Jólakveðja úr snjóleysinu

Við mæðgur stöndum saman við stofugluggann og horfum á snjóinn falla. Dóttirin aðeins þriggja mánaða og að upplifa hann í fyrsta sinn en ég móðirin þrítug að undrast hversu ræfilslegur hann er. Börnin á efri hæðinni eru að gera snjókarl með trefil og gulrótarnef. Ég minnist þess þegar snjórinn var viðvarandi í marga mánuði, varð svo að skafli og allir fengu nóg af honum. Núna koma 2-3 dagar með snjó, svo bráðnar hann bara. Það er til mynd af ömmu við hliðina á hvíta húsinu sínu og maður veit ekki hvort þetta er húsið eða snjórinn sem hún stendur á. Það þurfti að moka hana út enda hurðin alveg í hvarfi. Auðveldara var að komast inn um svalirnar. Bíllinn hennar, gamall Saab, var löngu horfinn. Ekkert sást af honum en amma mundi nú hvar hann nokkurn veginn stæði á planinu hjá sér. Ég man að snjórinn á pallinum í gamla húsinu var nóg til að gera stærðarinnar snjóhús. Ég gat skriðið inn í það með bangsana og komst vel fyrir. Að fara út fyrir pallinn var næstum ógerlegt fyrir litla fætur enda hvarf ég næstum ofan í skaflinn ef snjórinn var of mjúkur. Ég velti því fyrir mér hvort að þessir tímar séu liðnir vegna hlýnun jarðar. Mun dóttir mín yfir höfuð upplifa alvöru snjó eða mun hún bara sjá hvassviðri og rigningu? Mun hún vita að snjóhús er eitthvað sem var hægt að byggja sjálfur eða mun hún bara lesa um það í ævintýrabókum? Margir eru kannski fegnir að veturinn á Íslandi er ekki eins og hann var fyrir 20 árum. Ég hins vegar er ein af þeim fáu sem sakna hans. Sakna að vera föst heima, fara út að leika í gallanum, koma ísköld inn að drekka kakó.

Daginn eftir stöndum við aftur við gluggann. Ekkert var lengur hvítt. Bara trefill og gulrót í miðjum garðinum. Afskaplega stuttur líftími hjá greyið Snæfinni. Ef sagan um Snæfinn yrði skrifuð í dag þá í raun tæki það varla fyrir hann að lifna við. Hann myndi lifa skemur en húsafluga. Tæki því varla að skrifa handritið.  Þegar ég varð móðir þá áttaði ég mig á því að maður hugsar ekki einungis um framtíðina heldur fer maður ósjálfrátt að hugsa tilbaka. Auðvitað er maður alltaf kvíðinn hvað verður um barnið þegar það eldist og hvað mun það þurfa að upplifa í sínu eigin lífi. En maður fer líka mikið að hugsa til fortíðar. Oft fær maður fortíðarþrá jafnvel. Langar sjálf oft að vera aftur lítil að uppgötva snjóinn í fyrsta sinn. Langar í pönnukökurnar hennar ömmu og týnast út í móa með Lubba gamla.

Maður ímyndar sér hvort barnið manns muni yfir höfuð upplifa eitthvað af þessum gömlu góðu stundum eða hvort hún muni vera í baráttu við loftslagsbreytingar, skæðar veirur og einungis þekkja það að eiga vini í gegnum tölvuna. Ég mun samt gera hvað sem ég get til þess að hún kunni að drullumalla, hoppa í pollum, hlaupa á eftir hundinum sínum og rúlla sér niður brekkur. Við verðum að kenna framtíðinni okkar að leika sér eins og við gerðum. Ekki taka öllu allt of alvarlega og ekki sitja allan daginn fyrir framan skjáinn. Upplifa snjóinn almennilega! Gera snjókalla, snjóhús og jafnvel festast í skafli.

Ég vona innilega að þegar dóttir mín er orðin nógu gömul til að upplifa snjóinn almennilega að það muni enn snjóa á Íslandi.

Óska ykkur öllum gleðilegra jóla.