Umbreytanleg vélmenni og tímarammi nostalgíu

Tímaramminn fyrir nostalgíu í dægurmenningu virðist vera um tuttugu ár en nostalgíu mætti skilgreina sem söknuð til liðinna tíma eða öllu heldur söknuð til minninga okkar af liðnum tímum. Nú er ég ekki að halda því fram að þetta séu nákvæm vísindi en ég er með nokkur dæmi þessari fullyrðingu til stuðnings.

Á áttunda áratugnum voru sjónvarpsþættirnir Happy Days (1974-1984) afar vinsælir en þeir fjölluðu um líf unglinga á sjötta áratugnum. Á tíunda áratugnum fór sjónvarpsþátturinn That ‘70s Show (1998-2006) í útsendingu en eins og nafnið gefur til kynna var sá þáttur að stórum hluta keyrður á nostalgíu fyrir áttunda áratugnum. Nostalgía fyrir níunda áratugnum setti tóninn fyrir dægurmenningu á fyrsta áratug 21. aldarinnar en Transformers (2007), kvikmynd byggð á leikfangalínu og teiknimyndaþáttum frá níunda áratugnum, varð ein vinsælasta kvikmynd áratugarins og gat af sér fimm framhaldsmyndir. Einnig gengu mörg tískufyrirbæri og tónlistarstefnur 9. áratugarins í endurnýjun lífdaga upp úr aldamótum.

Blossi / 810551 (1997)

Þegar 2010 gekk í garð var kominn tími á að tíundi áratugurinn fengi að láta ljós sitt skína. Það var sérstaklega áhugavert að sjá íslensku kvikmyndina Blossi/810551 fá verðskuldaða uppreist æru á meðal kvikmyndaáhugafólks sem flest voru e.t.v. of ung til að muna að hún fékk afar dræmar viðtökur gagnrýnenda og áhorfenda árið 1998. Um og upp úr 2020 vöknum við síðan við þá hrollvekjandi tilhugsun að dægurmenning fyrsta áratugs þessarar aldar mun fóðra nostalgíu næstu tíu ára. En eins og áður kom fram þá eru þetta alls ekki nákvæm vísindi.

Fyrir sirka tíu árum voru ég og mínir jafnaldrar byrjaðir að minnast aldamótanna með söknuði. Við áttum káta endurfundi með hljómsveitum eins og Limp Bizkit og KoRn þegar við horfðum á fleiri klukkutíma af tónleikaupptökum frá hamfaratónlistarhátíðinni Woodstock ’99 sem Marilyn Manson lýsti einu sinni sem Altamont tíunda áratugarins.

 

Kápa bókarinnar

Enn í dag virðist nostalgían fyrir níunda áratugnum vera allsráðandi í kvikmyndum, sjónvarpi og popptónlist. Það ber að hafa í huga að nostalgía okkar fyrir liðnum tíma litast meira af minningum okkar en því hvernig þessir tímar voru í raun og veru, við munum eftir því sem talaði til okkar og skáldum svo í eyðurnar. Í þessu samhengi langar mig að tala um myndasöguseríuna Go-Bots en það eru engar ýkjur að segja að nostalgía er eina ástæðan fyrir því að sú myndasaga er til yfir höfuð.

Höfundur Go-Bots er teiknarinn Tom Scioli sem skaust fyrst fram á sjónarsviðið með kosmísku ævintýramyndasögunni The Myth of 8-Opus. Jack Kirby er án vafa stærsti áhrifavaldurinn á teiknistíl Tom Scioli en einnig gætir mikilla áhrifa frá vinsælum teiknimyndaþáttum frá 9. áratugnum sem hann hefur líklega horft mikið á sem barn. Tom Scioli var því sérstaklega vel til þess falinn að teikna og skrifa myndasögur eins og Transformers Vs. G.I. Joe og síðar Go-Bots.
Transformers og Go-Bots eru keimlíkar leikfangalínur sem voru feykivinsælar á níunda áratugnum og urðu kveikjan að teiknimyndaþáttum sem mörg börn níunda áratugarins minnast með nostalgíu. Um var að ræða vélmenni sem hægt var að umbreyta í bíla, flugvélar, þotur og í einhverjum tilfellum í segulbandsspólur. Báðar þessar leikfangalínur voru auglýstar með teiknimyndaþáttum en í valdatíð Ronald Reagan voru auglýsingalög rýmkuð þannig að skyndilega var löglegt að auglýsa leikföng fyrir börn með hálftíma löngum sjónvarpsþáttum sem voru sýndir vikulega.

Plánetan Gobotron

Eftir gríðarlegar vinsældir Transformers Vs. G.I. Joe tilkynnti Tom Scioli á samfélagsmiðlum að hann ynni að myndasögu um vélmennin úr Go-Bots-leikfangalínunni sem yrði gefin út í fimm tölublöðum. Transformers lifir enn góðu lífi í kvikmyndum og sjónvarpi og á sér ennþá dyggan aðdáendahóp ungra jafnt sem aldna. Það sama er ekki hægt að segja um Go-Bots sem lifir fyrst og fremst í minningum þeirra sem horfðu á teiknimyndaþættina og léku sér með leikföngin á barnsaldri, en lögðu þau síðan á hilluna þegar unglingsárin tóku við. Go-Bots gekk því aldrei í endurnýjun lífdaga fyrr en myndasagan hans Tom Scioli kom út árið 2018.

