Rebbar að leik

Það er eitthvað öðruvísi við daginn í dag, einhver ný lykt í loftinu. Litlu rebbarnir klöngrast upp úr niðurgrafinni holunni og skjótast út í morguninn. Grasið er enn þá rakt eftir nóttina og litlu rauðu loppurnar verða samstundis moldugar. Það er svo margt að skoða, því núna er kominn maí og blómin hafa sprungið út.

Tófan skríður tignarlega út á eftir yrðlingunum þremur og fylgist með þeim álengdar. Hún truflar ekki leik þeirra. Hún veit að þeir fara sér ekki að voða, svo lengi sem hún hefur auga með þeim.

Litlu rebbarnir hlaupa á milli steina og trjáa, fella niður stilka og traðka á mosa. Einn og einn smáfugl flýgur upp þegar einhver yrðlingurinn kemur of nálægt og tístir móðgaður um leið. Yrðlingarnir láta það ekki á sig fá, þeir halda leiknum áfram. Þeir hlaupa eftir skóglendinu og mæta ýmsum vinum á leiðinni. Íkornaunginn sem þeir hittu nokkrum dögum fyrr slæst í för með þeim, stökkvandi grein frá grein. Hann kastar í þá frjókornum sem yrðlingarnir stinga sér undan en annað slagið hittir íkorninn í þá. Á leið sinni hitta þeir einnig lítinn bamba, broddgölt og tvo ugluunga. Saman skemmta þeir sér konunglega þennan vota maímorgun.

En allt í einu sjá þeir ekki lengur tófuna og hún ekki þá, þeir hafa farið of langt. Litlu rebbarnir með grútskítugu loppurnar eru, ásamt vinum sínum, komnir að útjaðri skógarins – nálægt bænum, þar sem mannfólkið býr. Í fjarska heyrist kall tófunnar en litlu rebbarnir snúa ekki við. Vinir þeirra fara hins vegar til baka, hræddir við hið óþekkta. 

Hlátrasköll og skrækar raddir berast frá bænum og litlu rebbarnir mjaka sér nær. Þeir hafa aldrei komið svo nálægt mannfólkinu áður, þeir vissu ekki einu sinni að það væri til – fyrr en nú. Þeir fylgjast með litlu barni hlaupa á eftir fiðrildi, það reynir að grípa utan um það en fiðrildið sleppur alltaf undan.

Skyndilega kemur barnið auga á yrðlingana þrjá og rekur upp skrækan hlátur. Það hleypur klunnalega í átt að þeim og þeim bregður í brún. Þeir hreyfa hvorki legg né lið og bíða stjarfir eftir barninu. Barnið er komið að þeim og sest skellihlæjandi niður fyrir framan þá. Einn yrðlingurinn tekur af skarið og læðist upp að barninu sem réttir fram hendina og brosir. Yrðlingurinn rekur trýnið í opinn lófann og þefar. Barnið klappar höfði hans harkalega, stendur upp aftur og hleypur jafn klunnalega til baka. Litlu rebbarnir ákveða að þeir hafi fengið nóg og hlaupa aftur inn í skóg, aftur til mömmu sinnar.

Það er kominn matartími og tófan fer með ungana sína aftur að holu þeirra, hún skammar þá ekki fyrir uppátækið en næst mun hún fylgjast betur með. Þeir hjúfra sig upp að henni, þreyttir eftir ævintýri morgunsins.