Ragnheiður Guðmundsdóttir

Ever tried.
Ever failed.
No matter.
Try again.
Fail again.
Fail better.
~Samuel Beckett~

Ég skráði mig í stjórnmálafræði haustið 2017, þá 35 ára að aldri og þakklát fyrir að vera ennþá á lífi eftir erfiða krabbameinsbaráttu. Námið átti að vera ákveðin endurhæfing fyrir heilann, þjálfun fyrir athygli og minni sem enn var hulið lyfjaþoku og markað af áföllum. Þó ég hafi notið mín í stjórnmálafræðinni sem var algjör viðsnúningur frá innanhús arkitektúr (mín fyrri menntun), þá var það ritlistin sem ég skráði mig í sem aukagrein sem hreif mig hvað mest og þá sérstaklega ljóðaskrifin. Það hefur alltaf blundað í mér að skrifa og hafði ég fengið að heyra það þó nokkuð oft að ég væri góður penni en ég lét það yfirleitt sem vind um eyru þjóta þar sem ég var ekki sterk í stafsetningu og málfræði og fannst mér ég þar af leiðandi ekki eiga erindi inn á þann vettvang. Ég komst svo seinna að því að ímyndunarafl líkt og mitt er ekki sjálfgefið og það eru aðrir sem geta farið yfir stafsetningu og málfræði fyrir mig. Það er alla veganna ekki lengur hindrun fyrir mig.

Ég elska sálfræðiþrillera, hrollvekjur og vísindaskáldskap og er ég þessa stundina að skrifa skáldsögu sem er einhverskonar blanda af öllum þessum þremur flokkum. Ég veit í rauninni ekki af hverju ég er svona heilluð af því yfirnáttúrulega og óræðna en það hefur einhvernvegin alltaf höfðað sterkt til mín og því var það alveg eðlileg þróun að ég færi að skrifa sjálf slíkar bókmenntir með smá pólitísku ívafi.  Ég skrifa einnig mikið af tregafullum og dulspekilegum fríljóðum sem endurspegla upplifun mína af áfallastreitu og mína andlegu vinnu. Þar er mín ósk að ljóðabók eftir mig komi út fyrir jól á þessu ári og skáldsagan á næsta ári. Minn draumur er að skrif verði mitt líf og starf.

Ég hef einnig skrifað pistla og viðtöl fyrir blað Krafts: félags ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra, Íslensku leiðina: blað stjórnmálafræðinema sem ég einnig ritstýrði og fyrir bæði vef- og prentmiðil Stundarinnar. Þá hef ég mest verið að skrifa um krabbameins og áfallatengt málefni, heilsu, útivist, stjórnmál og fréttir frá Indlandi en ég var um tíma búsett á Indlandi og er gift Indverja. Ég hef hinsvegar ekki alltaf verið alveg örugg í því sem ég var að gera og langaði að læra meira um vefskrif og skráði mig því á það námskeið. Ég væri til í að skrifa meira um bæði líkamlega og andlega heilsu, sem og pólitísk- og félagsleg málefni.