Var gríska gyðjan Aþena hinsegin?

Gríska gyðjan Aþena var gyðja vefnaðar, herkænsku og visku. Hún kemur fram í ýmsum bókmenntum Forn-Grikkja svo sem Ódysseifskviðu og Illionskviðu. Hún er afar áhugaverð að því leyti að persóna hennar virðist einkennast af andstæðum, svo ekki sé minnst á heldur einkennilega sögu um fæðingu hennar. Margar spurningar vakna við greiningu á persónu hennar og ein þeirra er hvort Aþena hafi verið hinsegin.

Áður en lengra er haldið er rétt að staldra við og gera grein fyrir því hvað felst í hugtakinu „hinseginleiki“. Hér á landi hefur hinseginleiki orðið að regnhlífarhugtaki yfir allt það sem samrýmist ekki hinu gagnkynhneigða normi um kynhneigð, kyn og kynvitund (Otila, e.d.). Hinseginleiki felst því ekki einungis í því að vera hommi eða lesbía, heldur svo mikið meira en það, t.d. tvíkynhneigð, eikynhneigð, trans, kynsegin o.fl.

Gríska gyðjan Aþena var gyðja herkænsku, visku og vefnaðar. Hún var dóttir guðsins Seifs en sagan af fæðingu hennar er heldur einkennileg. Samkvæmt sögunni á Seifur að hafa gleypt móður hennar Metís þegar hún var ófrísk. Nokkrum dögum síðar fékk hann hausverk og spratt Aþena um gat á höfði hans. Aþena á þá að hafa verið fullvaxin og klædd skínandi herklæðum (Árni Pétur Árnason og Þorsteinn Gunnarsson, 2014). Sheila Murnaghan (1995) fjallaði um uppruna Aþenu í ritgerð sinni The Plan of Aþena. Þar taldi Murnaghan að Seifur hefði óttast að Metís myndi eignast son, því ef þetta væri sonur myndi hann einn daginn steypa föður sínum af stóli líkt og  hafði áður gerst í öðrum goðsögnum. Þess vegna át Seifur Metís og eignaðist dótturina Aþenu.

Aþena var jómfrú líkt og flestallar gyðjur í grískri goðafræði. Hún virðist hafa búið yfir bæði karllegum og kvenlegum eiginleikum því þótt hún væri gyðja afneitaði hún hugmyndinni um að gifta sig og eignast börn, eitthvað sem forn-grískir karlmenn töldu að væri hlutskipti kvenna (Blundell, 1995). Þó var margt í fari hennar sem þótti kvenlegt svo sem færni hennar í handavinnu. Murnaghan (1995) taldi  táknrænt fyrir Aþenu að hafa verið gyðja vefnaðar því  myndmálið sem felst í því að spinna vef getur vísað til ráðkænsku en það þótti kvenlegt að geta lagt á ráðin á bak við tjöldin. Þá segir ein sagan frá því hvernig hún varð verndargyðja Aþenuborgar sem sumir telja gefa Aþenu ákveðinn kvenleika en á sama tíma draga fram karllægu hlið hennar. Samkvæmt goðsögninni vildu Aþena og sjávarguðinn Pósídon bæði gerast verndarguðir Aþenuborgar. Borgarbúar ákváðu því að efna til keppni. Keppnin fólst í því að goðin tvö áttu að færa borginni gjöf og borgarbúar myndu síðan ákveða hvor gjöfin væri betri. Aþena færði þeim fyrsta ólífutréð en Pósídon saltvatnsuppsprettu og komust borgarbúar að þeirri niðurstöðu að ólífutréð væri betra enda meira notagildi í því heldur en í saltvatninu. Ólífutré þykir vísa til kvenleika Aþenu því það táknar frjósemi jarðar. En það getur einnig höfðað til karllægu hliðar hennar, því ólífutréð gegndi mikilvægu hlutverki í hagkerfi Aþenuborgar (Blundell, 1995).

Mynd 2: Aþena færði íbúum Aþenuborgar ólífutré

Sem fyrr segir var Aþena gyðja herkænsku. í Illionskviðu Hómers blandaði hún sér til að mynda í átök Grikkja og Trójumanna og sagt að hún hafi vakið ótta meðal manna með gylltan hjálm á höfði, spjót í hendi og klædd skínandi brynklæðum (Blundell, 1995). Þrátt fyrir það var Aþena langt frá því að vera ofbeldisfull stríðshetja sem olli ringulreið líkt og stríðsguðinn Ares, þvert á móti einkenndust vinnubrögð hennar af mikilli kænsku og vandvirkni (Murnaghan, 1995).

Mynd 3: Styttan af Aþenu fyrir utan Háskólann í Aþenu

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um þversagnarkenndan persónuleika Aþenu en af öllu þessu ofangreindu má ráða að Aþena hafi verið gyðja sem bjó yfir einkennum beggja kynja. Hún hafi verið herská og sterk, einkenni sem föður hennar þóttu ákjósanleg en á sama tíma var hún kona. Hlutskipti hennar sem kona kom í veg fyrir að hún gæti tekið völdin af  föðurnum en hefði hún verið karl hefði saga hennar án efa orðið önnur (Murnaghan, 1995). Persóna Aþenu samræmist augljóstlega ekki hinu gagnkynhneigða normi sem minnst var hér að ofan og því  má velta fyrir sér hvort skilgreina mætti Aþenu sem trans. Trans eða transgender er regnhlífarhugtak sem vísar til þess að kynvitund eða kynhneigð einstaklings samræmist ekki því kyni sem honum var úthlutað við fæðingu (Samtökin 78, e.d.). Líklega hefur hinseginleiki ekki verið þekktur eða viðurkenndur á þeim tíma sem goðsögurnar um Aþenu komu fram, en þó virðast einkenni hennar samræmast nútímalegum skilningi á trans og hinseginleika. Faðir hennar sá til þess að hún fæddist kona en ekki karl, en hún bar þó ávallt með sér einkenni beggja kynja. Hvort sem hún var trans eða ekki þykir nokkuð augljóst að hún hafi verið hinsegin.

 

Heimildir

Árni Pétur Árnason og Þorsteinn Gunnarsson. (2014, 19. júní). Hvað getið þið sagt mér um grísku gyðjuna Aþenu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=52140

Blundell, S. (1995). Women in ancient Greece. Cambridge, Massachusets: Harvard University Press.

Murnaghan, S. (1995). The Plan of Athena. Í B. Cohen (ritstj.), The distaff side: representing the female in Homer’s Odyssey (bls. 61 – 80). New York: Oxford University Press.

Otila. (e.d.) Hinsegin. Sótt 5. október 2020 af https://otila.is/grunnurinn/hinsegin/

Samtökin 78. (e.d.). Trans Ísland. Sótt 17. september 2020 af https://trans.samtokin78.is/upplysingar_old/trans/