Líkt og margir kunna að hafa getið sér til um heitir nemendafélag bókmenntafræðinema í höfuð kvenskörungsins Torfhildar Hólm (1845-1918). Torfhildur var fyrst íslenskra kvenna til að gefa út skáldsögu og var þar að auki fyrst rithöfunda hér á landi til að skrifa sögulega skáldsögu. Torfhildur gaf út tímaritið Draupni á árunum 1891-1908, sem var jafnframt fyrsta íslenska tímaritið sem ritstýrt var af konu. Torfhildur hlaut skáldalaun frá ríkinu og því er oft talað um að hún hafi verið fyrsti Íslendingurinn til að hljóta listamannalaun

Nemendafélagið Torfhildur stendur fyrir ýmsum viðburðum yfir skólaárið á borð við vísindaferðir, leikhússýningar, hrekkjavöku, árshátíð, jólaglögg, nýnemafögnuð og ljóðakvöld. Félagið starfar náið með hinum margvíslegu nemendafélögum Íslensku- og menningardeildar og stendur til að mynda fyrir sameiginlegum viðburðum með nemendafélögum kvikmyndafræðinnar, íslenskunnar og ritlistarinnar, auk fleiri. Yfir skólaárið eru jafnframt haldnir viðburðir í samstarfi við kennara deildarinnar þar sem nemendum og kennurum gefst færi á að koma saman fjarri skólastofunni og ræða málefni líðandi stundar yfir léttum veitingum. 

Starf nemendafélagsins felst umfram annað í því að efla tengsl nemenda sín á milli sem og við háskólasamfélagið í heild sinni, auk þess að gæta hagsmuna nemenda almennt í málefnum sem varða nám í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Í vísindaferðum gefst nemendum þar að auki tækifæri á að kynnast hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins sem á einn eða annan hátt tengjast bókmenntafræði og viðfangsefnum hennar. Á hverju skólaári eru í því skyni heimsótt margvísleg forlög, fyrirtæki og fjölmiðlar, svo eitthvað sé nefnt. 

Upplýsingar um skráningu í nemendafélagið eru veittar á Facebook-hópi Torfhildar, sjá Torfhildur á Facebook. Einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið torfhildurhi@gmail.com. Öll eru velkomin að skrá sig!*

*Ekki er skilyrði að vera skráð í bókmenntafræði til þess að ganga í félagið.

Á myndinni eru (frá vinstri til hægri): 
 
Anna Magnúsdóttir Eirúnardóttir (ritari)
Ninja Kamilludóttir (varaforseti)
Margrét Björk Daðadóttir (gjaldkeri)
Snædís Björnsdóttir (forseti)
Melkorka Gunborg Briansdóttir (ritstjóri)
Hulda Kristín Hauksdóttir (skemmtanastýra)
 
Á myndina vantar nýnemafulltrúana okkar tvo, þau Ragnheiði Guðjónsdóttur og Grím Smára Hallgrímsson.
 
Snorri Vignisson tók myndina.

Sendu okkur skilaboð