Gula veggfóðrið er víða

Smásagan Gula veggfóðrið (The Yellow Wallpaper)  eftir Charlotte Perkins Gilman kom út árið 1892 og olli vissu fjaðrafoki þegar hún kom út. Sagan er fyrstu persónu frásögn af konu sem virðist vera að upplifa taugaáfall eftir barnsburð. Hún er öllum stundum lokuð inni í herbergi með byrgðum gluggum, annað hvort á hæli eða í heimahúsi. Það skiptir þó ekki öllu máli, enda er raunverulegt sögusviðið í huga aðalsöguhetjunnar.  Hún gerir sér grein fyrir því að hún skynjar raunveruleikann öðruvísi en til dæmis eiginmaður hennar, sem jafnframt er læknir hennar. Samkvæmt honum þjáist hún af tímabundinni móðursýki. Í dag myndi það ástand sem hún upplifir í sögunni líklega kallast fæðingarþunglyndi – eða geðrof. En það er þekkt að fólk sem upplifir barnsburð og verða foreldrar upplifi andlega erfiðleika í kjölfarið enda fylgir stórum breytingum oft streita, kvíði og svefnleysi. Í dag eru margar leiðir til að fást við slíkt með góðum árangri en í Gula veggfóðrinu er á hreinu að þau meðöl sem John beitir konu sína eru ekki að virka. Ásamt því að skammta henni lyf bannar hann henni að skrifa, vinna eða eiga félagslíf. Á þeim tíma sem sagan var skrifuð var þetta þekkt meðferðarúrræði sem læknar notuðu til þess að meðhöndla veikar konur sem taldar voru „andlega óstöðugar“. Hvíldarúrræðinu svokallaða bar að framfylgja stranglega í 6-8 vikur og fólst í því að konur voru einangraðar og rúmfastar án nokkurrar andlegrar, vitsmunalegrar eða félagslegrar örvunar. Þetta átti að gera þeim gott en í Gula veggfóðrinu gera þessi úrræði lítið annað en að auka á veikindi söguhetjunnar. Í einangrun sinni gerir hún lítið annað en að stara löngum stundum á gult veggfóður sem umkringir hana. Í dagbók sinni yfirfærir söguhetjan andlega hnignun sína yfir á mynstur sem hún sér á gula veggfóðrinu.  Hún fer að ímynda sér að margar konur séu fastar inni í veggfóðrinu.  Hún vill frelsa þessar konur.  

Í greininni Why I Wrote the Yellow Wallpaper greinir Gilman frá mótbárum læknis nokkrum frá Boston sem segir að það eitt að lesa söguna sé nóg til þess að gera mann vitstola.  Annar læknir frá Kansas gaf í skyn að lýsingar á hugarástandi konunnar hafi verið svo raunverulegar að  Gilman sjálf hlyti að vera veik á geði. Sú staðhæfing þótti líklega meira niðrandi í þá daga en hún myndi gera í dag. Charlotte Perkins Gilman hafði vissulega sjálf glímt við þunglyndi. Eftir þriggja ára veikindi leitaði hún til sérfræðings í von um lækningu. Þetta var árið 1887. Þessi maður beitti hana „hvíldarúrræðinu“ og  sendi hana síðan heim til þess að lifa eins „heimilislegu lífi og auðið er“. Samkvæmt honum yrði hún að skorða „vitsmunalegt líf“ sitt við tvær klukkustundir á dag og skyldi hún forðast fyrir alla muni að snerta blýant, penna eða málningarbursta. Hún hlýddi þessum fyrirmælum samviskusamlega í þrjá mánuði og missti næstum vitið svo hún sá sæng sína útbreidda og hóf ritstörf. Eftir að hafa sloppið svo naumlega við að vera svipt vitinu skrifaði hún Gula veggfóðrið. Árum eftir útgáfu sögunnar frétti Gilman  að sérfræðingur þessi hafi breytt nálgun sinni við taugaveiki eftir að hafa lesið söguna. Samkvæmt Gilman var sögunni ekki ætlað að gera fólk geðveikt, heldur til þess að bjarga fólki frá því að verða geðveikt.

Í Gula veggfóðrinu notar Gilman geðveiki söguhetjunnar sem tól til að mótmæla kúgun kvenna. Eiginmenn og læknar hafa í gegnum aldirnar látið eins og gjörðir þeirra séu sprottnar af gæsku gagnvart velferð kvenna, sem þeir lýsa þó sem viðkvæmum og veikgeðja, svo það er hægt að leyfa sér að að efast. Talsmenn kvenréttinda á tímum Gilman trúðu því að útbreiðsla andlegs óstöðugleika kvenna væri birtingarmynd þeirra hindrana sem konur upplifðu í hlutverkum sínum í karlmiðuðum heimi. Konum var ráðið frá því að skrifa, því það myndi leiða til sjálfsmyndar sem þar af leiðandi myndi leiða til andstöðu við hið óbreytta ástand. Gilman gerði sér grein fyrir því að penninn var eitt af þeim fáu vopnum sem kúgaðar konur gátu notað sér í vil á tímum sem réttindi þeirra voru lítil.

Þrátt fyrir ótvíræðar framfarir hvað varðar samfélagslega umræðu um vandamál sem áður fyrr þóttu tabú leynist gula veggfóðrið víða. Hvað það er sem þjónar hlutverki gula veggfóðursins og hverjir það eru sem eru fangar í mynstrinu þá er er penninn og sköpunargleðin leiðin út.