Rithöfundafordómar

Heima hjá mér eru til að minnsta kosti hundrað bækur eftir Stephen King. Maðurinn minn hefur lesið  þær allar, sumar oftar en einu sinni. Allt þetta bókaflóð eftir sama höfundinn fór í taugarnar á mér því bækur eru plássfrekar. Þetta átti eftir að versna, því stundum hurfu á dularfullan hátt bækur úr bókahillunni og í staðinn læddist ein og ein skrudda eftir Stephen King í auða plássið.

Ég var löngu búin að ákveða með sjálfri mér að Stephen King skrifaði eingöngu hryllingssögur, sem ég hafði ekki nokkurn áhuga á að lesa. Einn daginn þegar ég kom þreytt heim eftir langan vinnudag, lá lítil bók eftir Stephen King á eldhúsborðinu:  Breathing Method, frá 1982. Ég tók ósjálfrátt upp bókina og byrjaði að lesa. Strax á fyrstu blaðsíðunum gleymdi ég öllum fordómum og las í einum rykk þar til ég kom að síðasta punkti. Það var góð upplifun, lifandi persónu- og staðháttarlýsingar, smá dulúð og góður stíll. Í framhaldinu velti ég fyrir mér fordómum og hvað þeir geta verið furðulegir. Áður fyrr hefði ég ekki leitað að bók eftir Stephen King en nú er On Writing á náttborðinu hjá mér. Bókin lofar góðu, það sem ég er búin að lesa.

 

Stutt um bernsku Stephen King

Stephen King er 73 ára, fæddur árið 1947 í Portland, Maine í Bandaríkjunum. Hann átti erfiða æsku, sem einkenndist af tíðum flutningum einstæðrar móður sinnar með tvo syni. Faðirinn stakk af frá heimilinu og ógreiddum reikningum þegar Stephen var tveggja ára.

Hann lýsir móður sinni, Nelly Ruth King, sem stoltri konu með gott skopskyn. Hún vann myrkranna á milli við hin ýmsu störf, sem öll voru illa launuð og kröfðust ekki menntunar. Nelly Ruth King lét sér fátt fyrir brjósti brenna og sinnti öldruðum foreldrum sínum síðustu lífsdaganna.

Nelly King reyndist árvökul móðir og fylgdist vel með Stephen, sem tók allar pestir og var mikið frá skóla fyrsta skólaárið sitt. Hún hvatti hann til að lesa og skrifa og voru það aðallega teiknimynda- og skrípasögur sem hann las upphátt fyrir móður sína. Móðirin sagði Stephen að hann gæti vel skrifað sögur sjálfur, meira að segja betri sögur en þær sem hann las upphátt fyrir hana. Hann ætti bara að prófa.  Jólagjöfin frá móður hans þegar hann var 11 ára var Royal ritvél af fínustu gerð.

Áhrifavaldar í lifi Stephen King

Tvær konur í lífi  Stephens voru áhrifavaldar, önnur var móðir hans sem hvatti hann óspart áfram bæði til mennta og við að halda skriftum áfram. Hún þekkti vel fátækt og lág laun og óskaði syninum betra lífs. Hin er eiginkona hans, Tabitha King, sem er einnig rithöfundur en hún hefur gefið út nokkrar ljóðabækur, styttri skáldsögur og smásögur. Skrif hennar fengu misjafna dóma og ekkert hefur verið gefið út eftir hana í áratug.

Tabitha fann einn daginn nokkrar samankrumpaðar blaðsíður í ruslafötunni, tók þær upp slétti úr þeim og las. Það reyndist vera uppkast af bókinni Carrie eftir eiginmann hennar sem kom út nokkru seinna eða árið 1974. Eiginkonunni fannst efnið áhugavert og hvatti Stephen til að vinna áfram með handritið. Tabitha bauðst til að hjálpa honum við skrifin, þar sem skáldsagan Carrie er skrifuð út frá sjónarhorni ungrar stúlku.

Stephen King sló seinna í gegn með Carrie þegar hann var 27 ára. Það var kærkomin viðurkenning, því ritferilinn gekk brösuglega í byrjun. Hann var unglingur þegar hann reyndi fyrst að fá útgefnar stuttar sögur, en oft án árangurs. Áður en Carrie kom út höfðu birtst eftir hann smásögur, en Carrie  var fyrsta skáldsaga hans. Það reyndist Stephen erfitt að móðir hans, Nellie Ruth King, náði ekki að upplifa gleðistundina með syninum þegar bókin kom út. Hún var þá orðin mikið veik og lést skömmu seinna.

Margar af sögum Kings hafa síðan ratað á hvíta tjaldið, má þar nefna: Carrie (1976) og Misery (1990) ásamt Shawshank Redemption (1994) sem allar nutu mikilla vinsælda.

Ferilinn hefur gengið vel, Stephen King er enn afkastamikill metsöluhöfundur og bækur hans læðast enn í bókahillur víðsvegar um heiminn.