dauflegu rútínunni; vakna, vinna í tölvunni, borða, horfa á þætti, sofa. Af og til pantar hún mat á netinu eða hringir í vini, fer í bíltúr eða les bók. Ekkert djamm, engin mæting á vinnustað, ekkert sund. Hún getur ekki beðið eftir því að losna úr fjötrum sóttkvíarinnar, komast út í frelsið…

[…]og nú er eflaust einhver fuglanna
sem þekkir ekki muninn á
brauðsneið og ástarjátningu
með magapínu yfir
óheppilegu orðalagi mínu[…]

Það er eitthvað öðruvísi við daginn í dag, einhver ný lykt í loftinu. Litlu rebbarnir klöngrast upp úr niðurgrafinni holunni og skjótast út í morguninn. Grasið er enn þá rakt eftir nóttina og litlu rauðu loppurnar verða samstundis moldugar. Það er svo margt að skoða, því núna er kominn maí og blómin hafa sprungið út. Tófan skríður tignarlega út á eftir yrðlingunum þremur og fylgist með þeim álengdar. Hún truflar ekki leik þeirra. Hún veit að þeir fara sér ekki að voða, svo lengi sem hún hefur auga með þeim.

Í rokkbókinni The Dirt: Confessions of the World’s Most Notorious Rock Band (2001) má finna æviminningar þeirra Tommy Lee, Mick Mars, Nikki Sixx og Vince Neil. Saman skipa þeir félagar hljómsveitina Mötley Crue sem réði ríkjum í rokkheimum á níunda áratug síðustu aldar, en hljómsveitin hefur til að mynda selt yfir 41 milljón platna frá árinu 1981. Ævisagan er rituð í slagtogi við blaðamanninn og rithöfundinn Neil Strauss, sem áður hafði gefið út The Long Hard Road Out of Hell (1998) í samstarfi við tónlistarmanninn Marylin Manson. The Dirt vakti gríðarlega athygli þegar hún kom út fyrst árið 2001 og sat til dæmis á toppi New York Times Bestsellers listanum fjórar vikur í röð. Árið 2019 kom síðan út kvikmynd sem byggð er á bókinni á streymisveitunni Netflix.

Ungan dreng rekur að landi undan ströndum Hjörleifshöfða árið 1839. Landlæknir finnur barnið og lífgar það við, og upp frá því hefst ferðalag um landið þar sem þeir tveir ásamt aðstoðarmanni landlæknis, Mister Undertaker, leita að uppruna barnsins. Á leiðinni þurfa þeir að saga handlegg af konu, kafa ofan í hvalshræ eftir ambri og lenda í hremmingum úti í grimmri náttúrunni. Frásögnin fléttast saman við minningar frá yngri árum landlæknis, þegar hann var ungur maður í námi í Danmörku. Selta, apókrýfa úr ævi landlæknis, eftir Sölva Björn Sigurðarson kom út árið 2019 og hlaut góðar undirtektir gagnrýnenda. Sagan er skrifuð sem skýrsla landlæknis til félagsráðs, en þó kallast textinn á við samtímann.a

Ef það er einhver bók sem ég mæli með fyrir alla þá er það Kona í hvarfpunkti eftir geðlækninn og baráttukonuna Nawal El Saadawi. Bókin var fyrst gefin út árið 1975 og hlaut góðar viðtökur þrátt fyrir að hafa verið bönnuð í heimalandi El Saadawi, Egyptalandi, sökum umfjöllunarefnisins hennar. Nýlega var bókin gefin út í íslenskri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur af Angústúru sem hluti af seríunni ,,bækur í áskrift“. Kona í hvarfpunkti greinir frá veruleika kvenna í Egyptalandi á síðustu öld, og líklega enn þann dag í dag á sumum stöðum. Sagt er frá ungri og efnilegri stúlku, Firdaus, sem neyðist til þess að gerast vændiskona og endar í fangelsi fyrir morð. Sagan veitir innsýn í þann harða heim þar sem konum er kerfisbundið haldið niðri og þar að auki beittar andlegu og líkamlegu ofbeldi.

