Fræðin sem ekki eru kennd við Háskóla Íslands

Fræðimenn hafa skapað ótal fræði í gegnum tíðina. Flest eru þessi fræði til þess að skilja manneskjuna betur og um leið fræðast um okkur sjálf. Lýðfræði eru einmitt þau fræði sem hafa tekið manneskjuna til skoðunar, eða réttara sagt tengsl hennar og mannfjöldans. Dr. Ari Klængur Jónsson hefur mikinn áhuga á lýðfræðum en hann hefur lokið doktorsnámi sínu við Stockholm University og útskýrir fyrir okkur aðeins nánar hvað liggur að baki lýðfræðarinnar.

Ari Klængur segir að lýðfræði sé vísindagrein sem fjallar um hvaða afleiðingar breytingar hafa á mannfjöldann og orsakir þessara breytinga. Lýðfræðingar rannsaka þannig frjósemi, andlát og búferlaflutninga sem eru þær þrjár stoðir sem hafa haft áhrif á mannfjöldann á hverjum stað og tíma. Í félagslegri lýðfræði eru rannsakaðir þættir sem hafa áhrif á mannfjöldann og samsetningu hans, t.d með því að rannsaka tengslin á milli kynjajafnréttis og barneigna. Annað sem lýðfræðingar rannsaka er t.d. hvers vegna barneignir utan hjónabands séu tíðari í dag en þær voru áður.

Ari Klængur starfar við Félagsvísindastofnun Háskóla íslands,  nýtir lýðfræðina til rannsókna og hefur sótt um rannsóknarstyrki til að halda áfram rannsóknum sínum. Ætlun hans er að rannsaka ójöfnuð í frjósemi, það er hvort barneignir séu tíðari eða óalgengari meðal sumra samfélagshópa en annarra. Hann vann lengi að málefnum innflytjenda og fékk þannig áhuga á lýðfræðinni. Ari hefur alltaf haft mikinn áhuga á tölum og staðreyndum. Eftir að hafa lokið mastersnámi í lýðfræði við háskólann í Stokkhólmi, skráði hann sig í doktorsnám í greininni.

Líftafla nýtist okkur í dag t.d í spálíkönum fyrir útbreiðslu Covid19 veirunnar.

Þar sem ég hafði aldrei heyrt um þessi fræði áður spurði ég Ara Klæng hvort þetta væru ný fræði? Eins og svör Ara bera með sér hefur þessi fræðigrein verið lengi við lýði. -,,Þau koma inn á aðrar vísindagreinar eins og félagsfræði, faraldursfræði, hag- og stjórnmálafræði og svo framvegis. Aðferðir fræðinnar eru því grunnurinn að ýmsum öðrum félagsvísindum. Svokölluð líftafla er í grunninn komin frá lýðfræðinni. Hún var gerð í London á 17. öld undir nafninu Bills of Mortality. Sú líftafla nýtist okkur í dag t.d í spálíkönum fyrir útbreiðslu Covid19 veirunnar. Fyrsti þekkti lýðfræðingurinn er Thomas Robert Malthus sem gaf út bók árið 1798 um mannfjölgun og slæmar afleiðingar hennar“ útskýrir Ari. En eru þessi fræði kennd við Háskóla Íslands? ,,Nei, þessi fræði eru að minnsta kosti ekki enn kennd við HÍ. En vonandi með tíð og tíma“ svarar Ari.

Þar sem ég er í bókmenntafræði hafði ég áhuga á að spyrja Ara hvort hægt væri að tengja þessar tvær fræðigreinar ,,Það er örugglega hægt með áhugaverða rannsóknarspurningu, t.d að nota líftöfluna til að skoða sölu bóka. Meiri fræðilegri nálganir er eflaust hægt að finna en ekkert sem mér dettur í hug á þessari stundu“.

Flest námskeið í lýðfræðinni eru þverfagleg, samsetning mannfjöldans hefur áhrif á allt samfélagið og eru vonir bundnar við að lýðfræðin verði þekktari sem vísindagrein innan fárra ára.  Stóru vandamálin sem við stöndum frammi fyrir sem mannkyn tengjast oft breytingum á fjöldanum og eru lýðfræði því mikilvæg rannsóknargrein, hvort sem um er að ræða umhverfismál, innflytjendamál eða að halda úti velferðarkerfi. Félagslegar aðstæður fólks skipta miklu máli þegar kemur að lýðfræðinni og samfélagsleg viðhorf fólks, þannig tengjast lýðfræðin og félagsfræðin sterkum og órjúfanlegum böndum.