Kófið

kóf h. ‘mikið snæfok; reykjar- eða gufuþykkni, svitabað; andköf, erfiður andardráttur’; sbr. fær. kógvkóv ‘dimm þoka, snæfok’, nno. kov ‘dimmt él eða regnskúr; ísstífla, andþrengsli,…’,

Nú þrengir að samfélagi svo varla sést í næstu stiku á veginum í átt að því sem verður. Nú þrengir að sviðslistastofnunum, þessum musterum listanna svo heilu leikhúsin sitja nú út í vegkanti og bíða eftir því að rofi til. Tjöldin eru dregin fyrir. Ljósin eru slökkt.

Í fyrsta þokumistri kófsins var fólginn mikill kraftur. Þjóðin var slegin niður, listastofnunum skellt í lás. Hinn alræmdi sameiningarandi smáþjóðar sætti sig við tekjumissi, verkefnaniðurföll og frestanir, kláraði þetta í einni átakslotu og rauk svo út í sumarið sem kálfur að vori. Með haustinu var þjóðin slegin niður aftur og þegar það gerist getur verið þrautinni þyngri að taka því, bera sig vel og að koma sér aftur á lappir. Sameiningarandinn fer nú huldu höfði og í hans stað ber á vonleysi og þreytu. Þetta er nefnilega ekkert grettistak heldur langtímaverkefni.

Þar sem þörfin knýr á verður til farvegur

Þessi mynd er teiknuð dökkum litum en er aðeins eitt sjónarhorn á kófið því auðvitað hlýtur þetta ástand að fæða af sér eitthvað nýtt. Þegar grjóthnullungi er skellt í árfarveg, stíflast flæðið en með tímanum hlýtur vatnsyfirborðið að hækka og á endanum að ryðja hindruninni úr vegi með látum. Öllu sennilegra er þó að það fari að seytla fram hjá eftir nýjum rásum inn á nýjar lendur. Þar sem þörfin knýr á verður til farvegur.

Þetta hefur nú þegar gerst að einhverju leyti, litlar lækjarsprænur orðið til og því ber að fagna. Íslenskum menningarneytendum hefur sem dæmi boðist að kaupa sér rafræna miða á frumsýningar norsku óperunnar og Gautarborgarballettsins. Upplifunin er vissulega ekki á við þá að vera á staðnum en er engu að síður hrein viðbót við menningarlíf Íslendingsins. Það má punta sig örlítið smá, setjast niður með góðum vini og njóta menningarafurða landanna í kring. Þetta er ekki eitthvað sem kemur í staðinn fyrir þá upplifun að njóta leikhúsformsins í návígi en eitthvað sem undirrituð myndi þiggja framvegis sem væna viðbót við menningarlífið eins og við þekkjum það.

Þetta er eitthvað sem listastofnanir almennt mættu gera meira af, óháð kófum og grjóthnullungum því við erum lítill listaheimur girtur af með einu stykki Atlantshafi og því öll næring inn í stéttirnar af hinu góða

Og dansheimurinn er með fleiri lækjarsprænur. Stóru evrópsku dansflokkarnir hafa boðið upp á rafræna hlekki á eldri uppfærslur. Sýningar sem við hér höfum ekki haft tækifæri til að sjá.

Sömuleiðis má nú víða sækja rafræn námskeið með dönsurum mikilsmetinna dansflokka. Einstök tækifæri sem næra listamenn stéttarinnar og hafa fyrir tíma kófsins ekki verið í boði.

Þjóðleikhúsið fetaði einmitt nýverið þennan slóða, bauð upp á slíkan kúrs með suður-afríska leikstjóranum Yaël Farber. Uppfærslu hennar í Þjóðleikhúsinu var frestað eins og öðru og þá var brugðið á það ráð, að nýta veru hennar hér og deila með íslenskum leikstjórum hennar sýn og nálgun á leikhúsið. Sáldra þar með hugmyndum fjarlægra heima inn í íslenska leikhúsmenningu. Þetta er eitthvað sem listastofnanir almennt mættu gera meira af, óháð kófum og grjóthnullungum því við erum lítill listaheimur girtur af með einu stykki Atlantshafi og því öll næring inn í stéttirnar af hinu góða.

