Nútímaleg skáldsaga sem gerist á sögulegum tíma

Ungan dreng rekur að landi undan ströndum Hjörleifshöfða árið 1839. Landlæknir finnur barnið og lífgar það við, og upp frá því hefst ferðalag um landið þar sem þeir tveir ásamt aðstoðarmanni landlæknis, Mister Undertaker, leita að uppruna barnsins. Á leiðinni þurfa þeir að saga handlegg af konu, kafa ofan í hvalshræ eftir ambri og lenda í hremmingum úti í grimmri náttúrunni. Frásögnin fléttast saman við minningar frá yngri árum landlæknis, þegar hann var ungur maður í námi í Danmörku.

Bókin Selta, apókrýfa úr ævi landlæknis, eftir Sölva Björn Sigurðarson kom út árið 2019 og hlaut góðar undirtektir gagnrýnenda. Sagan er skrifuð sem skýrsla landlæknis til félagsráðs, en þó kallast textinn á við samtímann. Höfundi tekst þannig að spinna fjörugan texta með nútímalegu tungutaki án þess þó að draga úr nítjándu aldar stemmningunni. Ýmis viðfangsefni kallast einnig á við samtíma okkar, svo sem sjórekni drengurinn sem er bæði ómálga og undarlegur í útliti. Minnir hann á allt það flóttafólk sem leggur yfir hafið í leit að betra lífi en lítill hluti þeirra kemst á endastöð.

Þá skilur sagan sig frá hefðbundnum nítjándu aldar skýrslum að því leiti að í henni fá konur stór hlutverk. Konurnar H. Sophie, Ohne-Lise og Dagmar koma við sögu, en allar þrjár eru afar sterkar kvenpersónur sem hafa áhrif á framvindu sögunnar. H. Sophie er ástin í lífi landlæknis, en þau fá aldrei tækifæri til að vera saman. Ohne-Lise veiðir rottur í Belgíu, temur slöngur á  Spáni og rekst á sjóræningja á ævi sinni. Dagmar er þjónustustúlka á hæli fyrir fatlað fólk og dreymir um að nema læknisfræði.  Þær þrjár stangast allar á við hugmyndir nítjándu aldar um hlutverk kvenna, H. Sophie er einstæðingur, Ohne-Lise ævintýragjörn og Dagmar metnaðarfull og klár. Með því að skrifa um þær veitir höfundur áður nafnlausum og óþekktum konum nítjándu aldar rödd í gegnum sjónarhorn landlæknis og í leiðinni höfðar hann til umræðunnar um jafnrétti kynjanna sem á sér stað í dag.

Sölvi Björn Sigurðarson, höfundur Seltu

Í viðtali við Stundina áréttar höfundur Seltu að bókin sé alls ekki söguleg skáldsaga, heldur skáldsaga sem gerist á sögulegum tímum. Árið er 1839, um hálfri öld eftir Skaftárelda og Móðuharðindin sem drógu um fimmtung þjóðarinnar til dauða. Upplýsingarstefnan breiðist út í heiminum en hér á landi lifir fólk við mikla einangrun. Landlæknir virðist vera sá eini sem veit hvað er að gerast í heiminum en þá vitneskju sækir hann í erlend tímarit. í dag geta allir nálgast þær upplýsingar á netinu. Ef umræddur landlæknir hefði verið uppi í dag hefði hann ekki verið eins ómissandi vegna þess hve upplýstur hann var um það sem er að gerast í heiminum og hann var. Sú vitneskja gaf honum forskot á almúgann og myndaði þannig ákveðna stéttarskiptingu, þar sem hann var virtur og dáður.

Selta er skemmtileg, fjörug og hugljúf saga sem hrífur lesendur og vekur þá til umhugsunar um ýmis málefni líðandi stundar, svo sem málefni flóttafólks, jafnrétti kynjanna og stéttaskiptingu. Með því að sviðsetja söguna árið 1839 tekst höfundi að draga þessi mál fram í sviðsljósið og höfða í leiðinni til samtímans.