Drekkið mér tvisvar!

Tæpum þrjú hundruð árum eftir dauða sinn fær Sunnefa Jónsdóttir (fædd 1723) loks að segja sögu sína með aðstoð leikskáldsins Árna Friðrikssonar. Þetta er saga konu sem tvívegis var dæmd til drekkingar fyrir það eitt að ala börn í heiminn. „Ég er þakklát fyrir að fá að ljá henni rödd mína“ segir Tinna Sverrisdóttir leikkona í viðtali við Landann um verkið Sunnefa, sönn saga? sem frumsýnt var í Menningarmiðstöðinni á Egilsstöðum nú í september.

Tinna Sverrisdóttir og Margrét Kristín Sigurðardóttir

Hvernig svo sem menn hafa nú ætlað að fara að því að drekkja þessari blessuðu konu í tvígang þá var það hennar dómur og hans beið hún í 18 ár sem fangi á meðan mál hennar flæktist nefndardóma á milli. Sextán ára varð hún ólétt. Það var hennar afbrot. Og í fjóra daga reyndi héraðspresturinn að tala um fyrir henni, fá hana til að kenna fjórtán ára bróður sínum barnið og fría þar með raunverulegan föður frá broti sínu. Það sem við köllum sifjaspell í dag var í þá daga kallað blóðskömm og við henni lá dauðadómur. Fangari Sunnefu, sýslumaðurinn Hans Wium gat henni síðar annað barn og hlaut hún þar með sinn annan dóm þó sjálfur hafi hann setið keikur áfram í embætti.

Teikningar eftir Móeiði Helgadóttur

Þannig var veruleiki íslenskra kvenna á 18. öldinni. Öldinni sem í Evrópu var kennd við skynsemina. Hérlendis hrundi tíundi hluti þjóðarinnar úr sulti og vosbúð og skömmu síðar náðu móðuharðindin fjórðungi þeirra sem eftir stóðu. Því er ekki óskiljanlegt að fólk hafi í örvæntingu sinni leitað svara hjá Guði sem á þeim tíma hafði tangarhald á sálarlífi þjóðar.

Allt sem stríddi gegn orði biblíunnar, eða skilningi manna á henni var refsivert og dauðadómar tíðir. Tvö hundruð og tuttugu manns enduðu ævi sína á höggstokkum og í drekkingarhyljum þessa lands fyrir ýmis brot gegn guðsorðinu. Hórdómsbrot, lausaleiksbrot, frillulífisbrot og þar fram eftir götunum. Allt samkvæmt Stóra dómi. Í vondu tíðarfari þefuðu menn upp saurlífi á bæjum og dæmdi fólk fyrir í þeirri von að létta myndi á.

Lífi Sunnuefu er fórnað í þennan hyl vonleysis þó ekki sé í raun vitað hvort henni hafi á endanum verið drekkt eða hvort hungrið hafi verið fyrra til að draga hana til dauða. Börnin hennar tvö voru sennilegast tekin af henni og sett í fóstur á meðan hún var send landshluta á milli sem vinnukona á meðan hún beið örlaga sinna. Allt eftir geðþótta sýslumannsins Hans Wium, fangara hennar og barnsföður.

Saga hennar er eins og áður segir ekki einstök en hún er samt af einhverjum ástæðum sú saga sem lifir. Hún lifir í sagnaminni Austfirðinga, lifir í örnefninu Sunnefuhylur og hún sækir á fólk því að á Egilsstöðum skrifar maður henni leikrit og kona henni skáldsögu (bók í vinnslu). Á tímum spíritisma hefðum við sagt að Sunnefa sjálf herji á fólk, vilji að saga sín sé sögð svo hún hljóti frið og kannski lofum við því bara að standa. En saga hennar er líka um margt sérstök og ekki bara vegna hins tvöfalda dauðadóms heldur einnig og miklu fremur vegna þess að þegar hún stóð á alþingi frammi fyrir dómurum sínum neitaði hún að beygja sig eftir þeirra vilja. Þess í stað stóð hún hnarreist og sagði sinn sannleika, þvert á orð og meiningar presta og sýslumanna.

Þó reynt hafi verið að lama baráttuþrek þessarar konu í 18 ár stóð hún við orð sín til dauðadags. Og sú staðreynd, sá styrkur fór ekki með henni í gröfina heldur lifir til dagsins í dag. Sunnefa Jónsdóttir stendur eftir sem fyrirmynd allra þeirra kvenna sem á eftir henni koma. Og nú hefur saga hennar verið sögð og með því horfumst við í augu við fortíðina, gerum hana upp og reisum við æru Sunnefu Jónsdóttur sem nú loks fær sinn langþráða frið.

Höfundur er aðstoðarleikstjóri leikverksins, „Sunneva, sönn saga?“sem tekið verður til sýningar í Tjarnarbíó 10. október næstkomandi. Ef covid lofar.