Sláturhús fimm, eða krossför barnanna

Um myndasögu sem byggir á samnefndri skáldsögu Kurt Vonnegut

Myndasagan (e. graphic novel) Slaughterhouse-five, or the Children‘s Crusade kom út á dögunum við góðar undirtektir lesenda og gagnrýnenda. Hún er skrifuð af Ryan North, sem er m.a. þekktur fyrir að vera höfundur myndasagnanna Adventure Time og The Unbeatable Squirrel Girl, og myndskreytt af spænska listamanninum Albert Monteys. Myndasagan er byggð á samnefndri skáldsögu Kurt Vonnegut frá árinu 1969.

Slaughter House-Five


Skáldsaga Vonnegut er að hluta til sjálfsævisöguleg, þar sem hún byggir á upplifun hans í seinni heimsstyrjöldinni, en hún flokkast einnig sem vísindaskáldsaga þar sem hún fjallar um geimverur og tímaflakk. Í fyrsta kaflanum talar Vonnegut í fyrstu persónu og segir m.a. frá erfiðleikum sínum við að skrifa bókina, en hann byrjaði að skrifa hana stuttu eftir að stríðinu lauk árið 1945. Í öðrum kafla hefur Vonnegut skipt um hlutverk og er orðinn sögumaður bókarinnar. Þar segir hann frá lífi Billy Pilgrims og innan rammasögunnar af Billy Pilgrim kemur Vonnegut einnig fram sem sögupersóna. Vonnegut gegnir því hlutverki höfundar, sögumanns og persónu í bókinni.

Það er mjög áhugavert að sjá hvernig þessi mikla nærvera Vonneguts í sögunni er útfærð í myndasögunni en nú eru rúmlega 13 ár frá andláti hans. Myndasagan er öll sögð í þriðju persónu frásögn en Vonnegut er enn stór hluti af sögunni þar sem hann kemur fram sem persóna bæði innan og utan sögunnar af Billy Pilgrim. Annað sem myndasagan aðlagar á frumlegan hátt eru bækur Kilgore Trouts sem koma fram í bók Vonneguts. Trout er höfundur vísindaskáldsagna sem Billy Pilgrim er mikill aðdáandi að en í myndasögunni eru bækur Trouts myndasögur. Slaughterhouse-five myndasagan inniheldur því skáldaðar myndasögur Trouts líkt og skáldsaga Vonneguts gerir með skáldsögur Trouts.

Myndasagan nýtir sér það að vera annar miðill en skáldsagan á fleiri máta. Sums staðar eru heilu blaðsíðurnar þjappaðar niður í örfáar myndir, án þess þó að týna smáatriðunum, enda getur ein mynd sagt þúsund orð. Annars staðar verður ein setning að heilli opnu til að ná fram öllu því sem kemur fram í þessum fáu orðum. Jafnframt gefur myndasagan ekki merki um tímaflakk með orðum heldur með notkun á litum, sem gerir tímaflakkið algjörlega hnökralaust.

Myndasagan sýnir fram á að skáldsaga Vonneguts fellur vel að myndasögumiðlinum. North útfærir söguna vel í nýju formi og teikningar og litir Monteys gefa henni aukna dýpt. Myndasagan er bæði góð aðlögun á skáldsögu Vonneguts og einfaldlega frábær myndasaga. Aðdáendur Vonneguts ættu ekki að verða fyrir vonbrigðum og upplifunin er ekki síðri fyrir þá lesendur sem eru að lesa söguna í fyrsta skipti.