Ég vil fá að vera í friði, því hugurinn leitar stöðugt til Prebens, kennara míns og fyrrum elskhuga. Þegar ég hitti hann í fyrsta sinn, þá gerðist eitthvað sem varla er hægt að útskýra. Það var svo ótrúlega sterk upplifun. Preben var nýskipaður prófessor við Konunglega konservatoríið í Kaupmannahöfn, þar sem ég var í framhaldsnámi. Ég get þakkað ömmu minni sálugu það. Hún hvatti mig ótrauð áfram og gaf mér einnig heilræði sem ég hef alltaf varðveitt. „Mundu að láta hjartað ráða för“ voru hennar síðustu orð til mín.

„Stundum reyni ég að ímynda mér veröldina án bókmennta. Ég myndi sakna bóka þegar ég ferðast með flugvél. Bókabúðir og bókasöfn myndu hafa nóg af lausu hilluplássi og bókahillurnar mínar væru ekki lengur yfirfullar af bókum. Útgefendur væru ekki til eða Amazon og það væri ekkert á náttborðinu mínu þegar ég get ekki sofið á nóttunni“
-Martin Puchner.

Ég skráði mig á námskeið sem heitir „Ancient Masterpieces of World Litarature“ eða forn meistaraverk heimsbókmenntanna. Þetta var mjög áhugavert og skemmtilegt námskeið og ég lærði bæði um bókmenntir sem ég hafði ekki heyrt um áður ásamt fleiri þekktum verkum.

Myndasagan Slaughterhouse-five, or the Children‘s Crusade kom út á dögunum við góðar undirtektir lesenda og gagnrýnenda. Hún er skrifuð af Ryan North, sem er m.a. þekktur fyrir að vera höfundur myndasagnanna Adventure Time og The Unbeatable Squirrel Girl, og myndskreytt af spænska listamanninum Albert Monteys. Myndasagan er byggð á samnefndir skáldsögu Kurt Vonnegut frá árinu 1969. Skáldsaga Vonnegut er að hluta til sjálfsævisöguleg, þar sem hún byggir á upplifun hans í seinni heimsstyrjöldinni, en hún flokkast einnig sem vísindaskáldsaga þar sem hún fjallar um geimverur og tímaflakk.

Homo Sapína sem er fyrsta skáldsaga grænlenska rithöfundarins Niviaq Korneliussen er í senn afar óþægileg og falleg. Skáldkonan hefur einstakt lag á því að skapa áhrifamikil hughrif, meira að segja kápa bókarinnar öskrar á mann. Það er því ekki að undra að bókin hafi vakið mikla athygli þegar hún kom út en hún seldist eins og heitar lummur á Grænlandi og var fljótlega gefin út í Danmörku. Skáldsagan kom út hér á landi árið 2018 í íslenskri þýðingu Heiðrúnar Ólafsdóttur og vakti talsverða athygli. Bókin hefur einnig verið þýdd á að minnsta kosti átta önnur tungumál. Allmikið hefur verið fjallað um Homo Sapína en í viðtali við The New Yorker, segir sjónvarpskonan Nina Paninnguaq Skydsbjerg Jacobsen, að fyrir útkomu bókarinnar hafi grænlenskar bókmenntir gert allt út á hefðina.

Ég horfði á Edduna í sjónvarpinu þriðjudagskvöldið 6. október. Kvikmyndirnar sem fengu flestar tilnefningar voru Hvítur hvítur dagur og Agnes Joy. Af einhverjum ástæðum fór ég að hugsa um kvikmyndina Vonarstræti frá árinu 2013 sem mér fannst eftirminnilegri en hinar tvær áðurnefndu sem voru samt alveg ágætar. Vonarstræti er áhrifamikil kvikmynd en eins og góð bók situr hún eftir í minninu.

Hvernig er hægt að skrifa handrit og leikstýra kvikmynd sem gleymist seint?  Hvað þarf til?  Þarf leikstjórinn að hafa upplifað eitthvað sambærilegt í nærumhverfinu eða jafnvel á eigin skinni? Erfitt er að fá svar við því nema ræða beint við leikstjóra en það er samt áhugavert að hugleiða hvað þarf til.

