Fréttaskýring: Hvað er málið með þessi staðpróf?

Þann 2. nóvember síðastliðinn gaf Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, það út að vegna COVID-19 verði lokapróf haustmisseris 2020 haldin á netinu nema í undantekningartilvikum. Þessi undantekningartilvik eru svokölluð samkeppnispróf eða próf þar sem ekki er hægt að tryggja gæði námsmats og jafnræði meðal nemenda á netinu. Það væru þó fræðasviðin sem ákveddu hvaða próf skyldu vera staðpróf í samráði við Kennslusvið. Það má halda svokölluð staðpróf í vel loftræstum rýmum með allt að 30 manns ef sóttvarnarreglum er fylgt. Með staðprófi er átt við að nemendur mæta upp í skóla til að taka prófin.

Rúmri viku eftir yfirlýsingu rektors birti Kennslusvið lista yfir þau próf sem yrðu staðpróf. Þá kom í ljós að úrræðið hefði verið nýtt óspart og var munurinn á milli fræðasviða mikill. Til dæmis verða 72 staðpróf á  Heilbrigðisvísindasviði en aðeins tvö á  Hugvísindasviði.

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur gagnrýnt þessar undanþágur harðlega og sagt þær í engu samræmi við sóttvarnarreglur. Var bent á að stúdentar væri afar fjölbreyttur hópur og margir hefðu undirliggjandi sjúkdóma. Þá væru fjölskylduaðstæður afar misjafnar. Öryrkjabandalag Íslands tók í sama streng og taldi skólann vera að stefna öryggi nemenda í hættu.

Í viðtali við Vísi sagði forseti heilbrigðisvísindasviðs, Dr. Inga Þórsdóttir, að það væri einhver misskilningur í gangi. Nemendur hafi til dæmis sagt það skrýtið að hafa ekki mætt í skólann í vetur vegna ástandsins en eigi nú að hópast í skólann til að taka próf. Inga benti á að einhverjir nemendur hafi unnið saman í hópum í vetur og muni taka prófin saman. Þá viðurkenndi hún að 25% námsmatsins á sviðinu byggðist á staðprófi, en ítrekaði að það væri ekki annað í boði ef tryggja ætti gæðin. Þá væri ákveðinn kostur að færri staðpróf væru á öðrum fræðasviðum, en þá væri meira pláss fyrir þá nemendur sem þurfa að taka staðpróf.

Sem fyrr segir verða aðeins tvö staðpróf á Hugvísindasviði. Samkvæmt próftöflu eru bæði prófin hjá Íslensku- og menningardeild en þó ekki í bókmenntafræðinni. Nemendur geta séð próftöfluna sína inni á Uglu.

Yfirlýsing frá Öryrkjabandalagi Íslands

Frétt af vef RÚV

Frétt af vef Vísis

Frétt af vef Vísis