Fórnarlamb sjálfsævisögu sinnar: Rocketman

Flest okkar hafa heyrt að minnsta kosti eitt lag með poppstjörnunni Elton John, enda er hann einn af frægustu tónlistarmönnum okkar tíma. En við höfum kannski ekki öll heyrt ævisögu hans og hvað liggur að baki vinsælda dægurlaga hans. Segja má að kvikmyndin Rocketman sé eins konar ævisaga en það má vart hugsa sér betri leið til að kynna sögu hans en með söngvamynd þar sem hvert lag segir sína sögu um líf Elton John. Kvikmyndin er sett í flokk söngvamynda en er mjög dramatísk. 

Það er margt í kvikmyndinni sem er ekki eins sannsögulegt og halda mætti. Þó að Elton John sjálfur sé framleiðandi myndarinnar þá er búið að breyta sögu hans fyrir skjáinn. Þegar Elton t.d reynir að taka eigið líf þá er hann í myndinni orðinn ríkur og frægur en í raun reyndi hann sjálfsvíg áður en hann varð vinsæll. Sagan hefst þegar Elton stígur inn á fund hjá meðferðarstofnun. Hann byrjar að segja frá atburðum lífs síns eins og hann man þá og hvernig hann varð vinsæll.

Þá víkur sögunni að lífshlaupi Elton en hann heitir fullu nafni Reginald Dwight, en sagan hefst þegar hann er ungur strákur á 6. áratug 20. aldar. Við fáum að kynnast foreldrum hans og móðurömmu og frá þeirri hlið sem Elton segir okkur sjálfur frá. Við fáum líka að sjá hversu einstakt samband hans við lagahöfundinn Bernie Taupin var seinna meir í myndinni, enda kunni Elton víst aldrei að semja texta. Hann var hins vegar snöggur að semja lög við textana hans Bernie.

Elton er framsettur sem fórnarlamb í myndinni, allir eru vondir við hann sem aftur leiðir hann út í áfengi, dópneyslu, kynlífsfíkn og að lokum sjálfsvíg sem mistekst. Myndinni lýkur þegar Elton er orðinn edrú og aftur frægur í kring um áttunda áratug 20. aldar. Sviðsmyndin er oft einkar áhugaverð og sýnir líf Eltons á sviði, líkt og um leikrit sé að ræða. Leikrit sem Elton sjálfur setur upp í einskonar draumaheimi. Þar sjáum við líka hversu mikilvæg góð klipping í kvikmyndum er. Þegar við heyrum lag birtast fáum við oftast að sjá söguna á bak við texta lagsins. Þá er oft klippt snögglega á milli persónanna og mörgum leyft að syngja sína hlið á bak við sögu lagsins.

Kvikmyndatakan er einkar hröð og fer oft á milli persónanna. Við sjáum einnig hvernig tökumanninum tekst að dramatísera senurnar með aðstoð klipparans undir stjórn leikstjórans. Sem dæmi um þetta má nefna Þegar Elton stekkur í laugina þá getur hann enn sungið um tilfinningar sínar, svo er klippt á atriði á sjúkrastofu sem er á einhvers konar sviði eins og leikrit. Eftir eitt augnablik er Elton kominn aftur í tónleikaferð og okkur finnst sjálfsvígið einungis hafa verið martröð.

Handritið er skrifað af Lee Hall en með aðstoð og samþykki frá Elton John sjálfum sem er eins og áður sagði aðal framleiðandi myndarinnar. Það mætti því segja að þetta sé eins konar sjálfsævisaga hans. Leikarinn Taron Egerton fer einstaklega vel með hlutverk Eltons og sýnir góða leiklistarhæfileika.

Lýsing myndarinnar er í beinu samhengi við tilfinningar Eltons. Því lengra sem hann leiðist í rugl því dekkri verður lýsingin í kringum hann. En þegar hann er á sviðinu fáum við að sjá sömu björtu lýsinguna sem sýnir okkur að þar á hann heima. Tónlistin er mikilvægasti partur myndarinnar. Líkt og í myndinni Mamma Mia þá eru það lögin sem í raun segja söguna. Í Rocketman sjáum við ekki bara tilfinningar Eltons þegar lögin birtast heldur líka hinna persónanna sem oft syngja með eða á móti honum.

Búningarnir eru líka einstakir þar sem búningahönnuðurinn hefur virkilega lagt sig fram og líkt eftir þeim fatnaði sem Elton klæddist forðum. Leikstjórinn Dexter Fletcher hefur áður leikstýrt kvikmynd um fræga tónlistarmenn en hann leikstýrði myndinni Bohemian Rhapsody áður en Rocketman var gerð. Þá hefur hann áður leikstýrt Taron Egerton í kvikmyndinni um Eddie Eagle. Að mínu mati sýnir hann í kvikmyndinni Rocketman hvers hann er megnugur og hversu hæfileikaríkur leikstjóri hann er.