Hrakspár og loftslagsklám

Hrakspár og yfirvofandi heimsendir hafa lengi þótt spennandi umfjöllunarefni innan bókmennta- og kvikmyndaheimsins. En á síðustu þrjátíu árum hefur bókmenntagreinin ,,climate fiction“ eða ,,cli-fi“ orðið sívinsælli í ljósi aukinnar umræðu um loftslagsbreytingar. En hafa slík verk jákvæð áhrif á baráttuna við hamfarahlýnun?

Bókmenntaverk sem falla undir ,,cli-fi“ greinina hjálpa lesendum að ímynda sér afleiðingar loftslagsbreytinga og veita þeim þann möguleika að upplifa hræðsluna og ringulreiðina á öruggan máta, líkt og er uppi á teningnum í hryllings- og glæpasögum. Slík verk geta því verið áhrifamikil í dreifingu boðskapar umhverfisverndarsinna og vakið athygli á málefnum sem lesandi var ef til vill ekki meðvitaður um fyrir lesturinn. Af þeim ástæðum má telja slíkar bókmenntir til áróðurs þar sem þær eiga, oftar en ekki, að vekja lesendur til umhugsunar.

Bókmenntafræðingurinn Guðni Elísson hefur skrifað mikið um loftslagsbreytingar og vistrýni en að hans mati hafa slík verk áhrif á hrakspárorðræðuna í samfélaginu, sem teygir anga sína inn á öll umræðusvið, allt frá tímaritum til stjórnmála. Í þessum bóka- og kvikmyndaflokki er lögð rík áhersla á hve slæmar afleiðingarnar gætu orðið ef mannkynið bregst of seint við. En hættan við að tengja umræðuna of mikið við Hollywood-kvikmyndirnar, að mati Guðna, er að vandamálið gæti virkað of stórt eða fjarlægt fyrir áhorfendur – það gæti orðið æsandi eða eins konar ,,loftslagsklám,“ (Guðni Elísson, Nú er úti veður vont – Gróðurhúsaáhrif og íslensk umræðuhefð, 2007).

Vandinn við ,,cli-fi“ verk virðist því vera að mörg hver eru of óraunveruleg. Lesandi þarf að geta tengt afleiðingarnar við hversdagslegar gjörðir sínar til þess að meðtaka boðskapinn og átta sig á alvarleika málsins. Þau verk sem sitja eftir og hafa raunveruleg áhrif á lesendur eiga það sameiginlegt að vera raunsæ og nálæg þeim heimi sem við lifum við í dag (Schneider-Mayerson, The Influence of Climate Fiction: An Empirical Survey of Readers, 2018).

Bókmenntir sem takast á við loftslagsbreytingar og aðrar hrakspár geta haft veruleg áhrif á orðræðuna í samfélaginu og mótað hugsunarhátt viðtakenda. En til þess að það takist má krísan ekki virka of fjarri okkur lesendum, við verðum að geta sett okkur í spor söguhetja og tengt gjörðir þeirra við okkar eigin. Slík ,,cli-fi“ verk þurfa því helst að gerast í náinni framtíð með beinum afleiðingum af gjörðum okkar í dag svo að við lesendur upplifum tilætluð áhrif. Annars er hætta á að verkin falli undir ekkert nema spennandi loftslagsklám – og hafi þar af leiðandi engin áhrif á hugsunarhátt okkar eða orðræðuna.