Þrátt fyrir ungan aldur á hin 26 ára bandaríska indí-popp tónlistarkonan Greta Kline, betur þekkt undir sviðsnafninu Frankie Cosmos, að baki sér á fimmta tug netstuttskífa sem flestar eru að finna á tónlistarveitunni Bandcamp. Í seinni tíð hefur hún einnig gefið út fjögur stúdíó albúm og tvær smáskífur sem finna má á Spotify og hafa notið töluverðra vinsælda. Albúmin eru að mörgu leyti rökrétt framhald af netstuttskífunum sem eru hráar og tilraunakenndar. Greta byrjaði að læra ensku og ljóðlist við New York University en hætti eftir tvö ár til að sinna tónlistarferlinum. Hún leggur áherslu á textasmíð en lögin sem liggja henni að baki eru full af bókmenntalegum innblæstri og inn á milli slæðast tilvísanir í ljóð og annan skáldskap.

Hin svokölluðu Stonewall mótmæli voru einn mikilvægasti hlekkur í mannréttindabaráttu samkynhneigðra en atburðurinn markaði þáttaskil í réttindabaráttu þeirra. Þegar leikritið The Boys in the Band (1968) var frumsýnt á fjölum Broadway ári fyrir Stonewall mótmælin var það í fyrsta sinn sem daglegt líf samkynhneigðra var sýnt opinberlega. Meðbyr var með leikritinu sem varð vinsælt þótt það hafi sært blygðunarkennd margra. Verkið segir frá hópi samkynhneigðra vina sem ákveða að halda afmælisveislu fyrir félaga sinn. Afmælið er haldið í íbúð við Upper East Side á Manhattan í New York. Gamall skólafélagi frá háskólaárunum kemur óvænt í afmælið sem veldur ákveðinni togstreitu á milli vinanna.

Við þekkjum flest söguna af syndaflóðinu, þegar Guð lét stórflóð ganga yfir jörðina í refsingarskyni og gjöreyddi lífi á jörðinni vegna synda mannkyns og nýtt betra mannkyn spratt síðan upp. Þjóðsagnafræðingurinn Alan Dundes sagði í bók sinni The Flood Myth (1988) að af öllum goðsögum í heiminum hafi engin önnur fengið jafn mikla athygli í gegnum aldirnar og sagan af syndaflóðinu. Goðsögnin er ein sú útbreiddasta sem þekkist í heiminum en hana má finna í öllum heimshlutum, jafnvel þar sem ólíklegt eða ómögulegt er að flóð eigi sér stað. Enn þann dag í dag höldum við áfram að segja þessa sögu, en hvers vegna?

Ef yfir mig kæmi dramatískur andi myndi ég segja að ég hefði „gefið dansinum líf mitt“ enda dvalið langdvölum við ballettstöngina. Ég hef fært mig inn og út úr fyrstu „position“ sem og öðrum tengdum og ótengdum stöðum í tugþúsundir klukkustunda frá því ég var barn og langt fram á miðjan aldur.

Ég er dansari þannig hef ég skilgreint mig. Ég hef því, eðli málsins samkvæmt aldrei leikstýrt, það er að segja öðru en heimilislífinu. Þó var það síðasta útspil fulltrúa minna á himninum að leiða mig austur á Egilsstaði þar sem ég gegndi stöðu aðstoðarleikstjóra í leikverki. Og hvað vill dansari upp á leikhúsdekk?

Menning Íslendinga er mikilvægur partur af samfélaginu. Flestir sem „gefa okkur“ þessa menningu eru verktakar. Helsta tónlistarfólkið, kvikmyndagerðarfólk, rithöfundar og listafólk eru hvergi á föstum launum. Leikhús, tónleikar og listasýningar hafa stöðvast alveg vegna þess heimsfaraldurs sem nú geisar. Hins vegar er kvikmyndagerðin enn að störfum með ýmsum breytingum.

Rithöfundur, leikari, tónlistarmaður og listakona voru spurð út í áhrif Covid á starf þeirra og áhugavert var að sjá svör þeirra.

Í byrjun 19. aldar dvöldu fimm vinir saman í sumarbústað í Sviss. Þessi bústaðarferð varð til þess að Dr. John William Polidori skrifaði og gaf út The Vampyre árið 1819, en hún er af mörgum talin hafa lagt grunninn að vampírubókmenntagreininni eins og við þekkjum hana í dag.