 Go-Bots eftir Tom Scioli er nokkuð fágaður en fjörugur vísindaskáldskapur um gervigreind og samofið samband mannsins við tækni. Vélmennin voru hönnuð til að vera þjónar okkar og til að auðvelda okkur lífið en snemma í sögunni gera þau uppreisn gegn manninum og í þriðja heftinu hoppar söguþráðurinn fram um nokkra áratugi þar sem vélmennin hafa náð yfirráðum yfir plánetunni. Áferðin á pappírnum líkir vísvitandi eftir myndasögum sem komu út á 9. áratugnum, pappírinn er gulleitur og litapallettan er meira í ætt við Jack Kirby en það sem er ríkjandi í dag. Einnig notast Tom Scioli mikið við skírskotanir í frægar myndasögur og kvikmyndir sem margir lesendur ættu að þekkja. Svona vísanir virka stundum eins og frekar ódýr leið til að fanga athygli lesandans en þar sem myndasagan í heild sinni er að miklu leyti keyrð á nostalgíu myndi ég segja að þessar skírskotanir væru mjög viðeigandi. Auk þess sem það er skemmtilega ófyrirsjáanlegt hvaða kvikmyndir Scioli vísar til. Snemma í seríunni er vísun í teiknimyndina Akira, nokkuð borðliggjandi þar sem sú kvikmynd hefur haft umtalsverð áhrif á dægurmenningu síðan hún kom út árið 1988. Vísað er til senunnar þar sem Shotaro Kaneda snarhemlar á sínu íkoníska mótorhjóli, en vísanir í þetta tiltekna skot úr Akira er að finna í fjölda teiknimynda sem hafa verið gerðar síðan 1988. Ég var hins vegar engan veginn búinn undir það að síðasti rammi myndasögunnar væri bein vísun í textaspjaldið í lok Stanley Kubrick-myndarinnar Barry Lyndon (1975).

Vísun í Barry Lyndon (1975)

Go-Bots byggir í raun mjög lauslega á upphaflegu teiknimyndaþáttunum og má því segja að Tom Scioli hafi skapað alveg nýjan söguheim á grunni bernskuminninga af þáttum sem lifa aðallega í þokukenndu minni þeirra sem ólust upp á 9. áratugnum. Eflaust geta margir tengt við það að sjónvarpsefnið sem við horfðum á og bækurnar sem við lásum á uppvaxtarárum okkar eru oft mikilfenglegri og umfangsmeiri í minningunni en þær voru í raun og veru. Svipaðar hugleiðingar lágu að baki myndasögu sem Tom Scioli hafði gert nokkrum árum áður sem hét American Barbarian. Sú myndasaga var óður hans til teiknimyndaþátta eins og Thundarr the Barbarian og He-Man and the Masters of the Universe, en hann forðaðist að rifja þættina upp og reiddi sig frekar á minningar sínar af þáttunum og því sem ímyndunarafl hans hafði skáldað í eyðurnar í gegnum árin.  

Í þessu samhengi er einnig áhugavert að nefna kvikmyndagerðarmanninn Panos Cosmatos sem sendi frá sér hrollvekjuna Beyond the Black Rainbow árið 2011. Sú kvikmynd var að stórum hluta innblásin af tíðum ferðum hans á myndbandaleigur þegar hann var barn. Þar lagði hann stund á að virða fyrir sér hulstrin utan um hrollvekjur sem foreldrar hans leyfðu honum ekki að sjá. Sem gerði það að verkum að hann þurfti að ímynda sér hvernig kvikmyndirnar voru.

Nostalgía hefur allt að því verið „vopnvædd“ í dægurmenningu nútímans.

Kvikmyndaframleiðendur eiga það til að notfæra sér nostalgíu til að endurpakka gömlu efni sem við höfum séð ótal sinnum og oft virkar þetta eins og frekar billeg taktík til að spila á tilfinningar áhorfandans. Samt er ég þeirrar skoðunar að nostalgía getur verið áhugaverð leið til þess að segja nýjar sögur, sé nógu mikil ástríða að baki verksins. Líklega er hægt að fullyrða það að enginn hefði ákveðið að gera myndasögu um Go-Bots nema að viðkomandi hefði ástríðu fyrir því nokkurn veginn gleymda vörumerki. Ástríðan er samt ekki það eina sem er nóg, heldur þarf líka skilning á því að nostalgían okkar er í raun ekki í neinu samhengi við raunveruleikann og má því að segja að bestu skáldverkin sem byggjast á nostalgíu líkjast helst sameiginlegum draumi okkar um fortíðina. Þetta er eitthvað sem Tom Scioli skilur mjög vel og við lestur Go-Bots leið mér eins og að hann hefði fundið leið til þess að glæða draumkenndar bernskuminningar sínar lífi. Við reiðum okkur mjög mikið á minningar okkar, þó þær séu oftast ekki áreiðanlegar, og má því segja að fortíðin sé okkur aðgengileg aðallega í draumum.