Æska Kamölu Harris og áhrifavaldurinn Shyamala Gopalan

Móðir Kamölu Harris, Shyamala Gopalan sagði einhverju sinni við dóttur sína: „Vertu fyrst til að gera góða hluti, þú hefur allt sem til þarf“. Orð móður hennar höfðu sterk áhrif á Kamölu, sem nú verður fyrst kvenna til að gegna embætti varaforseta Bandaríkjanna þegar hún verður sett í embætti þann 20. janúar 2021.

Árið 2019 gaf Kamala Harris út bókina The Truths We Hold – An American Journey en þar helgar hún móður sinni drjúgan hluta frásagnarinnar. Mikið hefur verið ritað um Kamölu sjálfa en athyglisvert er að skoða hvar rætur hennar liggja. Shyamala Gopalan-Harris, móðir Kamölu, var merkileg kona fyrir margra hluta sakir og dóttirin lítur á hana sem sína stærstu fyrirmynd. Shyamala Gopalan fæddist í apríl 1938 í Madras á Indlandi. Hún var elst fjögurra barna hjónanna Painganadu Venkataraman Gopalan og Rajam Gopalan. Fjölskyldufaðirinn var háttsettur opinber starfsmaður og leiðtogi, sem barðist fyrir borgaralegum réttindum og sjálfstæði Indlands. Móðirin var ekki með neina menntun, en hún var dugnaðarforkur sem skipulagði samfélagslega vinnu af ástríðu. Hún veitti konum sem bjuggu við heimilisofbeldi stuðning og hjálp, auk þess sem hún fræddi konur um getnaðarvarnir. Hjónaband Gopalan-hjónanna var fyrirfram ákveðið, en þau virðast hafa verið hamingjusöm og samhent. Á síðari hluta ævinnar bjuggu þau víða og fluttu frá Madras til Nýju-Dehli, Bombey, Calcutta og til Zambíu í Afríku, þar sem fjölskyldan veitti flóttamönnum aðstoð.  Hjónin innrættu börnum sínum mikilægi menntunar og nefndu í því sambandi læknisfræði, lögfræði og verkfræði sem möguleika fyrir börnin sín fjögur.

Shyamala, mamma Kamölu, lærði snemma af foreldrum sínum mikilvægi þess að styðja og hjálpa öðrum. Það gæfi lífinu bæði tilgang og aukið gildi. Það var þeim algjörlega eðlilegt að huga að líðan samborgara sinna. Að sögn Kamölu erfði móðir hennar, Shyamala, dugnaðinn og hugrekkið frá móður sinni, auk þess að erfa frá báðum foreldrum sínum pólitíska hugsun. Mikið var rætt um félagslegt réttlæti, jöfnuð og frelsi heima fyrir. Shyamala sagði við dætur sínar tvær að mikilvægt væri að gera allt eins vel og þær gætu, að þær skyldu aldrei kasta til höndunum. Kamala segir frá því að þær systurnar, sem báðar eru menntaðir lögfræðingar, hafi lært það sama af móður sinni, Shyamölu Gopalan og hún hafi lært af foreldrum sínum. Félagslegur arfur, svo sem sterk réttlætiskennd og samhygð með öðrum, hefur erfst frá einni kynslóð til annarrar. Shyamala Gopalan sýndi vísindum snemma mikinn áhuga. Foreldrar hennar hvöttu hana og studdu til að halda áfram námi, eftir að hún útskrifast með BSc gráðu frá háskóla í Delhi, þá 19 ára gömul.

Mamma Kamölu sótti um framhaldsnám í Kaliforníu. Þegar henni var ljóst að hún hefði fengið inngöngu í háskólann í Berkley bað hún foreldra sína um leyfi til að fá að fara; hún hafði hugrekkið og viljann til að freista gæfunnar í ókunnugu landi þrátt fyrir að hafa aldrei ferðast neitt út fyrir Indland. Kamala segir frá því að það hljóti að hafa verið erfitt fyrir ömmu sína og afa að sjá á eftir 19 ára dótturinni til annarrar heimsálfu. Á þeim tíma höfðu fæst indversk heimili síma, svo samskiptin fóru fram í gegnum sendibréf, sem tóku óratíma að komast á leiðarenda. Foreldrarnir hvöttu Shyamölu heilshugar, líka fjárhagslega með því að taka af sparnaði, sem átti að vera til efri áranna. Shyamala lauk masters- og doktorsgráðu í næringarfræði og lífeindafræði frá Berkley háskólanum í Kaliforníu árið 1964. Sama ár fæddist Kamala, en þá var móðir hennar 25 ára. Hún ætlaði sér alltaf að fara aftur til Indlands að námi loknu, en ástin og örlögin tóku völdin. Ári áður hafði hún kynnst Donald Harris á baráttufundi fyrir borgaralegum réttindum litaðra. Donald var þar ræðumaður kvöldsins, hann heillaði Shyamalu svo um munaði.