Ef skoðuð er þróun nútímavampírubókmennta er hægt að rekja BDSM-bókaseríuna Fifty Shades of Grey eftir E.L. James alla leið aftur til The Vampyre og þessarar afdrifaríku bústaðarferðar fyrir 200 árum.

Heima hjá mér eru til að minnsta kosti hundrað bækur eftir Stephen King. Maðurinn minn hefur lesið  þær allar, sumar oftar en einu sinni. Allt þetta bókaflóð eftir sama höfundinn fór í taugarnar á mér því bækur eru plássfrekar. Þetta átti eftir að versna, því stundum hurfu á dularfullan hátt bækur úr bókahillunni og í staðinn læddist ein og ein skrudda eftir Stephen King í auða plássið.

Ég var löngu búin að ákveða með sjálfri mér að Stephen King skrifaði eingöngu hryllingssögur, sem ég hafði ekki nokkurn áhuga á að lesa. Einn daginn þegar ég kom þreytt heim eftir langan vinnudag, lá lítil bók eftir Stephen King á eldhúsborðinu:  Breathing Method, frá 1982. Ég tók ósjálfrátt upp bókina og byrjaði að lesa….

Nýtt fræðirit um Duchenne sjúkdóminn.

Bókin Duchenne og ég var gefin út á dögunum í þýðingu Huldu Bjarkar Svansdóttur. Útgáfuhóf var 7. september sl. í tilefni af alþjóðlega Duchenne deginum sem haldinn var hátíðlegur í fyrsta sinn á Íslandi.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands var heiðursgestur hátíðarinnar. Duchenne vöðvarýrnun á Íslandi stendur að útgáfu bókarinnar. Hún fjallar um sjúkdóminn Duchenne Muscular Dystrophy frá sjónarhorni ungs drengs. Hann segir frá fjölskyldu sinni og sjúkdómnum á einföldu máli, þannig að bæði börn og fullorðnir skilja.

Rétt áður en hin goðsagnarkennda Clarice Lispector kvaddi þessa jörð gaf hún út sína tíundu skáldsögu, Stund stjörnunnar (1977).

Í þessari skáldsögu Lispector mætast hæfileikar hennar og sérviska á þann hátt sem er lýsandi fyrir ritferil hennar, kvíðinn sem fylgir því að skrifa en á sama tíma þörfin sem knýr hana áfram. Glæst örlög hinnar tragedísku hetju, Macabéu, eru því alveg í takt við þá angist og sköpunargleði sem felst í skrifum Lispector.

Lispector tekst oft á tíðum við kvenlegar upplifanir og er talin hafa búið yfir ákveðnum skáldlegum töfrum sem fangar lesendur í verkum hennar. 

Þann 23. september síðastliðinn setti Netflix í sýningu kvikmyndina Enola Holmes sem er  hugarfóstur bandaríska rithöfundarins Nancy Springer.

Kvikmyndin byggir á fyrstu bók hennar af sex í seríu um hina 16 ára gömlu Enolu Holmes (Millie Bobby Brown), yngri systur hins fræga einkaspæjara Sherlock Holmes (Henry Cavill). Í upprunalegu bókum rithöfundarins Sir Arthur Conan Doyle um Sherlock Holmes er þó ekki minnst á neina systur, aðeins eldri bróður hans Mycroft en Enola Holmes er þó að engu að síður skemmtileg viðbót við Holmes fjölskylduna.

Eitthvað virðist hins vegar túlkun Henry Cavills í hlutverki einkaspæjarans fræga fara fyrir brjóstið á umsjónarmönnum dánarbús Doyles því það hefur nú lögsótt Netflix og Nancy Springer. Af hverju? Jú af því að Sherlock Holmes í myndinni sýnir tilfinningar.

Margir halda að vinna bókmenntafræðinemans fari aðallega í að greina stuðla og höfuðstafi á milli þess sem hann les Shakespeare og Laxness. En því fer auðvitað fjarri. Í haust er ég skráð í áfanga sem heitir Norrænar bókmenntir nýrrar aldar.

