„Þegar þér finnst veröldin þrengja að þér skaltu sprengja hana utan af þér“

Geðveiki, handanlíf, neysla, ofbeldi, áföll, ást, frelsi, list, þess- og hinseginleiki. Þetta eru allt dæmi um þemu og átakapunkta í bókinni Drottningin á Júpíter – absúrdleikhús Lilla Löve eftir Júlíu Margréti Einarsdóttur. Um er að ræða fyrstu skáldsögu höfundar sem kom út árið 2018 en áður hafði Júlía gefið út ljóðabókina Jarðaberjatungl og smásöguna Grandagallerí.

Drottningin á Júpíter
minnir mig einna helst á Yosoy Guðrúnar Evu Mínervudóttur. Báðar  sögurnar innihalda martraðakennda fjöllistahópa sem draga fram ýmsa þætti í mannlegu eðli. Yosoy er þó öllu jarðbundnari bók, ótrúlegt en satt, og kannski meira út í einhvers konar vísindaskáldskap á meðan fantasísk einkenni ráða ríkjum í Drottningunni á Júpíter. Sagan segir frá Nóru, ráðvilltri ungri konu í Reykjavík, sem fer frá óeðlilega eðlilega unnusta sínum og gengur til liðs við óvenjulegan sirkús sem stjórnað er af gömlum bekkjarbróður hennar úr barnaskóla. Sirkúsinn reynist bæði ævintýralegur og martraðakenndur en í sögunni er á ýmsan hátt ýjað að eða átt í nokkuð skemmtilegri samræðu við Gleðileikinn guðdómlega eftir Dante og förina um Víti.

Áðurnefnd þemu rekast sífellt á og í raun mætti segja að sagan fjalli um víxlverkun þeirra. Ekkert konsept fær að hanga í lausu lofti og þverstæður lífsins eru dregnar fram af mikilli kostgæfni. Lýsingar á samskiptum Nóru við móður sína í æsku litast til dæmis af barnslegri meðvirkni, nostalgíu sorgarinnar og mikilli ást á báða bóga. Þar mætast of- og vanræksla, aðskilnaðarkvíði, sjálfhverfa og ótæmandi ást sem brýst út sem ofbeldi móður gegn barni. Sjálf hef ég aldrei lesið bók sem lýsir tilfinningaofbeldi af þessu tagi á jafn blæbrigðaríkan hátt og af svo mikilli næmni. Á sama tíma og móðir hennar heldur henni niðri, meðal annars með því að halda henni frá skóla vegna þess að hún getur ekki hugsað sér að vera ein, þá hvetur hún Nóru til sjálfstæði og til að sprengja af sér veröldina þegar hún þrengi að henni. Þetta reynist Nóru mikilvægt veganesti í lífinu en grátlegt misræmi milli orða og gjörða móður hennar háir Nóru allt fram á fullorðinsár. Því festist hún milli þess að taka sér pláss og vera öðruvísi og skapandi en um leið reyna að þóknast öðrum. Þannig er hún sífellt að sprengja upp heiminn og reyna að tjasla honum saman á sama tíma.

Helsti styrkleiki sögunnar liggur í óreiðu hennar. Óáreiðanleiki sögukonunnar Nóru og fantasísk einkenni vinna með lesanda þannig að það er aldrei beint krafist af honum að taka afgerandi afstöðu til þess hvað sé raunverulegt eða satt. Ýmsir túlkunarmöguleikar eru þó til staðar. Til dæmis væri hægt að halda því fram að það hafi aldrei verið neinn sirkús og Nóra hafi búið til söguna um sig og vini sína og drykkjufélaga á Bravó eða jafnvel orðið fyrir einhvers konar ofskynjunum. Eða þá fara öfgakennt í hina áttina og sverja fyrir sirkúsinn og allar hans persónur og töfra. Þrátt fyrir þessa möguleika er þó eins og margræðni bókarinnar ýti manni á eitthvað óskilgreint svæði þarna á milli. Sem sumum gæti vissulega þótt óþægilegt eða ruglingslegt en virkaði eins og galdur á mig, enda vel haldið á öllum þráðum. Hin dásamlega ójarðbundna frásögn gerði mér þannig kleift að sleppa taki og svífa alla leið til Júpíter með Nóru. Af þessari ástæðu bar Drottningin á Júpíter af í jólabókaflóðinu 2018 að mínu mati og er jafnframt bók sem heldur áfram að gefa við hvern endurlestur.