Donald Harris, pabbi Kamölu, fæddist á eynni Jamaica í Kyrrahafi árið 1938. Honum var lýst sem afburða góðum nemanda, sem flutti til Bandaríkjanna, eftir að hafa fengið inngöngu í háskóla í Berkley í Kaliforniu þar sem hann lagði stund á hagfræði. Kamala var ekki gömul þegar hún fór að fara sjálf á baráttufundi með foreldrum sínum, sem skunduðu með hana í kerru í margmenninu. Meðal annars heyrðu þau Martin Luther King jr. halda ræðu við Berkley háskólann 1967. Shyamala og Donald voru bæði miklir tónlistaunnendur, þau hlustuðu mikið á gospel, jazz og indverska tónlist og nutu lífsins. Menningarbragur var yfir heimilinu  sem var fullt af plakötum, bókum og hljómplötum. Shyamala vann til verðlauna fyrir fallegustu söngröddina sem unglingur, og Kamala minnist þess hvað það hafi verið notalegt að heyra móðurina syngja sig í svefn og einnig að hlusta á Miles Davis, John Coltrane og fleiri listamenn á upptökum. Fjölskyldan stækkaði, Shyamala og Donald eignuðust aðra stúlku Mayu 1966. Donald fékk prófessorsstöðu við háskólann í Winsconsin, en þá voru komnir brestir í hjónabandið. Þau skilja þegar Kamala er 7 ára. Móðirin fékk forsjá telpnanna og sá að mestu leyti um uppeldi þeirra eftir skilnaðinn en systurnar hittu pabba sinn í öllum sumarleyfum. Kamala talar um að foreldar sínir hafi ekki þráttað um peninga eða innanstokksmuni við skilnaðinn, heldur bækur, sem bæði vildu eiga. Það sýnir hversu sterk fyrirmynd Shyamala var að hún starfaði alla tíð sem vísindamaður, við krabbameinsrannsóknir bæði í Bandaríkjunum og Kanada. Hennar stóri draumur var að finna lækningu við brjóstakrabbameini. Hún tók þátt í fjölda rannsókna og mikið var birt af rannsóknum sem hún kom að. Kamala var mikið með móður sinni á rannsóknarstofum þegar hún var yngri, og fékk þar lítil verkefni, sem hún réði við.

Shyamala átti fjöldann allan af góðum vinum, sem hjálpuðu einstæðu móðurinni við uppeldið, og mæðgurnar voru umkringdar af mörgu góðu fólki sem þær kölluðu frænkur og frændur. Shyamala hafði tvö markmið í lífinu. Annars vegar að ala dætur sínar upp, sem stoltar, litaðar konur sem gætu allt sem þær ætluðu sér. Hins vegar að finna upp lækningu við brjóstakrabbameini.Hún lést árið 2009, þá sjötug að aldri, úr ristilkrabbameini.

Kamala segir að það sé enn erfitt að sætta sig við að móðirin sé látin, hennar sé sárt saknað. Erfitt sé að geta ekki borið undir hana mikilvægar ákvarðanir og hún hugsi oft: „Hvað myndi mömmu finnast?“. Það undirstrikar enn og aftur hversu sterk og áhrifamikil fyrirmynd Shyamala var fyrir dóttur sína Kamölu, samanber síðustu orð bókarinnar, þar sem hún minnist móður sinnar: „Það er mín einlæga von að þessi bók muni hjálpa þeim sem aldrei hittu þig til að skilja hvers konar manneskja þú varst. Hvað það þýðir að vera Shyamala Harris og hvað það þýðir að vera dóttir hennar“.