Aðalheiður Halldórsdóttir

Það er nefnilega svo, að hvernig svo sem menn keppast við að gera ekkert, vísa til einskis og byggja á engu, þá sér áhorfandinn um að geta í hverja eyðu, skapa sitt eigið samhengi og gefa því marklausa merkingu. Og þess vegna vitum við það eitt fyrir víst að hvert verk á sér upphaf en engan endi.
~ Þorvaldur Þorsteinsson ~

 Hvers vegna bókmenntafræði?

Ég kem beint úr leikhúsinu inn í bókmenntafræðina, hef verið starfandi dansari við Íslenska dansflokkinn í um 15 ár. Samhliða hef ég unnið við uppfærslur Leikfélags Reykjavíkur og jafnframt verið mikill leikhúsneytandi sjálf. Lestraráhugi hefur einnig fylgt mér alla tíð. „Listhneigð“ sennilega þokkalegasti stimpill á ennið á mér.

Bókmenntafræði er því kannski ósköp fyrirsjáanlegt framhald. Námið þjónar því að stækka eða auðga minn litla heim, eða upplifun mína af honum. Svolítið eins og að fylla upp í hvítu fletina á myndinni sem ég er nú þegar búin að teikna. Er að bæta við núönsum og dýpt og kasta úr sér gengnum hugmyndum í endurnýtanlegu tunnuna. Stúdían varpar auðvitað nýju ljósi á samfélagið mitt eins og ég gerði ég ráð fyrir þegar ég byrjaði en það sem ég sá ekki fyrir er hversu gaman það er að skoða minn leikhúsferil fram til þessa í nýju ljósi. Máta nýjar hugmyndir á gömul handtök, dansspor og löngu liðin verk. En það er auðvitað mjög prívat gjörningur og kemur engum að góðu nema sjálfri mér.

Hver er þín aukagrein?

Ritlistin er mín aukagrein svo ég er samhliða að þjálfa þann óþjálfaða vöðva sem skrifin eru. Móta nýja rás út úr mér. En það tekur mörg ár að þjálfa færni eins og ég þekki svo vel úr dansinum svo ég tala af mjög lágum stalli um getu mína þar. Ég er einfaldlega að þreifa á forminu og stundum klaufalega.

Af hverju ferðu ekki bara að vinna, orðin svona rígfullorðin?

Ég er bara eitthvað svo forvitin um þetta allt saman og væri raunverulega til í að vera skráð á námskeið í háskóla út ævina, sífellt að sáldra nýju efni yfir heilann. Við sjáum svo til hvort ég standi við það. Þó er augljós galli á þeirri hugmynd. Það er nefnilega held ég nauðsynlegt að taka tíma til að vinna úr öllu sem kemur inn. Þetta verður líklegast eitthvert „fjúsjon-mix“ af debet og kredit út ævina.

En mikilvægasta forsenda míns náms er að ég er hér fyrir mig, til að safna í sarpinn og fita hugmyndir mínar um listir, menningu og samfélag, svo hafi ég hug á að ala af mér eitthvað í framtíðinni (sem ég hef) þá vex það vonandi upp úr frjórri jarðvegi en áður en ég hóf mitt nám hér. Ætti það ekki annars að virka einhvern veginn þannig?

En er eitthvað vit í þessu námsvali hjá þér?

Námið er kannski ekki praktískt en ég hef trú á því að ef maður fylgir hugðarefnum sínum, eltir og matar forvitnina þá leiði það mann á gefandi staði. Ég gerði heiðarlega tilraun til að ganga praktískari (veskis-vænni) slóða, snúa baki við þessu listabrölti, sem einhverju tímaskeiði í lífi mínu en taugin togaði frekjulega í kviðinn á mér svo hér er ég.