Dauðastjarnan:

Um Clarice Lispector og Stund stjörnunnar

Rétt áður en hin goðsagnarkennda Clarice Lispector kvaddi þessa jörð gaf hún út sína tíundu skáldsögu, Stund stjörnunnar (1977), (e. The Hour of the Star). Í þessari skáldsögu Lispector mætast hæfileikar hennar og sérviska á þann hátt sem er lýsandi fyrir ritferil hennar, kvíðinn sem fylgir því að skrifa en á sama tíma þörfin sem knýr hana áfram. Glæst örlög hinnar tragedísku hetju, Macabéu, eru því alveg í takt við þá angist og sköpunargleði sem felst í skrifum Lispector.

Lispector tekst oft á tíðum við kvenlegar upplifanir og er talin hafa búið yfir ákveðnum skáldlegum töfrum sem fangar lesendur í verkum hennar. Í grein sinni The True Glamour of Clarice Lispector skrifar Benjamin Moser (2015) um hinn glæsilega stíl Lispector, bæði í tísku og skrifum. Stíll hennar var, og er enn, nýstárlegur og tilraunarkenndur sem hentar ekki öllum lesendum – en þeir sem skilja hana, falla fyrir henni um leið. Þó svo að verk hennar séu ekki sjálfsævisöguleg þá skrifaði hún iðulega um eigin upplifanir og dró innblástur frá lífi sínu: þegar hún var ung stúlka skrifaði hún um ungar stúlkur, þegar hún var húsmóðir skrifaði hún um húsmæður o.s.frv. Þannig má sjá lífsferil hennar og persónuleika í verkunum sem vekur löngun lesenda til þess að kynnast Lispector sjálfri, sem er aðdáunarverður eiginleiki sem alls ekki allir höfundar hafa – hvort sem það var viljandi eða ekki.

Í sínu fyrsta og eina sjónvarpsviðtali árið 1977 lýsir Lispector Stund stjörnunnar sem krömdu sakleysi og nafnlausri eymd. Sagan fjallar um unga stúlku sem er frá sama fylki og Lispector sjálf og flyst til Río, líkt og hún gerði. Einnig gefur hún sögumanni þessa sömu eiginleika sína og festir sig þannig í báðum persónum. Lesandi fær fyrst að kynnast sögumanninum, Rodrigo, og hugarheimi hans á persónulegum nótum. Hann er í raun langmest inni á sögusviðinu og Macabéa, aðalhetja sögunnar, virðist í raun einungis vera peð í hans höndum sem hefur engan sjálfstæðan vilja. En þegar betur er að gáð má sjá að Macabéa býr yfir miklum tilfinningum og getur fangað lesendur á eigin forsendum.

Það sem er svo skemmtilegt við þessa skáldsögu er að það er í raun ekki hægt að treysta orðum sögumanns og verður lesandi nánast að hunsa hans inngrip því hann þekkir ekki Macabéu jafn vel og hann vill láta í ljós. Einnig yfirfærir Rodrigo galla sína á söguhetjuna þar sem hann getur bent á þá, þó svo að ekkert gefi í raun til kynna að hún hafi þessa galla. Rodrigo segist ekki hafa skapað Macabéu heldur hafi hún þröngvað sér upp á hann – sem gefur til kynna að Macabéa búi djúpt innra með Rodrigo og hans bældu tilfinningum. Saga Macabéu er í raun fremur ómerkileg, líkt og sögumaður segir. Hún er óspennandi stelpa sem á þurrt og yfirborðskennt samband við strák sem hefur ekki áhuga á henni, hann hættir með henni fyrir ríkari stelpu, hún fer til spákonu og deyr. En það er Macabéa sjálf sem gerir söguna áhugaverða, hvernig hún hagar sér og bregst við aðstæðum sínum. Ef sögumaðurinn er hunsaður og einblínt er á textann sjálfan, má sjá tilfinningaríka stelpu sem er fórnalamb vanrækslu og ofbeldis. Macabéa er einungis að reyna að ganga í gegnum lífið á sem sársaukaminnstan hátt.

Þó svo að það sé Rodrigo sem knýr söguna áfram með því að skrifa hana þá hefur hann í raun enga stjórn á aðstæðum. Hann þröngvar sér fram á sjónarsvið sögunnar og segir frá eigin upplifunum en samúðin liggur ekki hjá honum við lesturinn. Macabéa hins vegar fangar athygli lesanda frá byrjun með dulúð sinni og einfaldleika. Lesandi hefur samúð með henni og þegar hún fær loksins að uppfylla örlög sín fyllist hann tregablöndun létti því Macabéa fær að lokum stund stjörnunnar sem hún þráði. Og þar með lýkur ferli Clarice Lispector og ævi.