Vængjaþytur

Bankið á þakskegginu hélt fyrir henni vöku alla nóttina, aðra nóttina í röð. Miskunnarlaus hávaðinn í þakinu var yfirþyrmandi, þegar veðuröflin börðust um í styrjöld þar sem engum var þyrmt. Austur hittir vestur og járntjaldinu var komið fyrir á þakinu á fallega bláa húsinu hennar. Kalda stríðið geisaði úti og hún gat ekkert gert nema legið í volgu rúminu dauðþreytt. Hún var svo veðurhrædd. Það var eitthvað djúpt innra með henni, hræðslan byrjaði í krepptum fingrunum og tánum og breiddist út um allan líkamann eins og pest. „Hvað ef eitthvað kemur fljúgandi eins og trampólín eða þakplata beint inn um gluggann, lendir á henni og drepur hana óvart, sker hana á háls eða í tvennt svo að hvítu rúmfötin verða blóðrauð og öll búslóðin fýkur út í svartholið? Það er enginn sem stjórnar umferðinni á hlutum sem fjúka í óveðrinu.

„Klukkan er orðin sjö, best að fara á fætur og fá sér kaffibolla“ hugsaði hún. Leggjast svo aftur uppí rúm og horfa á bíómynd í tölvunni. Það er víst það eina sem hún gerir núorðið. Eldhúsið er bjart og stílhreint með skandinavískum húsgögnum. Henni finnst fallegt að blanda saman gömlum hlutum með sál við mínimalismann, það er svo hlýlegt og notalegt. Það hvín í öllu húsinu þó að það sé nýtt. „Hvernig ætli það sé að búa í gömlu húsi í svona veðri. það er örugglega mjög kósí og öruggt, engir svona stórir gluggar“ segir hún við sjálfa sig. Hún haltrar að kaffivélinni og nær sér í bolla, bolla með tilfinningagildi. Sonur hennar hafði gefið henni bollann og hún drekkur úr honum kaffi minnst þrisvar á dag. Hann er stór og fallegur úr bláum leir, blár eins og augu hans. Hún passar vel uppá bollann sinn, eins og móðir passar barnið sitt. Hún ýtir á takkann á kaffivélinni en ekkert gerist. Vatnið er búið í kaffivélinni eina ferðina enn. Hún lætur vatn renna í könnuna og setur í vélina en ekkert gerist. Baunirnar eru búnar svo að hún þarf að ná í baunir í skúffuna og setja í vélina. Loksins er allt tilbúið fyrir ilmandi kaffibollann og aftur ýtir hún á takkann en þá þarf að losa kaffikorginn í botninum á vélinni. Allt er þegar þrennt er segir hún við sjálfan sig og loksins kemur ilmandi kaffið úr vélinni.

Hún sest við eldhúsborðið og horfir út um gluggann, það er þæfingur og allt er hvítt. Hún horfir á rjúkandi bollann sinn, tekur utan um hann og strýkur honum varlega með fingrunum og fær kökk í hálsinn. Hún lætur hugann reika aftur í tímann þegar allt var fagurt og indælt. Hún hugsar um fallega barnið sitt, andlitið hans, spékoppinn hægra megin sem var svo djúpur en alltaf þegar hann hló þá ljómaði hann allur og allir hlógu með.

Þegar fólk spyr hana hvort að hún sé ekki búin að jafna sig segir hún „lífið heldur áfram“. Það er víst bara kurteisi að spyrja, fólk vill ekki heyra neitt óþægilegt. Ekki getur hún sagt þeim að hún fái ennþá grátköst og eigi oft erfitt með að standa upp úr rúminu því hún sakni hans svo en veikindi bera víst ekki boð á undan sér.

Sársaukinn kemur allt í einu eins og hún hafi verið stungin á hol í hjartað og það er eins og hún sé að springa. Spjótið er hart og óvægið. Líffærin þenjast út og springa, hjartað er margbrostið með stórum sprungum. Hjartað virðist alltaf jafna sig á milli, límist saman aftur en svo brestur það aftur og aftur. Hættir það einhvern tímann? Hvernig getur hjarta brostið svona oft? Einn daginn þá mun það ekki límast saman aftur og hún mun enda í hvítri líkkistu í kirkjugarðinum og dánarorsökin brostið hjarta. Smám saman jafnar holsárið sig eins og alltaf og hún starir út um gluggann. Kuldalegar vindhviðurnar ráðast á rúðurnar og vonast til að verða boðnar inn til að faðma hana með ísilögðum krumlunum.

Hún horfir á svörtu hrafnapörin tvö flögra um í hvíta snjófokinu, fjórir stórir fuglar sem hafa gert sig heimakomna í hverfinu. Hún hefur gaman að því að fylgjast með þeim. Þeir eru eins og flugdrekar með breitt vænghaf sem svífa um í rokinu þrátt fyrir að vera spörfuglar. Þeir eru glansandi og tignarlegir, áhyggjulausir og frjálsir. Hún vildi óska þess að hún væri hrafn, þá myndi hún svífa með þeim en ekki sitja ein í hryggu þögninni í skandínavíska eldhúsinu. Hún gefur þeim að borða á hverjum degi, epli, brauð og ber. Þeir eru vinir hennar og þeir koma oft í heimsókn, sérstaklega þegar það er kalt úti.

Kaffibollinn er löngu orðinn tómur og kaldur og rúðan héluð. Veðrinu hefur slotað og það er orðið stillt og bjart úti. Hún haltrar að vaskinum með bollann sinn og vaskar hann upp, þurrkar hann af alúð og umhyggju áður en hún setur hann aftur í skúffuna hjá hinum bollunum. Hún fer inn í svefnherbergið sitt og leggst aftur í rúmið. Best að fara seinna í dag og moka snjóinn úr tröppunum, „það er kominn tími til“ segir hún upphátt við sjálfa sig og horfir í gegnum nýju gleraugun sín á kreppta fingurna og reynir að rétta úr þeim.