Halldóra Lena Christians

,,Sá sem ekki lifir í skáldskap, lifir ekki af hér á jörðinni“
~ Kristnihaldi undir jökli eftir Halldór Laxness ~

Ég heiti Halldóra Lena Christians, kölluð Dóra Lena, og er BA-nemandi í almennri bókmenntafræði og þýsku við Háskóla Íslands ásamt því að vera vaktstjóri í Gæludýr.is og móðir einnar næstum 2 ára. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á sögum, hvort sem það er í skriflegu formi eða á skjá. Mér hefur alltaf þótt áhugavert að sjá hvernig saga birtist fyrst á blaði og síðan á skjá. Þar er hægt að gera mikinn samanburð. Oft hentar ekki það sem höfundur hefur skrifað á blað, og það sem á að birtast á skjánum. Aðallega þarf að stytta sögur og taka út persónur og því sem margir eru ósáttir við endurgerðir á hvíta tjaldinu. Ég hef því unnið mikið í kvikmyndum hér áður fyrr en langar núna að einbeita mér að bókmenntaheiminum.

Ég hef alltaf skrifað mikið en aldrei neitt opinberlega. Það hafa aðallega verið bara litlir sögubútar eða smásögur fyrir sjálfan mig. Eins konar útrás. Þess vegna ákvað ég, þar sem ég sat í vinnunni þá sem verslunarstjóri í Gæludýr.is, að skrá mig á ritlistarnámskeið. Reyna að hemja útrásina og sjá hvort það væri eitthvað varið í mín orð. Námskeiðið hét Skapandi Skrif með Björgu Árnadóttur. Það var þá gjörsamlega út fyrir þægindarammann minn þar sem ég hef ekki látið mikið bera á mínum skrifum. Mér þótti hins vegar námskeiðið svo skemmtilegt að ég vissi þá að ég var tilbúin til að gera meira í þeim heimi. Því skráði ég mig í Háskóla Íslands strax á mánudeginum eftir námskeiðið.  Fyrsti tíminn minn við Háskólann var í þjóðsagnfræðum. Þá vissi ég að ég væri komin á heimavöllinn minn. Sá áfangi var afskaplega skemmtilegur og fræðandi. Ég hef alltaf haft gaman af Grimms ævintýrunum og írskum búálfum og þarna var ég að læra svo mikið meira. Þar sem ég ólst upp að hluta til á Írlandi þá þótti mér skemmtilegt að sjá t.d hvernig þjóðsögur okkar íslendinga tengdust Írunum og öfugt. Áhugavert var líka að sjá hvernig margar af sömu sögunum tengdust um allan heim og sameinuðu ólíklegustu þjóðir bara með sameiginlegan sagnaheim.

Ég byrjaði samt seint að nenna að lesa fyrir utan auðvitað Bert bækurnar sem barn. Ég vildi t.d ekki lesa Harry Potter, þóttu það afskaplega leiðinlegar bækur. Amma mín var samt alltaf  dugleg að gefa mér bækur í gjöf í þeirri von um að ég myndi byrja að lesa og fá  loks áhuga á bókum. Í minni fjölskyldu er mikið um lestur, skrif og kvikmyndagerð. Sögur eru því stór hluti af uppeldinu. Amma náði loks að gefa mér bók sem vakti áhugann hjá mér, hún hét Sjáumst aftur eftir Gunnhildi Hrólfsdóttur og var um unga stúlku sem flytur til Vestmannaeyja og fara draugar fortíðar að koma til hennar til að vara við framtíðinni. Þessi bók var í miklu uppáhaldi í mörg ár. Hún var svo öðruvísi en aðrar barnabækur sem ég  hafði fengið, enda ekki skrýtið því hún vann Íslensku Barnabókaverðlaunin árið 2001. 

Í gegnum tíðina hef ég verið að leita að minni áherslu. Mér hefur alltaf fundist gaman að lesa bækur um konur sem finna sig. Léttar rómantískar sögur eða Skvísubókmenntir eins og Alda Björk Valdimarsdóttir, kennari við Háskólann, kallar bækurnar. Það var afskaplega áhugavert í hennar áfanga að læra að Skvísubókmenntir er alls ekki nýtt hugtak. Jane Austen var til dæmis ein af fyrstu til að skrifa skvísusögur.

Þar sem ég ólst líka upp við margar ólíkar hefðir í þremur löndum þá fannst mér gaman að skoða barnabókmenntir. Oft finnst mér vanta fjölbreyttara efni, aðallega fyrir unglinga.

Ég vonast til þess að finna mína aðal áherslu sem fyrst þar sem styttist í BA ritgerðina mína.

,,Sá sem ekki lifir í skáldskap, lifir ekki af hér á jörðinni“ er falleg tilvitnun úr Kristnihaldi undir jökli eftir Halldór Laxness, sem á afskaplega vel við. Bækur, sögur, kvikmyndir, gefa okkur svo afskaplega mikið. Bæði í dag og í gamla daga. Við höfum endalaust að efni til að horfa á í dag og margt af því er byggt á sögum upp sem hafa verið sagðar og ritaðar, oft í margar aldir. Skáldskapurinn hefur því fært okkur mönnum mikið og haft áhrif á menningu okkar enda stór partur af henni. Hún hefur líka ólík áhrif á hverja kynslóð fyrir sig. Bækur og sögur munu hafa áhrif á mig út lífið.