Frá Lord Byron til Fimmtíu grárra skugga:

Hvernig ein bústaðarferð varð að BDSM-bókaseríu 200 árum síðar

Í byrjun 19. aldar dvöldu fimm vinir saman í sumarbústað í Sviss. Þessi bústaðarferð varð til þess að Dr. John William Polidori skrifaði og gaf út The Vampyre árið 1819, en hún er af mörgum talin hafa lagt grunninn að vampírubókmenntagreininni eins og við þekkjum hana í dag. Ef skoðuð er þróun nútímavampírubókmennta er hægt að rekja BDSM-bókaseríuna Fifty Shades of Grey eftir E.L. James alla leið aftur til The Vampyre og þessarar afdrifaríku bústaðarferðar fyrir 200 árum.

Sumarið 1816 dvaldi Lord Byron ásamt John Polidori í Villa Diodati við Genfarvatn. Percy Shelley, Mary Shelley og Claire Clairmont leigðu hús skammt frá og komu reglulega í heimsókn í Villa Diodati. Í einni slíkri heimsókn urðu vinirnir fimm veðurtepptir í þrjá daga vegna mikils vatnsveðurs og efndi Lord Byron því til keppni með það markmið að komast að því hver gæti skrifað hryllilegustu söguna. Í þessari keppni skrifaði Mary Shelley það sem varð að lokum Frankenstein, or The Modern Promotheus og Polidori skrifaði smásögu sem bar heitið The Vampyre. The Vampyre var gefin út árið 1819 en hún var í fyrstu tileinkuð Lord Byron þar sem sagan er byggð á ókláraðri sögu Byrons um vampírur sem kallast Fragment of a Novel eða einfaldlega A Fragment. The Vampyre er talin vera ein fyrsta nútímaskáldsagan um vampírur og hafa ýmsir fræðimenn haldið því fram að hún hafi lagt grunninn að vampírubókmenntum sem bókmenntagrein.

Vampíran í sögu Polidoris er, líkt og vampíran í ókláraðri skáldsögu Byrons, af aðalsættum og velur fórnarlömb sín úr hópi heldra fólks. Þetta sagnaminni barst alla leið til Bram Stokers um 80 árum síðar er hann gaf út sína heimsfrægu bók Dracula árið 1897 en Drakúla greifi er aðalsmaður eins og titillinn gefur til kynna. Óhætt er að segja að bók Stokers sé öndvegisverk vampírubókmennta og innsiglaði það vampírubókmenntir í bókmenntahefðina.

Á síðastliðinni öld var vampírugreinin komin á flug og komu þá út margar bækur um vampírur, þ.á.m. bók Anne Rice frá árinu 1976, Interview with the Vampire. Rice hélt að miklu leyti í hefðina í bók sinni en kom einnig með nýtt sjónarhorn þar sem hún beindi athyglinni að mennsku hlið vampírunnar. Vampíran í bók Rice er ekki einhliða skrímsli heldur margþætt persóna sem hefur tilfinningar og flókna sögu að baki.

Áhrif viðkunnanlegu vampíru Anne Rice í Interview with the Vampire á vampírubókmenntahefðina má greinilega sjá í Twilight, hinum heimsþekkta bókaflokki Stephanie Meyer. Þar gerði Meyer vampíruna að aðlaðandi ástarviðfangi en bækurnar flokkast sem ástarsögur en ekki hryllingssögur líkt og langflestar vampírubækur gerðu fram að þessu. Twilight safnaði að sér stórum aðdáendahóp á sínum tíma, þar á meðal var Erika Leonard sem líkt og margir aðdáendur hafði aðdáendaskrif (e. fan fiction) að áhugamáli. Skrif Leonard sem byggðust í fyrstu á persónum Meyer úr Twilight urðu að lokum að BDSM-bókaseríunni Fifty Shades of Grey sem hún gaf út undir höfundarnafninu E.L. James.

Það er því ljóst með því að fylgja þróun vampírubókmennta-greinarinnar allt frá byrjun 19. aldarinnar til dagsins í dag og skoða textaskyldleika ýmissa vampírubóka á borð við The Vampyre, Dracula, Interview with the Vampire og Twilight er hægt að rekja BDSM-bókaseríu E.L. James aftur til einnar áhrifaríkrar bústaðarferðar og eins manns, Lord Byrons.