Hungrið vísaði veginn

Yeonmi Park vakti gríðarlega athygli með bókinni Með lífið að veði sem kom út árið 2017. Sama ár hélt Yeonmi fyrirlestur í Háskóla Íslands þar sem hún fjallaði um örlög sín og lífsreynslu, færri komust að en vildu. Hér verður sagt frá bókinni og efnistökum hennar.

Bókin er byggð á endurminningum höfundar og lýsir vel hvernig er að búa við kúgun, hungursneyð og ótta og hafa nánast enga eða ranga vitneskju um lífið annars staðar. Yeonmi fæddist í Norður-Kóreu árið 1993 og var aðeins sex merkur við fæðingu. Foreldrunum var sagt að óvíst væri hvort hún myndi lifa eða deyja. Það var eins og Yeonmi hafi valið lífið með hjálp móður sinnar sem hugsaði um hana af mikilli natni. Aftur barðist Yeonmi fyrir lífi sínu þrettán ára þegar mæðgurnar tóku mikla áhættu og flúðu yfir landamærin til Kína en það var árið 2006. Yeonmi var á þeim tíma nýútskrifuð af sjúkrahúsi vegna magaverkja. Hún var þróttlítil, mögur og alltaf hungruð skömmu áður en þær mæðgur flúðu. Neyðin ýtti þeim af stað, það var sársaukafullt fyrir móðurina að faðir Yeonmi var ekki með í för. Hann var á þeim tíma að afplána fangavist fyrir svartamarkaðsbrask en hvatti mæðgurnar áfram.

Fjölskyldan bjó fyrst í litlu óþéttu húsi sem stóð upp á hæð við járnbrautarteina. Húsinu deildu foreldrarnir með tveimur öðrum fjölskyldum og nokkrum músum, sem tístu og skutust um í kvöldblænum, en gerðu engum mein. Húsakynnin voru köld þegar frost var í jörðu. Fjölskyldan hélt á sér hita með því að sofa undir þykkri ábreiðu, sem móðirin var búin að hita við eld fyrir svefninn. Yeonmi var ánægð, því fjölskyldan var öll saman, foreldrar og eldri systirin Eumni. Hún gætti litlu systur og verndaði þegar þess þurfti með. Umhyggja ást og hlýja einkenndi ungu fjölskylduna sem tókst að standa enn þéttar saman en áður, þegar erfiðleikar ágerðust. Það var aðdáunarvert því miklir erfiðleikar í fjölskyldum geta auðveldlega leitt til sundrungar.

Faðirinn var í fyrstu ríkisstarfsmaður meðan móðirin hjúkraði hermönnum. Þegar foreldrarnir voru ung og barnlaus sá ríkið öllum fyrir fatnaði, heilbrigðisþjónustu og mat. Þegar Yeonmi óx úr grasi var henni kennt að tala varlega og spyrja aldrei spurninga, því svörin gætu kvisast út. Það mátti alls ekki gagnrýni stjórnarfarið. Fólk var vart um sig og hrætt. Í Norður-Kóreu búa 25 milljónir manna. Landsmönnum er innrætt að dýrka persónu Kim Jong- un, sem er einræðisherra N-Kóreu. Hann tók við af föður sínum Kim Jong- il, þegar hann lést árið 2011. Kim Jong-un er sonarsonur stofnanda Norður-Kóreu. Hann hefur viðhaldið svipaðri stjórnarstefnu og forverar sínir. Hann lét taka af lífi bæði embættismenn og herforingja sem talið var að gætu ógnað stöðu hans, fljótlega eftir að hann komst til valda.

Hungursneyð reið yfir landið 1994-1998, sem tengdist falli Sovétríkjanna. Meðan hungursneyðin geisaði létust mörg hundruð þúsund manns, flestir úr lægstu stétt þjóðfélagsins, þeim sem voru stjórnvöldum ekki þóknanleg. Faðir Yeonmi sá á kreppuárunum fyrir fjölskyldunni með svartamarkaðsbraski, hann ferðaðist víða til að selja varning sinn sem var ólöglegt. Það reyndist fjölskyldunni þungur róður þegar hann var dæmdur í fangelsi, þar sem hann dvaldi í fáein ár. Hann var leystur fyrr úr haldi vegna alvarlegra veikinda. Faðirinn varð aldrei samur eftir fangavistina, heilsunni hrakaði á meðan lífsviljinn dofnaði. Fjölskyldan tilheyrði áður miðstétt en eftir handtökuna var hún flokkuð í lægstu stétt þjóðfélagsins. Því fylgdi mikill skömm. Lífið varð smá saman óbærilegt vegna hungurs og vanlíðunar.

Yeonmi segir frá því að hún glorsoltin hafi fundið matarlyktina berast með vindinum yfir Yalu-ána sem skilur að N-Kóreu og Kína. Það var einmitt vegna hungursins, sem mæðgurnar ákváðu að flýja. Þær nutu aðstoðar miðlara við að komast yfir ána, sem var frosin að vetrarlagi. Ljósin Kínamegin voru litrík miðað við myrkrið sem einkenndi Norður-Kóreu. Móðirin áttaði sig ekki á því hvað hættan var mikil við flóttann og heldur ekki hvað beið þeirra við komuna til Kína. Það var hungrið og örvæntingin sem réðu ferðinni. Þær upplifðu miklar raunir, margs konar ofbeldi og mansal á meðan þær dvöldu tvö ár í Kína. Norður-Kóreubúar búa við mjög skert ferðafrelsi. Mun auðveldara er að flýja yfir Yalu-ána sem skilur að N-Kóreu og Kína heldur en til S-Kóreu, sem er erfiðari leið. Föðurnum tókst seinna að komast yfir Yalu-ána, en hann var þá orðinn fárveikur og lést stuttu seinna í Kína. Systirin Eumni, sem flúði nokkrum dögum á undan Yeonmi var týnd í sjö ár, og sá því aldrei aftur föður sinn.

Eftir dvölina í Kína flúðu mæðgurnar á nýjan leik, næst til Suður-Kóreu. Það var mikil áskorun, áreynsla og ákveðnir fordómar sem Yeonmi, þá 15 ára, mætti þar í byrjun. Andstæðurnar voru himinhrópandi! Þar voru bókasöfn, tölvur, internet, visakort og verslunarmiðstöðvar. Allt var opið og aðgengilegt, meðan allt var lokað og bannað í Norður-Kóreu. Það eina sem var nokkurn veginn eins í Suður- og Norður-Kóreu var tungumálið. Kennslu í grunnskóla í Norður-Kóreu var mjög ábótavant, því var Yeonmi námslega á sama stað og 8 ára börn frá Suður-Kóreu. Með mikilli vinnu og sjálfsaga tókst Yeonmi á tæpum tveimur árum að ná upp margra ára tapaðri skólagöngu og öðlast nýtt og hamingjuríkt líf.

Bókin segir merkilega sögu ungrar konu sem upplifði ofbeldi í baráttunni við að öðlast frelsi. Henni tókst að finna veginn til betra lífs, birta endurminningar sínar og opna augu fjölmargra og fræða um einræðisríkið Norður-Kóreu. Hún sýndi mikið hugrekki og gafst aldrei upp.