Hingað til höfum við aðallega verið að skoða ör-forlög og nauðsyn þeirra í menningu okkar, en nýlega bættist við vistrýni og mannaldarhugmyndir og hvernig þessi hugtök geta tvinnast inn í bókmenntafræðina.

Með hugtakinu mannöld, er verið að vísa í tímabil í jarðsögunni þar sem áhrif athafna mannsins eru greinileg og er þá nærtækast að tala um hlýnun jarðar. Fólk greinir á um hvenær mannöldin byrjar. Í bókmenntum er hugtakið mannöld notað mest í sambandi við vistrýni þar sem mannkynið og náttúran er sem ein heild og íróníuna, ljótleikann og fegurðina sem getur falist í því.

Tæpum þrjú hundruð árum eftir dauða sinn fær Sunnefa Jónsdóttir (fædd 1723) loks að segja sögu sína með aðstoð leikskáldsins Árna Friðrikssonar. Þetta er saga konu sem tvívegis var dæmd til drekkingar fyrir það eitt að ala börn í heiminn. „Ég er þakklát fyrir að fá að ljá henni rödd mína“ segir Tinna Sverrisdóttir leikkona í viðtali við Landann um verkið Sunnefa, sönn saga? sem frumsýnt var í Menningarmiðstöðinni á Egilsstöðum nú í september.

Öll erum við í stöðugri leit að okkur sjálfum. Sem er í raun kannski hugsunarskekkja að því leytinu til að hún gerir ráð fyrir að til sé eitthvað eitt óbreytanlegt Sjálf sem hægt sé að finna. Í það minnsta viljum við flest öll að minnsta kosti læra að þekkja okkur sjálf og til eru ýmis (misgóð) hjálpartæki og tól til að aðstoða okkur í þeirri þekkingarleit. Eitt þeirra eru persónuleikapróf en þau eru vinsæl meðal bæði fyrirtækja, háskóla og einstaklinga til að leggja mat á persónuleika fólks og sem sjálfshjálpartól. Eitt frægasta persónuleikapróf í heiminum er Myers-Briggs prófið sem byggir á kenningum sálfræðingsins Carl Jung. Prófið leggur upp með að hægt sé að skipta mannkyninu í sextán persónuleikatýpur sem hver hefur sína fjögurra bókstafa skammstöfum. Sjálf hef ég tekið Myers-Briggs prófið, eða eina af ókeypis netútgáfunum sem byggja á því, nokkrum sinnum en hef fengið tvær mismunandi niðurstöður á víxl.

Þann 4. september síðastliðinn kom út tölvuleikurinn Tony Hawk‘s Pro Skater 1+2 Remastered við mikinn fögnuð aðdáenda Tony Hawk leikjaseríunnar sem er fyrir löngu orðin sígild. Í leikjunum geta spilarar brugðið sér í hlutverk nafntogaðra hljólabrettafrömuða og leikið listir sínar í hinum ýmsu borgum um allan heim.

Hrakspár og yfirvofandi heimsendir hafa lengi þótt spennandi umfjöllunarefni innan bókmennta- og kvikmyndaheimsins. En á síðustu þrjátíu árum hefur bókmenntagreinin ,,climate fiction“ eða ,,cli-fi“ orðið sívinsælli í ljósi aukinnar umræðu um loftslagsbreytingar. En hafa slík verk jákvæð áhrif á baráttuna við hamfarahlýnun?

Gríska gyðjan Aþena var gyðja vefnaðar, herkænsku og visku. Hún kemur fram í ýmsum bókmenntum Forn-Grikkja svo sem Ódysseifskviðu og Illionskviðu.

Hún er afar áhugaverð að því leyti að persóna hennar virðist einkennast af andstæðum, svo ekki sé minnst á heldur einkennilega sögu um fæðingu hennar. Margar spurningar vakna við greiningu á persónu hennar og ein þeirra er hvort Aþena hafi verið hinsegin.

 

Nokkur trúarbrögð líta á Biblíuna sem heilagan sannleika. Ef Biblían er lesin sem bókmenntaverk, afhelgast þá ritningartextinn?

Guðmundur Karl, sóknarprestur í Lindakirkju í Kópavogi bendir á að bókmenntir Biblíunnar birti sjálfan trúararfinn og fullkomlega eðlilegt sé að lesa þær út frá öllum þeim mannlegu mælikvörðum sem til eru, til dæmis sagnfræði, fornleifarannsóknum, trúarlegri ritskýringu og með aðferðum bókmenntafræðinnar.