Listahátíð Reykjavíkur hefur líka lagt höfuðið í bleyti og býður um þessar mundir upp á persónulegar listagjafir sem panta má fyrir vin, heimsent og flutt inn um gluggann takk fyrir. Hugmynd að finnskri fyrirmynd sem færir listina nær fólkinu, inn í öll hverfi borgarinnar og ætti óhikað að gera meira af. Í Noregi fæddist sambærileg hugmynd þegar ísraelski dansarinn Yaniv Cohen bauð afmælisbörnum Oslóarborgar heimsent dansatriði, flutt við óskalög afmælisbarnsins sem ekki mátti halda sína veislu. Hugmynd sem sprakk út svo hann gat með engu móti svalað eftirspurn einn síns liðs og var hann á endanum komin með á annan tug atvinnudansara sem sentust um alla borg í danserindum.

Það hvílir kyrfilega í þúsunda ára hefð og fyrir löngu búið að sanna gildi sitt sem krítískt rödd, spegill á samtíma eða afþreyingarmiðill, allt eftir þörfum. Á göngum leikhúsanna ómar setningin „leikhúsin hafa lifað af verri hluti en þetta“ og það er hárrétt.

Einhverjar sýningar hafa svo alfarið verið fluttar yfir á rafrænt form og má þar nefna sýningu Unnar Elísabetar Gunnarsdóttur Á milli stunda. Unnur Elísabet hófst fyrst handa við að umbreyta sýningunni úr leikhúsformi í átt að myndlistaforminu til að þóknast ramma kófsins. Flytjendur voru hólfaðir niður rétt eins og sundurlimaður líkami. Taugakerfið í eitt hólf, andinn í annað og sjálfið í hið þriðja. En þegar öllu var endanlega skellt í lás þurfti hún þó að yfirfæra sýninguna alfarið yfir á rafrænt form með tilheyrandi upptökum og sölu á hlekk sem njóta má heima í stofu á fyrir fram ákveðnum tímum. Sýningin verður vissulega allt önnur en í sínu upphaflega formi og upplifunin af henni frábrugðin. En hver veit nema að hún sé vísir að nýrri rás út úr listaheiminum. Íslenski Dansflokkurinn nýtir einmitt starfskrafta sína þessa dagana í þetta form, myndbandsörverkið en hefur annars lítið gert af slíku til þessa. Dansinum er víðar beint í þennan farveg sem hlýtur að leiða til sprengingar í framþróun dansvideolistaverka.

Þetta eru aðeins örfá atriði sem hér eru týnd til og upptalningin alls ekki upphugsuð sem atlaga að því að endurskapa leikhúsið eins og við þekkjum það. Enda engin þörf á því. Það hvílir kyrfilega í þúsunda ára hefð og fyrir löngu búið að sanna gildi sitt sem krítískt rödd, spegill á samtíma eða afþreyingarmiðill, allt eftir þörfum. Á göngum leikhúsanna ómar setningin „leikhúsin hafa lifað af verri hluti en þetta“ og það er hárrétt. En í þessari setningu er einnig fólgin ákveðin bið eftir því að allt verði samt aftur og þessari bið vil ég vísa á bug.

Í biðinni er nefnilega engin hreyfiorka. Það verður ekki fyrr en við sættumst á þessa nýju tilveru sem við förum að fóta okkur innan hennar. Það er fátt skemmtilegra en að verða vitni að skapandi lausnum og hugmyndum og sjálf fylgist ég spennt með þróuninni. Allt ofantalið er litað þessari þörf fyrir að skapa og færa fólki menningu og ekkert kóf, veðurfarslegs eða annars eðlis fær hana kæfða. Leikhúsin munu opna aftur með krafti, halda áfram að gleðja fólk eða koma róti á tilfinningalíf eftir aðstæðum. Það er engin spurning. Eftirvæntingin er fólgin í því að sjá hvaða nýju form, glufur, rásir, sprænur eða hvað skal kalla það hafa bæst við menningarlífið eins og við þekkjum það fram til þessa.

Það hvarflar ekki að mér að gagnrýna neinn í þessari furðuveröld sem við erum nú lent í enda snúin á ótal vegu og flækt í gamla girðingarstaura. Það er mikið fremur markmið mitt að smala saman litlu týrum í myrku kófinu í þeirri von að fleiri týrur vakni upp af þeim. Trúin á listamanninn og hans knýjandi þörf hefur ekki brugðist mér til þessa.