Kona í hvarfpunkti

Ef það er einhver bók sem ég mæli með fyrir alla þá er það Kona í hvarfpunkti eftir geðlækninn og baráttukonuna Nawal El Saadawi. Bókin var fyrst gefin út árið 1975 og hlaut góðar viðtökur þrátt fyrir að hafa verið bönnuð í heimalandi El Saadawi, Egyptalandi, sökum umfjöllunarefnisins hennar.  Nýlega var bókin gefin út í íslenskri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur af Angústúru sem hluti af seríunni ,,bækur í áskrift“.

Kona í hvarfpunkti greinir frá veruleika kvenna í Egyptalandi á síðustu öld, og líklega enn þann dag í dag á sumum stöðum. Sagt er frá ungri og efnilegri stúlku, Firdaus, sem neyðist til þess að gerast vændiskona og endar í fangelsi fyrir morð. Sagan veitir innsýn í þann harða heim þar sem konum er kerfisbundið haldið niðri og þar að auki beittar andlegu og líkamlegu ofbeldi. Þar sem faðirinn tekur, á meðan móðirin og dæturnar gefa. Samfélagið endurspeglar svo þetta mynstur á stærri skala, svo að konum er nánast ógerlegt að ná langt í lífinu á eigin forsendum. Sagan segir einnig frá þeim eiginleika kvenna að taka aðstæður í sínar eigin hendur og gera gott úr því sem þær hafa. Frelsi felst í því að geta tekið ákvörðun, þrátt fyrir að hafa einungis um slæma kosti að velja.

Samkvæmt The Guardian þykir saga þessi vera grundvallarrit í femínískum skrifum sem hefur því miður ekki fengið það lof sem hún á skilið. Ástæða þess er líklega sú að höfundurinn, El Saadawi, er ekki hluti af ,,hvítri millistéttarkanónu Vesturlandabúa,“ líkt og Maríanna Clara Lúthersdóttir tekur fram í eftirmála bókarinnar. Sagan byggir á raunverulegum atburðum þar sem Nawal El Saadawi ferðaðist um Egyptaland og tók viðtöl við kvenfanga í hegningarhúsum fyrir rannsóknir sínar um geðræn vandamál arabískra kvenna. El Saadawi hitti Firdaus árið 1974 þar sem hún beið dauðarefsingar og hafði saga hennar svo mikil áhrif á lækninn að hún varð að skrifa um hana. Í viðtali greinir Elísa, þýðandinn, frá því að virðing sé í raun eina markmið Firdausar en hún muni aldrei njóta þess í samfélagi feðraveldisins. Vegna þess að ,,sem kona geturðu ekki notið virðingar í samfélagi þar sem karlar einir ráða.“ Þessi barátta hennar fyrir viðurkenningu og eigin sjálfsmynd er einmitt það sem situr helst eftir við lesturinn og tengir saman ólíka reynsluheima kvenna – því við erum jú allar að reyna að feta okkur áfram í karlægum heimi.

Kona í hvarfpunkti á vel við enn í dag þrátt fyrir að hafa litið fyrst dagsins ljós fyrir 44 árum síðan. Firdaus verður fyrir gríðarlega miklu ofbeldi úr öllum mögulegum áttum á öfgakenndan máta: kynferðis, andlegs, valdatengds og fjárhagslegs ofbeldis sem margar nútímakonur geta sett sig í spor á einn hátt eða annan. Mikilvægt er að halda sögunni á lofti vegna þess að allt of margar konur í dag verða enn fyrir kerfisbundnu ofbeldi sem verður að stöðva. Saga Firdausar er um konu sem berst gegn valdakerfinu, slítur sig lausa úr fjötrum kúgara sinna og velur eigin örlög. En á endanum nær feðraveldið henni og hún verður að lúta í lægra haldi – sem gefur til kynna að baráttu kvenna er ekki lokið og við verðum að halda áfram. Þess vegna mæli ég með þessari sögu fyrir alla.