Það má skipta ritunum upp í hina ýmsu flokka eftir inntaki; t.d. bókmenntaformi, sögulegum uppruna, ljóðrænum ritum, ættfræði og svo má lengi telja. En er hægt að flokka Biblíuna sem glæpasögu að einhverju leyti?

Fræðimenn hafa skapað ótal fræði í gegnum tíðina. Flest eru þessi fræði til þess að skilja manneskjuna betur og um leið fræðast um okkur sjálf. Lýðfræði eru einmitt þau fræði sem hafa tekið manneskjuna til skoðunar, eða réttara sagt tengsl hennar og mannfjöldans. Dr. Ari Klængur Jónsson hefur mikinn áhuga á lýðfræðum en hann hefur lokið doktorsnámi sínu við Stockholm University og útskýrir fyrir okkur aðeins nánar hvað liggur að baki lýðfræðarinnar.

Ari Klængur segir að lýðfræði sé vísindagrein sem fjallar um hvaða afleiðingar breytingar hafa á mannfjöldann og orsakir þessara breytinga. Lýðfræðingar rannsaka þannig frjósemi, andlát og búferlaflutninga sem eru þær þrjár stoðir sem hafa haft áhrif á mannfjöldann á hverjum stað og tíma.

Fyrir sirka tíu árum voru ég og mínir jafnaldrar byrjaðir að minnast aldamótanna með söknuði. Við áttum káta endurfundi með hljómsveitum eins og Limp Bizkit og KoRn þegar við horfðum á fleiri klukkutíma af tónleikaupptökum frá hamfaratónlistarhátíðinni Woodstock ’99 sem Marilyn Manson lýsti einu sinni sem Altamont tíunda áratugarins. Enn í dag virðist nostalgían fyrir níunda áratugnum vera allsráðandi í kvikmyndum, sjónvarpi og popptónlist. Það ber að hafa í huga að nostalgía okkar fyrir liðnum tíma litast meira af minningum okkar en því hvernig þessir tímar voru í raun og veru, við munum eftir því sem talaði til okkar og skáldum svo í eyðurnar. Í þessu samhengi langar mig að tala um myndasöguseríuna Go-Bots en það eru engar ýkjur að segja að nostalgía er eina ástæðan fyrir því að sú myndasaga er til yfir höfuð.

Kvikmyndin Antebellum (2020) kemur út á samfélagslegum umbótartímum, þegar Black Lives Matter hreyfingin er í hávegum höfð og augu heimsins beinast að kerfisbundnum rasisma. Líkt og kvikmyndirnar Get Out (2017) og Us (2019) í leikstjórn Jordan‘s Peel, er kvikmyndin Antebellum í leikstjórn Gerard Bush og Christopher Renz, einnig ádeila á innbyggðan samfélagslegan rasisma í Bandaríkjunum.

Myndin vekur upp spurningar um frelsi, jafnrétti, fordóma og mannvonsku. Hvað er frelsi? Hvenær erum við fullkomlega frjáls? Verður það þegar við erum laus við alla fordóma úr samfélaginu og allir standa jafnfætis? 

Þú ert kominn á tónleikastað Ægis Sindra Bjarnasonar, tónlistarmanns og útgefanda. Hér á jaðartónlistarsena Reykjavíkur sér samastað, algjör suðupottur ólíkra tónlistarstefna. Húsið er í eigu fjölskyldunnar og ævintýrið hófst á því að Ægi vantaði æfingapláss og því kom hann sér fyrir í bílskúrinn sem smám saman breyttist í þennan fína tónleikakjallara. Nafnið á staðnum kemur frá númeraplötu sem fylgdi bílskúrnum og var seinna fest á hurðina til að fela gat, en nú er hurðin auglýsingaskilti staðarins og hefur þykkt málningarlag vegna þess að hún er máluð upp á nýtt fyrir hverja tónleika.

