Skógareldar: dystópísk nútíð sem enginn vill upplifa

Síðastliðið ár hafa skógareldar verið tíðir í heiminum. Amason regnskógurinn var í ljósum logum frá janúar og fram í október árið 2019 og sama ár hófst eitt versta skógarelda tímabil í Ástralíu sem varði frá júní 2019 til maí 2020. Regnskógar í Brasilíu brenna þegar þetta er skrifað og það sem af er liðið ári hafa 209.000 km2 af landi brunnið í Síberíu í Rússlandi, sem samsvarar meira en tvöfaldri stærð Íslands. Skógareldar geisa í Bandaríkjunum, sem er ekki fátítt, en stærð eldanna er óvenjulega mikil. Vísindamenn rekja alla þessa elda til eins og sama orsakavaldsins; loftslagsbreytinga.

Eldarnir í Bandaríkjunum kviknuðu í Kaliforníu í ágúst en hafa nú borist yfir í nærliggjandi fylki, þ.á.m. Oregon og Washington, og er því öll vesturströndin í ljósum logum. Í Kaliforníufylki einu og sér brenna tæplega 8.000 eldar og hafa þeir brennt samtals meira en 14.000 km2 stórt svæði. Síðastliðinn ágúst var sá heitasti í Kaliforníufylki frá upphafi mælinga en frá árinu 1980 hefur meðalhiti í fylkinu hækkað um 1.67°C. Þessi mikli hiti og skortur á regni gera það að verkum að eldarnir eru skæðari en ella og segja vísindamenn þessa elda vera þá skæðustu í 18 ár. Jafnframt segja vísindamenn alvarleika eldanna eindregið vera afleiðingu loftslagsbreytinga og getum við átt von á því að öflugir skógareldar eins og þessir verði algengari ef ekkert verður að gert í loftslagsmálum.

Vísindamenn hafa lengi varað við afleiðingum hamfarahlýnunar en rithöfundar hafa einnig séð þessa atburði fyrir sér. Í svokölluðum loftslagsbókmenntum (e. climate-fiction eða cli-fi) er fjallað um loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra í skáldsagnaformi. Greinin hefur lengi verið til en hefur nýlega fengið nafn. J.G. Ballard gaf til að mynda út bókina The Burned World, árið 1964 sem fjallar um loftslagshamfarir af mannavöldum þar sem mengun frá iðnaði olli úrkomuskorti og þurrki. Dregur hann því upp mynd af uppþornaðri og brenndri jörðu í bókinni sem minnir á ástandið í Kaliforníufylki í dag. Bókin Anchor Point frá árinu 2015 eftir ástralska rithöfundundinn Alice Robinson svipar einnig til raunveruleikans þar sem umfjöllunarefnið eru skógareldar í Ástralíu.

Eldarnir sem hafa heltekið vesturströnd Bandaríkjanna hafa hingað til eyðilagt yfir 7.500 byggingar og orðið þrjátíu og fimm manns að bana, þar af tuttugu og sex í Kaliforníufylki, tíu í Oregonfylki og einu barni í Washingtonfylki og þessar tölur eiga eftir að hækka. Það eru ekki einungis íbúar vesturstrandarinnar sem finna fyrir afleiðingum eldanna. Reykurinn frá þeim hefur borist yfir Bandaríkin í heild sinni, norður til Kanada og jafnvel alla leið austur til Evrópu. Reykurinn og askan sem fylgir hafa hræðileg áhrif á andrúmsloftið og ítrekað eru gefnar út aðvaranir vegna heilsuspillandi loftgæða á þeim svæðum sem reykurinn nær til.

Reykjarkófið veldur því að það dimmir yfir nærliggjandi borgum og hafa  Bandaríkjamenn sem búsettir eru á vesturströndinni margir deilt ljósmyndum af reykmettuðum himninum á samfélagsmiðlum. Á myndunum má meðal annars sjá eldglóandi appelsínugulan himininn og hvernig þungbúinn reykur lætur dag minna á nótt. Margir segja myndirnar minna á senur úr dystópískum bíómyndum. Því miður eru þetta ekki senur úr skáldskap eða fjarlægri framtíð heldur úr nútímanum og því þurfum við að taka höndum saman og berjast gegn loftslagsbreytingum til að binda enda á þessi dystópísku nútíð.