Antebellum

Stundum er þín versta martröð einhvers annars fullkomni draumur

Kvikmyndin Antebellum (2020) kemur út á samfélagslegum umbótartímum, þegar Black Lives Matter hreyfingin er í hávegum höfð og augu heimsins beinast að kerfisbundnum rasisma. Líkt og kvikmyndirnar Get Out (2017) og Us (2019) í leikstjórn Jordan‘s Peel, er kvikmyndin Antebellum í leikstjórn Gerard Bush og Christopher Renz, einnig ádeila á innbyggðan samfélagslegan rasisma í Bandaríkjunum.

Kvikmyndin sýnir okkur dökka hlið hinnar rómantísku frásagnar suðurríkja Bandaríkjanna af tímum plantekranna en frægasta afsprengi þeirrar stefnu að rómantisera það tímabil var kvikmyndin Á hverfanda hveli (1939). Sá hryllingur sem átti sér stað samhliða rómantíkinni, það er að segja það þrælahald sem þá var stundað, var eins og dystópískur veruleiki og teygir enn anga sína alla leið í nútíðina, því barátta svartra gegn misrétti í bandarísku samfélagi er hvergi nærri lokið.

Antebellum fer fremur hægt af stað og er til að byrja með örlítið ruglingsleg þar sem maður áttar sig ekki alveg strax á því hverskonar mynd maður er að horfa á, hvort þetta sé söguleg mynd, hrollvekja eða eitthvað annað, sérstaklega í ljósi þess að kynningar stiklan er dálítið misvísandi. Ég hélt í fyrstu að kvikmyndin væri hrollvekja en þetta var ekki hrollvekja sem fjallar um yfirnáttúruleg fyrirbæri eins og oft er með hrollvekjur, heldur kvikmynd um hrylling ofbeldis í skjóli mismununar og fordóma.

Hvað myndir þú gera ef þín versta martröð yrði að veruleika?

Það er sá veruleiki sem aðalpersóna myndarinnar, blökkukonan Veronica Henley (Janelle Monáe), fær að upplifa á eigin skinni. Veronica er félagsfræðingur, með doktorsgráðu í sögu bandarísku stjórnarskrárinnar. Hún er einnig mikill talsmaður fyrir jafnréttri svartra í Bandaríkjunum og hefur skrifað metsölubækur um efnið. Hún er gift og á fimm ára gamla dóttur sem heitir Kennedi sem hún bindur miklar vonir við enda ekki af ástæðulausu að hún nefnir hana eftir einum ástsælasta forseta Bandaríkjanna, John F. Kennedy. Það er augljóst af glæsilegu heimili hennar, fjölmörgum háskólagráðum og sjálfsöryggi hennar, að þetta er kona með rödd, og aðstöðu til að leyfa henni að hljóma og áheyrendur sem hlusta.

Tilvist Veronicu og opinskáar skoðanir virðast hinsvegar ögra hópi hvítra öfgamanna sem refsa henni með því að ræna henni og bæta henni í hóp þræla á leynilegri plantekru þar sem öfgamennirnir setja á svið sjúka draumóra sína um gamla tíma þegar þrælahald var ennþá löglegt. Þar sem Veronica hefur skapað sér nafn í samfélaginu sem einskonar krossfari gegn rasisma, virðast aðrir þeirra einstaklinga sem einnig hafa verið hnepptir í þrælahald á plantekrunni, leita stuðnings og leiðsagnar hennar um leið út úr þessari martröð.

Kvikmyndin er mjög myndræn og er myndatakan og tónlistin á köflum líkt og lifandi listaverk. Konfekt fyrir augu og eyru. Það er auðvelt að lifa sig inn í atburðarásina og finna samkennd með persónunum.

Myndin vekur upp spurningar um frelsi, jafnrétti, fordóma og mannvonsku. Hvað er frelsi? Hvenær erum við fullkomlega frjáls? Verður það þegar við erum laus við alla fordóma úr samfélaginu og allir standa jafnfætis? Verður það þegar hið góða hefur sigrað hið illa? Hvað ákveður það hvað er gott og hvað illt? Ég held að við getum öll tekið undir það að illska birtist þegar við vísvitandi gerum á hlut einhvers annars með því markmiði að særa. Því höfum við samfélagsáttmála þar sem við ákveðum að það sé bannað og refsivert athæfi að meiða aðra einstaklinga.

Illmenni allra sagna eru hinsvegar hetjurnar í sinni eigin sögu og það virðist vera að þetta fólk sem rænir og kúgar Veronicu og annað blökkufólk sem þau telja verðskulda refsingu vegna opinskárra skoðana sinni um jafnrétti kynþátta, haldi það að þetta sé þeirra meðfæddi réttur að gera svo. Sú staðreynd að þau neyðast til þess að gera þetta í laumi, segir manni að samfélagið sé því engan vegin sammála. Hinsvegar er það ennþá sorglegur veruleiki að svartir Bandaríkjamenn standa enn ekki jafnfætis hinum hvítu þegar kemur að tækifærum og virðingu.