Steinunn Rósa Sturludóttir

Maður verður að rækta garðinn sinn. (Birtíngur)
~Voltaire~

Ég hóf nám við Háskóla Íslands árið 2009 en þá var hægt að skrá sig í BA-nám í ritlist. Mér tókst að klára rúmlega ár þá en varð að hætta vegna þess að ég var í fullri vinnu með náminu og það var of mikið fyrir mig. Síðasta haust ákvað ég að skrá mig í 20 einingar í bókmenntafræði og fannst það svo skemmtilegt að ég gerði það sama eftir jól. Örlögin hafa síðan hagað því þannig að ég er orðin atvinnulaus og nú er ég í fullu námi og rúmlega það og stefni á að klára BA prófið mitt í vor.

 

 

Áhugamálin mín eru margskonar. Það sem á hug minn allan er jógaástundun og allt sem viðkemur jóga, enda er ég lærður jógakennari og hef starfað við það meðfram annarri vinnu í nokkur ár. Ég hef líka áhuga á útiveru og fallegri tónlist.

 

 

Námskeiðin sem ég hef setið hafa öll verið áhugaverð og skemmtileg. Ég vil þó nefna frábært námskeið, Ljóð: lestur og skrift sem ég tók haustið 2009, Sigurður Pálsson heitinn kenndi en hann var einstaklega hvetjandi og skemmtilegur. Mér fannst líka gaman í Aðferðir og hugtök sem ég tók síðastliðið haust það var fjölbreytt námskeið þar sem við lærðum að tileinka okkur bókmenntafræðileg hugtök og greiningar á ljóðum, sögum og kvikmyndum, kvikmyndagreiningarnar þóttu mér sérstaklega spennandi. Bókmenntasaga var líka áhugaverð. Það er heillandi að lesa elstu textana sem varðveist hafa og fá þannig innsýn í löngu horfna menningarheima. Þar lásum við líka Gilgames-, Ódysseifs- og Eneasarkviður og mér fannst gaman að velta fyrir mér tengingunum milli þeirra.

Þó að ég hafi aldrei neitt sérstaklega reynt að skima eftir þeim, verð ég að segja að kvennabókmenntir hafa yfirleitt haft mest áhrif á mig, íslenskar jafnt sem erlendar. Ég er líka mjög hrifin af draugum og hinu ókennilega en mér finnst mikil vöntun á slíkum bókmenntum Góðar draugamyndir eru líka í hávegum hafðar hjá mér. Þegar kemur að sjónvarpsþáttum, þá er ég veik fyrir sögulegum þáttum og ekki skemmir fyrir ef þeir eru um kónga og drottningar, ég nefni sem dæmi The Crown, Victoria og Versailles. Ég bókstaflega háma þá í mig.

 

Í bókmenntasögu síðastliðið vor, lásum við hluta úr riti Christinar frá Pizan um Borg kvenna.  Ef tekið er tillit til ritunartíma bókarinnar er hægt er að segja að Christine sé einn fyrsti femínistinn. Það væri áhugavert að kynna sér verk hennar betur.