Er Biblían kannski glæpasaga?

Ýmist er litið á Biblíuna sem stórvirki bókmenntanna eða sem reyfarakennda glæpasögu. Líklega er hægt að færa rök fyrir báðum skilgreiningum

Biblían er meira en tvö þúsund ára gamalt bókmenntarit og er í raun safn trúarita. Hún hefur alltaf notið ákveðinnar virðingar sem trúarit og er menningarlegur arfur gyðinga og hins kristna heims. Biblían skiptist í tvo hluta, Gamla testamentið og Nýja testamentið. Fyrri hlutinn fjallar um sköpun heimsins, syndaflóðið, boðorðin tíu og frelsun Ísraela frá Egyptalandi svo eitthvað sé nefnt og seinni hlutinn fjallar um fæðingu Jesú, krossfestinguna og upprisuna. Það er enginn einn höfundur af Biblíunni heldur var hún skrifuð á löngum tíma. Margir komu að skrifum Biblíunnar en ekki er vitað hvað mörgum þjóðarbrotum höfundar hennar tilheyrðu. Orðið Biblía þýðir bækur á grísku enda samanstendur hún af ólíkum bókum.

Biblían hefur verið seld í tveimur og hálfum milljarða eintaka frá árinu 1815, samkvæmt Guiness World Record er hún mest selda og lesna bók í heimi.

„Það segir sig sjálft að sjötíu og sjö bækur geta ekki allar verið jafn góðar. Stundum er reyndar haft á orði að fegurðin sé í auga sjáandans og ætli því sé ekki svipað farið með gæði bóka“

Guðmundur Karl Brynjarsson sóknarprestur í Lindakirkju í Kópavogi hefur alltaf haft mikinn áhuga á Biblíunni og þá sérstaklega Gamla testamentinu. „Nýlega heyrði ég haft eftir íslenskum höfundi að hann hafi ákveðið að gerast rithöfundur eftir að hafa lesið Biblíuna því hann taldi sig geta gert betur. Gott og vel, Biblían er ekki ein bók. Sextíu og sex bækur tilheyra flestum útgáfum hennar en í sumum þýðingum, eins og þeirri íslensku frá 2007 eru ellefu svokallaðar apókrýfur. Það segir sig sjálft að sjötíu og sjö bækur geta ekki allar verið jafn góðar. Stundum er reyndar haft á orði að fegurðin sé í auga sjáandans og ætli því sé ekki svipað farið með gæði bóka.“ 

Guðmundur bendir á að bókmenntir sé fleirtöluorð, Biblían er bókmenntir. Eins og nafnið Biblía gefur til kynna, er um að ræða safn bóka. Í því er að finna alls konar bókmenntir sem spretta upp úr ólíkum farvegi á löngum tíma. Jobsbók, sem talin er elsta bók Biblíunnar varð líklegast til tvö þúsund árum áður en fyrsti grátur Jesúbarnsins rauf kvöldkyrrðina í Betlehem. Það þýðir að mun styttri tími hefur liðið frá því að öndvegissúlur Ingólfs Arnarssonar námu land í Reykjavík fram til okkar daga heldur en tíminn sem leið frá tilurð Jobsbókar fram að jarðvistardögum Jesú Krists.

Nokkur trúarbrögð líta á Biblíuna sem heilagan sannleika. Ef Biblían er lesin sem bókmenntaverk, afhelgast þá ritningartextinn? Guðmundur Karl bendir á að bókmenntir Biblíunnar birti sjálfan trúararfinn og fullkomlega eðlilegt sé að lesa þær út frá öllum þeim mannlegu mælikvörðum sem til eru, til dæmis sagnfræði, fornleifarannsóknum, trúarlegri ritskýringu og með aðferðum bókmenntafræðinnar. Auðvitað er í góðu lagi að lesa Biblíuna án þess að styðjast við þessar aðferðir en ef vel er að verki staðið þá dýpka þær skilning okkar á ritum hennar.

Það má skipta ritunum upp í hina ýmsu flokka eftir inntaki; t.d. bókmenntaformi, sögulegum uppruna, ljóðrænum ritum, ættfræði og svo má lengi telja. En er hægt að flokka Biblíuna sem glæpasögu að einhverju leyti?

Guðmundur Karl segir að „sumar sögur hennar séu reyfarakenndar en hún myndi seint vera sett í þann flokk sem bók, sem dæmi mætti nefna sögu Jósefs í Gamla testamentinu sem lifði af ofbeldi og svikráð bræðra sinna, sem seldu hann í þrældóm til Egyptalands. Jósef gafst kostur á að hefna sín á þeim síðar þegar hann var orðinn næstur Faraó að tign. En það er enginn Tarantino endir á þeirri sögu. Í stað þess að hefna sín sagði Jósef: „Þið ætluðuð að gera mér illt en Guð sneri því til góðs. Hann vildi gera það sem nú er orðið og þannig varðveita líf margra manna. Verið því óhræddir, ég skal annast ykkur og börn ykkar.“ Síðan hughreysti hann þá og talaði vingjarnlega til þeirra. (1. Mós. 50.20-21).

Bókmenntafræðin hefur átt hug Guðmundar Karls í mörg ár og gaf hann út ljóðabókina Hvolf árið 2016. Hún er að miklu leyti byggð á nokkrum af þekktustu persónum Gamla testamentsins sem hann gerir tilraun til að máta við íslenskan nútíma. Auk ljóðabókarinnar hefur hann líka átt þátt í að skrifa handrit að barnaefni, til dæmis Daginn í dag þáttunum, ásamt ýmsu fleiru sem hefur verið notað í barnastarfi Þjóðkirkjunnar.