Fréttabréf formanns

Af nemendafélagsstörfum Torfhildar í heimsfaraldri

Nóvember 2020. Skammdegið er að leggjast á með fullum þunga, Zoom þokan liggur yfir öllu og Uglu tilkynningarnar eru farnar að renna saman. Það er áhugavert að reka nemendafélag á tímum sem þessum. Að sumu leyti auðveldara en að mörgu leyti miklu erfiðara. Ég á að minnsta kosti nóg efni í sjálfshjálparbókina 100 leiðir til að aflýsa viðburðum (og bið útgefendur hér með um að mynda einfalda röð). Við í stjórn Torfhildar, nemendafélags bókmenntafræðinema, náðum að halda einn viðburð og einn nefndarfund í persónu áður en smitum fór að fjölga í samfélaginu og líf okkar allra færðist yfir í samanþjappaða mynd á Internetið. Nýnemagleðin fór fram á Klambratúni og var haldin með Rýninum, félagi kvikmyndafræði-nema. Þar var farið í leiki, spilaður fótbolti og haldið pubquiz innan um sprittbrúsa og grímur og heppnaðist það mjög vel. Þar að auki var haldið smá kubb-mót milli Torfhildar og Rýnisins en hér verður ekkert um það sagt hvernig sú viðureign endaði, af virðingu við báða málsaðila. Það fóru að minnsta kosti allir heim, missáttir með sína frammistöðu, en afskaplega sælir.

Á nýnemakvöldinu voru kosnir tveir nýnemafulltrúar í stjórn Torfhildar, þau Ninja Kamilludóttir og Ásþór Loki Rúnarsson. Fullskipuð stjórn náði einum fundi í persónu og þar var mikið hlegið og margir tölvupóstar sendir út í tómið. Síðan þá hafa fundirnir farið fram rafrænt og viðburðirnir sömuleiðis. Hingað til höfum við haldið eitt Zoom partý og eru fleiri á döfinni. Þar var vel mætt og spilað Kahoot og fleiri leiki og skeggrætt um námið og veiruna svo eitthvað sé nefnt. Síðan hefur bókaklúbbur Torfhildar einnig verið stofnaður að frumkvæði nýnema en hann hittist einu sinni í mánuði á Zoom. Fyrsta bókin sem var tekin fyrir var gotneska skáldsagan Rebecca eftir Daphne du Maurier en ásamt bókinni var rætt um kvikmyndaaðlögun Hitchcock frá 1940 ásamt nýrri aðlögun Ben Wheatley sem nýverið kom út á Netflix. Sinnepsgul jakkaföt hins nýja Maxim de Winter sköpuðu heitar umræður en hér verður ekki fjölyrt um þau skoðanaskipti. Nú stendur yfir lýðræðisleg kosning um Nóvemberbókina en þemað er (að sjálfsögðu) jólin.

Af Leirburði, nýju tímariti bókmenntafræðinema er ekkert nema gott að frétta. Fyrsta tölublað fyrsta árgangs kom út í byrjun annar eftir langa bið vegna Covid og stefnt var á að halda útgáfuhóf og upplestur á Loft hostel í tilefni þess. Veirunni tókst naumlega að stöðva þær fyriráætlanir og þeim stórviðburði var því aflýst. Við erum þó hvergi að baki dottin, enda andleg afkvæmi Torfhildar Hólm og látum því ekki afmá okkur úr íslenskri bókmenntasögu svo glatt. Í ritnefnd sitja nú sjö manns og von er á öðru tölublaði í lok nóvember. Ritstjóri að þessu sinni er Unnur Steina K. Karlsdóttir. Í blaðinu verða birt ljóð og sögur eftir unga höfunda úr ýmsum áttum, viðtöl við höfunda og útgefendur, póstkort frá bæði Berlín og London (enda Torfhildur með ítök víða um Evrópu eins og flestum er kunnugt) og æskuljóð eftir kennara deildarinnar svo eitthvað sé nefnt. Útgáfan er svo sannarlega ljós í myrkri og við hlökkum ósegjanlega mikið til að geta haldið smá útgáfufögnuð og fleiri viðburði í raunheimum. Hvenær svo sem sem það verður.