Yeonmi Park vakti gríðarlega athygli með bókinni Með lífið að veði sem kom út árið 2017. Sama ár hélt Yeonmi fyrirlestur í Háskóla Íslands þar sem hún fjallaði um örlög sín og lífsreynslu, færri komust að en vildu. Hér verður sagt frá bókinni og efnistökum hennar.

Bókin er byggð á endur-minningum höfundar og lýsir vel hvernig er að búa við kúgun, hungursneyð og ótta og hafa nánast enga eða ranga vitneskju um lífið annars staðar. Yeonmi fæddist í Norður-Kóreu árið 1993 og var aðeins sex merkur við fæðingu. Foreldrunum var sagt að óvíst væri hvort hún myndi lifa eða deyja. Aftur barðist Yeonmi fyrir lífi sínu þrettán ára þegar mæðgurnar tóku mikla áhættu og flúðu yfir landamærin til Kína en það var árið 2006.

Síðastliðið ár hafa skógareldar verið tíðir í heiminum. Amason regnskógurinn var í ljósum logum frá janúar og fram í október árið 2019 og sama ár hófst eitt versta skógarelda tímabil í Ástralíu sem varði frá júní 2019 til maí 2020. Regnskógar í Brasilíu brenna þegar þetta er skrifað og það sem af er liðið ári hafa 209.000 km2 af landi brunnið í Síberíu í Rússlandi, sem samsvarar meira en tvöfaldri stærð Íslands. Skógareldar geisa í Bandaríkjunum, sem er ekki fátítt, en stærð eldanna er óvenjulega mikil. Vísindamenn rekja alla þessa elda til eins og sama orsakavaldsins; loftslagsbreytinga.

Ritstjórn (smellið til að lesa meira):

Birna Lárusdóttir
Birna LárusdóttirNemandi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu
Read More
Ég er í grunninn blaða- og fréttamaður, með BA próf í fjölmiðlafræði frá University of Washington í Seattle, en hef unnið við ýmislegt í gegnum tíðina. Ég var lengi á hinum pólitíska vettvangi, einkum í sveitarstjórn en líka á landsvísu. Áður en ég settist á skólabekk nú í haust var ég upplýsingafulltrúi VesturVerks á Ísafirði, sem hyggur á byggingu nokkurra vatnsaflsvirkjana á Vestfjörðum.
Sigríður Inga Sigurðardóttir
Sigríður Inga SigurðardóttirNemandi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu
Read More
Ég heiti Sigríður Inga Sigurðardóttir og er meistaranemi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Ég er með BA-próf í þjóðfræði með þýsku sem aukagrein frá HÍ, auk þess sem ég lauk námi í leiðsögn frá EHÍ. Tími fyrir áhugamál er af skornum skammti en ég hef yndi af útivist og fjallgöngum og finnst gaman að ferðast og læra eitthvað nýtt. Undanfarna tvo áratugi hef ég að mestu unnið við blaðamennsku en á síðasta ári skipti ég tímabundið um starfsvettvang og var flugfreyja hjá Icelandair. Ég stefni að því vinna áfram við blaðamennsku og skrif.
Sigríður Wöhler
Sigríður WöhlerNemandi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu
Read More
Ég heiti Sigríður Wöhler og ég starfa sem ritstjóri hjá Menntamálastofnun. Ég er í hagnýtri ritstjórn og útgáfu til þess að auka við þekkingu mína í starfi. Áhugamálin eru margvísleg, ég er mikið í útivist, stunda fjallgöngur, sund og skíði. Ég hef mikinn áhuga á garðrækt og alls kyns ræktun til heimanotkunar og er svo heppin að eiga stóran garð þar sem ég fæ mikla útrás fyrir þetta hugðarefni mitt. Ljósmyndun hefur einnig náð að heilla mig en því miður næ ég ekki að sinna því áhugamáli eins og ég vildi, í bili.
Sæunn Þórisdóttir
Sæunn ÞórisdóttirNemandi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu
Read More
Ég hlakka til að takast á við ritstjórn á næstu misserum og vonast til að geta gert fagið að framtíðaratvinnu. Áhugamálin mín eru fjölmörg en þau sem ég hef verið að sinna mest undanfarið eru; útivist, bókmenntir og eins og svo margir aðrir smitaðist ég af plöntuáhuga og ræktun í samkomubanninu.
Previous
Next