Sagan á bakvið Myers Briggs persónuleikaprófið

Öll erum við í stöðugri leit að okkur sjálfum. Sem er í raun kannski hugsunarskekkja að því leytinu til að hún gerir ráð fyrir að til sé eitthvað eitt óbreytanlegt Sjálf sem hægt sé að finna. Í það minnsta viljum við flest öll að minnsta kosti læra að þekkja okkur sjálf og til eru ýmis (misgóð) hjálpartæki og tól til að aðstoða okkur í þeirri þekkingarleit. Eitt þeirra eru persónuleikapróf en þau eru vinsæl meðal bæði fyrirtækja, háskóla og einstaklinga til að leggja mat á persónuleika fólks og sem sjálfshjálpartól. Eitt frægasta persónuleikapróf í heiminum er Myers-Briggs prófið sem byggir á kenningum sálfræðingsins Carl Jung. Prófið leggur upp með að hægt sé að skipta mannkyninu í sextán persónuleikatýpur sem hver hefur sína fjögurra bókstafa skammstöfum.

Sjálf hef ég tekið Myers-Briggs prófið, eða eina af ókeypis netútgáfunum sem byggja á því, nokkrum sinnum en hef fengið tvær mismunandi niðurstöður á víxl. Í hálfgerðum fíflagangi prófaði ég að googla hvort að hægt sé að tilheyra tveimur týpum í einu og uppgötvaði í kjölfarið að til eru heilu netsamfélögin sem hverfast í kringum Myers-Briggs og til eru fjöldamargir sjálfskipaðir sérfræðingar um sextán persónuleikatýpurnar. Stemningin er ekki ósvipuð og þeirri sem hefur myndast í kringum stjörnumerki víða á netinu á hinum ýmsu samfélagsmiðlum. Nema hér er á ferðinni fólk sem tekur trú sinni enn alvarlegra en fólk sem trúir á stjörnuspeki, enda vísindi sem það telur sig hafa í höndunum. Svarið við spurningunni minni var „nei“. Það er ekki hægt að tilheyra tveimur persónuleikatýpum í einu, maður er fæddur inn í eina týpu og verður hún alla ævi. Það væri hins alveg klassískt að INFJ týpa teldi sig vera ISFJ. Ég át því hattinn minn og gekkst við INFJ örlögum mínum, heilluð en um leið svolítið áhyggjufull fyrir hönd fólks sem tæki persónuleika sínum svona bókstaflega. Það var svo árið 2018 þegar ég var stödd í lítilli bókabúð í Brooklyn sem ég kom auga á bókina The Personality Brokers: The Strange History of Myers-Briggs And The Birt Of Personality Testing eftir bandaríska háskólaprófessorinn Merve Emre og veröld Myers-Briggs opnaðist fyrir mér fyrir alvöru.

Eins og Emre segir í bók sinni fæddist Katherine Briggs, upphafskona Myers-Briggs, árið 1875 í Michigan. Hún var háskólamenntuð í landbúnaðarfræðum, áhugakona um sálfræði og mikill aðdáandi Carl Jung, samtímamanns síns. Þegar hún eignaðist einkadóttur sína Isabel fékk hún sterkar skoðanir á barnauppeldi og gerði ýmsar sálfræðilegar tilraunir á Isabel og skráði þær samviskusamlega niður. Fljótlega hóf Briggs einnig að fylgjast með öðrum börnum í nágrenninu. Þessar tilraunir og athuganir urðu grunnur að spurningalistanum sem seinna varð Myers-Briggs prófið. Aðdáun hennar á Jung var vægast sagt sterk.

Þegar Isabel Briggs var orðin fullorðin tók hún við af móður sinni, kláraði prófið og kom því á markað. Áherslur hennar voru að mörgu leyti ólíkar áherslum móður hennar. Isabel lagði áherslu á að engin persónuleikatýpa væri betri en önnur og gerði prófið markaðsvænt með því að halda því fram að það myndi bæði hjálpa fyrirtækjum að ráða inn rétta fólkið og hjálpa fólkinu að sætta sig við hlutskipti sitt á vinnumarkaði. Sumir væru einfaldlega fæddir til þess að stjórna á meðan aðrir væru fæddir til þess að vera undirmenn. Þessi nálgun var harðlega gagnrýnd af nokkrum heimspekingum, þar á meðal þýska heimspekingnum Theodor Adorno, fyrir að ýta undir stéttaskiptingu og vera fjöldaframleitt tæki sem mætti nota við félagslegt eftirlit og kapítalískan áróður. Prófið var raunar fyrst notað af bandarísku leyniþjónustunni við ráðningar á njósnurum í seinni heimsstyrjöldinni en varð skömmu seinna gríðarlega vinsælt meðal fyrirtækja við ráðningar. Í dag, eins og áður sagði er það svo orðið vinsælt sjálfshjálpartól fyrir einstaklinga.

Það hvílir ákveðin leynd yfir sögu Myers-Briggs mæðgnanna. Henni er viðhaldið af Myers-Briggs stofnuninni sem er starfrækt enn í dag og gefur sig út fyrir að dreifa boðskap Katherine og Isabel. Emre lýsir því hvernig fólk á vegum stofnunarinnar var tortryggið í hennar garð eftir að hún lýsti yfir áhuga sínum á að rannsaka sögu kvenana tveggja. Ýmis skjöl byrjuðu að hverfa á dularfullan hátt og til að komast yfir þau skjöl og heimildir sem hún notaði fyrir bókina var henni gert að sitja vikulangt námskeið á vegum Myers-Briggs stofnunarinnar sem kostaði 2000 dollara. Þar var henni kennt undirstöðuatriði í „týpu-tungumálinu“ (e. the language of type) en hún lýsir því sem upplifun sem jaðraði við einhvers konar sértrúaðarsöfnuð.

Það er því umgjörðin og sagan á bakvið Myers-Briggs prófið sem er áhugaverðast af því öllu – allt frá erótísku spunasögunum um Jung og njósnaleiðangra á tímum seinni heimsstyrjaldar, til hins verðmæta „týpu-tungumáls“ og YouYube rása og reddit þráða dagsins í dag. Ennfremur, hvort sem maður er skeptíker eða trúir á prófið og hvað svo sem manni finnst um fræðin sem það byggir á, er þetta merkileg saga um konur sem, ómenntuðum í faginu, tókst að brjótast fram á sjónarsvið sálfræðinnar á tímum sem það var nánast ómögulegt fyrir kynsystur þeirra á þessum tíma. Og þrátt fyrir að vera lítið þekktar, hafa þær áhrif á fjöldann allan af fólki enn þann dag í dag.