Verkfærakistur listgreinanna

Ef yfir mig kæmi dramatískur andi myndi ég segja að ég hefði „gefið dansinum líf mitt“ enda dvalið langdvölum við ballettstöngina. Ég hef fært mig inn og út úr fyrstu „position“ sem og öðrum tengdum og ótengdum stöðum í tugþúsundir klukkustunda frá því ég var barn og langt fram á miðjan aldur. Ég er dansari þannig hef ég skilgreint mig. Ég hef því, eðli málsins samkvæmt aldrei leikstýrt, það er að segja öðru en heimilislífinu. Þó var það síðasta útspil fulltrúa minna á himninum að leiða mig austur á Egilsstaði þar sem ég gegndi stöðu aðstoðarleikstjóra í leikverki. Og hvað vill dansari upp á leikhúsdekk?

Ég er vissulega ekki með öllu óreynd í heimi leikhússins enda eytt allri minni starfsævi innan veggja leikhússins og eitthvað verið við leiklistina kennd þó dansinn sé í forgrunni. Þessar listgreinar, danslist og leiklist skarast að mörgu leyti, tilheyra jafnvel sömu fjölskyldu. Báðar eru fluttar á sviði fyrir áhorfendur, tjöld eru dregin frá, sýning hefst með upphafi miðju og endi, klappi og hneigingum. Líkaminn er verkfæri bæði dansarans og leikarans, leikmanna þessara tveggja listforma andartaksins sem aðeins skilja eftir sig hughrif í áhorfanda og hreyfingu á þeirra innra lífi ef vel tekst til.

Og þannig gerist það að dansarinn ég enda sem aðstoðarleikstjóri á Egilsstöðum.

Dansarar samsama sig þó gjarnan tónlistarmönnum frekar en leikurum þar sem að færni beggja krefst daglegrar þjálfunar frá barnsaldri. Þó eru það oftar en ekki myndlistarunnendur en ekki leikhús- og tónlistarfólk sem eru þakklátustu áhorfendur danslistarinnar. Danslistin virðist höfða til næmis myndlistarunnenda fyrir hinu sjónræna og óhlutbundna á meðan leikhúsáhorfendur sakna oft eiginlegrar sögu í dansinum. Leikhúsið þrífst svo aftur með djúpu rótarskoti inn í heim bókmenntanna og þannig skarast rásir þessara listforma og kvíslast á víxl.

Og þannig gerist það að dansarinn ég enda sem aðstoðarleikstjóri á Egilsstöðum. Þaulreyndur leikstjórinn hafði ýmis verkfæri í sínu belti umfram mig. En í algjöru trausti tók hann fagnandi öllu því sem þjálfun mín og þekking bauð upp á og lofaði mér að beita mínum danstólum á valda kafla í verkinu. Með aðra augabrúnina upplyfta rýndum við svo saman í hverja gjörð leikkvennanna með verkfærabeltin okkar strengd um mittið. Við drógum fram mikilvæga þræði, styrktum söguna hér, hröðuðum framvindu þar og því sem ekki þjónaði verkinu var hent í ruslið.

 

Leiksýning er auðvitað ekkert annað en samruni listgreinanna. Þar skarast og kvíslast á víxl texti, hreyfing, túlkun, tónlist og myndræna og oft er engin leið að draga skýra línu þar á milli. Því er kannski alls ekkert svo galið þegar upp er staðið að dansari endi sem aðstoðarleikstjóri á Egilsstöðum.