Eitt lítið jólalag

Í geisladiskadrifinu í bílnum mínum lifir Michael Bublé allt árið. Þar bíður hann þolinmóður í 10 mánuði til þess að láta ljós sitt skína yfir myrkustu vetrarmánuðina. Fyrr í kvöld var ég að keyra heim frá systur minni þegar ég mundi eftir honum Búbba mínum. Ég setti því diskinn af stað og við tók dýrlegur bjölluhljómur sem fyllti litlu súkkuna mína með anda jólanna.

Í stað þess að keyra beinustu leið heim ákvað ég að taka lengri leiðina. Svo ég beygði upp á Snorrabraut og niður Laugaveginn. Þar sem ég keyrði eftir götum miðbæjarins, fram hjá upplýsta jólakettinum með It’s beginning to look a lot like Christmas byrjaði að snjóa, mér til mikillar undrunar og gleði. Fullkomnar hvítar flygsur sem féllu letilega á rúðuna mína. Klukkan var orðin frekar margt svo það voru fáir á ferð, fyrir utan ungt par sem gekk eftir Aðalstræti, hönd í hönd. Þeir voru klæddir í þykkar úlpur, annar þeirra með hvíta húfu en hinn rauð eyru. Ég brosti með mér á meðan Búbbi og Shania Twain sungu um hvít jól, viðeigandi hugsaði ég með mér og beygði upp Vesturgötuna.

Ég hefði getað keyrt heim á þessum tímapunkti, ég á ekki heima langt frá. En draugur fortíðarinnar hafði gripið stýrið og keyrði beinustu leið niður Hofsvallagötuna með All I Want for Christmas Is You. Án þess að átta mig á því hafði ég lagt fyrir utan hjá þér. Þrátt fyrir að langt var liðið á kvöld var ljósið kveikt í glugga þínum. Þú varst með dregið fyrir en ég gat séð skuggamynd þína dilla sér á bakvið gardínurnar. Þú varst eflaust ekki að hlusta á Feliz Navidad líkt og ómaði frá hátölurum mínum en stundum þarf ímyndunaraflið að ráða. Þannig dönsuðum við saman um tíma, þú undir eigin þaki en ég í skjóli nætur. Lagið kláraðist og dansinn þar með líka. Ég brosti með mér og keyrði aftur af stað, að þessu sinni niður á Ægissíðu.

Ljósastaurarnir lýstu upp snjókornin sem voru farin að þekja göturnar. Ísland getur svo sannarlega verið undursamlegt vetrarland á svona fallegu og köldu desemberkvöldi. Ég lagði bílnum og greip símann og heyrnatólin. Með viðlagið ,,walking in a winter wonderland,“ í eyrunum gekk ég af stað um Vesturbæinn. Fram hjá húsi frænku minnar þar sem ég eyddi mörgum stundum sem barn. Öll jólaboðin sem hér voru haldin, allur hláturinn og gleðin, hér í raðhúsi á Tómasarhaga. Ég brosti með mér og ímyndaði mér mistiltein sem var auðvitað aldrei til staðar. 

 

Eftir að hafa gengið um æskuslóðir í dágóða stund varð ég að halda heim, mér var orðið kalt á tánum og nefinu. Af stað keyrði ég með nýtt lag í botni og miðstöðina á fullum krafti, óskaði ég þér Holly Jolly jóla. Án þess að líta við eða hægja á mér fór ég fram hjá húsi þínu – en söng hástöfum: ,,somebody waits for you, kiss her once for me!“ Strax á eftir byrjaði lagið Blue Christmas og ég brast í grát.

 

 Loksins var ég komin heim eftir ævintýri næturinnar. Ég drap á bílnum en allt í kringum mig heyrði ég í silfurbjöllum. Bjölluómurinn hækkaði einungis eftir því sem ég gekk nær útidyrahurðinni minni. Ég áttaði mig ekki á því hvaðan hljóðið kom en þegar ég fálmaði eftir lyklunum og stakk þeim í skráargatið vissi ég…

 

Brátt koma jól.