Tvö ljóð

fugl (þér til samlyndis)

ég sendi þér flöskuskeyti í gær

nema ég gleymdi að setja tappann í

og flaskan brotnaði í fjörugrjótinu

því skjálfhent dríf ég ekki lengra en

rétt út fyrir strandlengjuna

og nú er eflaust einhver fuglanna

sem þekkir ekki muninn á

brauðsneið og ástarjátningu

með magapínu yfir

óheppilegu orðalagi mínu

og almennum vandræðagangi

alveg eins og þú

draugasögur

undir rykugum bókakössum

í löngu framliðinni geymslu

finn ég blýant

ríf af honum strokleðrið

og ydda hann oddhvassan í báða enda

með honum skal ég skrifa sögurnar mínar

samtímis á blað

og eitthvert út í loftið