Sæunn Þórisdóttir

Í lífinu skiptast á skin og skúrir og því hef ég reynt að temja mér að lifa í núinu og láta hverjum degi nægja sína þjáningu. Það er nauðsynlegt að staldra oft við og vera óhrædd við að spyrja spurninga og endurskoða sjálfa sig, gildi, venjur og drauma

Sæunn Þórisdóttir er útskrifuð úr almennri bókmenntafræði með ritlist sem aukagrein en er nú að hefja MA-nám í hagnýtri ritstjórn og útgáfu.

 

Ég hlakka til að takast á við ritstjórn á næstu misserum og vonast til að geta gert fagið að framtíðaratvinnu. Áhugamálin mín eru fjölmörg en þau sem ég hef verið að sinna mest undanfarið eru; útivist, bókmenntir og eins og svo margir aðrir smitaðist ég af plöntuáhuga og ræktun í samkomubanninu.

Þegar ég bætti við mig ritlist sem aukagrein, í grunnnáminu mínu, fékk ég áhuga fyrir ritstjórn. Það er svo gaman að taka þátt í að gera góðan texta betri. Annars þóttu mér nánast öll námskeiðin skemmtileg og yfirleitt var það námskeiðið sem ég sat hverju sinni sem var mitt uppáhalds. Kannski er það einmitt þess vegna sem síðasta námskeið sem ég tók er eftirminnilegast en það var námskeiðið: Skáldsagan á hvíta tjaldinu sem Ása Helga Hjörleifsdóttir kenndi. Áður en námskeiðið hófst var ég hæfilega bjartsýn á að þetta yrði gaman. Í námskeiðinu fólst þó hins vegar ný og býsna skemmtileg reynsla. Ég valdi mér skáldsögu til að byrja að skrifa kvikmyndahandrit eftir. Það er skemmst frá því að segja að eftir að námskeiðinu lauk hef ég verið að velta því fyrir mér að klára handritið og tala við frænda minn, sem er að læra að leikstýra, um hvert framhaldið geti orðið.

Þegar ég les mér til skemmtunar, verða nýjar glæpasögur oft fyrir valinu. Nýlega kláraði ég t.d. Marrið í stiganum eftir Evu Björk Ægisdóttur. Eva Björk lofar góðu sem rithöfundur og ég hlakka til að lesa meira eftir hana. Engu að síður hefði ég gjarnan viljað fá að lesa söguna á meðan hún var enn í vinnslu og gera örfáar ritstjórnarlegar athugasemdir. Þegar ég horfi á sjónvarp, sem er nánast öll kvöld vikunnar, horfi ég helst á sjónvarpsþætti. Við fjölskyldan erum að horfa saman á gamlar seríur af Alias og þættirnir eldast bara ágætlega vel og Jenifer Garner, sem er í aðalhlutverki, er ótrúlega flott. Annars get ég heldur ekki slitið mig frá annarri seríu þessa dagana, sem kom út 2019 í Ástralíu og heitir The Block. Þar fer saman hönnun, mannleg samskipti og mikið drama.

Ég er mjög spennt fyrir náminu og langar að læra að ritstýra allskonar efni. Þar sem tímarnir eru að breytast mjög hratt með tilkomu Covid19 valdi ég mér tvö námskeið í vefritstjórn á þessu misseri. Vonandi fæ ég tækifæri á sviði vefritstjórnar í framhaldi af náminu en ég er líka að skrifa ýmsa stutta texta sem ég  veit ekki hvort munu leiða mig eitthvert.

Í lífinu skiptast á skin og skúrir og því hef ég reynt að temja mér að lifa í núinu og láta hverjum degi nægja sína þjáningu. Það er nauðsynlegt að staldra oft við og vera óhrædd við að spyrja spurninga og endurskoða sjálfa sig, gildi, venjur og drauma.