Hálfhrunið blámálað timburhús;

Um Lendar elskhugans eftir Vigdísi Grímsdóttur

Þegar það kemur að ljóðverkum þá á ég mér eina uppáhalds bók, en það er ljóðabálkurinn Lendar elskhugans eftir Vigdísi Grímsdóttur sem kom fyrst út árið 1991. Verkið var hennar seinni ljóðabók en Vigdís hafði áður sent frá sér tvær skáldsögur og tvö smásagnasöfn. Ljóðabók þessi var fyrsta verkið sem ég las eftir Vigdísi í heild sinni og komst skáldið fljótt ofarlega á lista minn yfir uppáhaldshöfunda. Ástæða þess er sú að á bak við yfirborðsmyndina sem Vigdís málar má greina eins konar örvæntingu og djúpa náttúrudýrkun, sem heillar mig ávallt hvað mest við bókmenntir. 

Heimur Vigdísar er jafnan harður, miskunnarlaus og fullur af ójöfnuði. Blekking og ást, þögn og vald, ofbeldi í öllum sínum litum. Hún tekst oft á tíðum við erfið umfjöllunarefni sem fá lesendur til þess að staðnæmast og líta inn á við. Í verkum Vigdísar eru ávallt andstæður: ofbeldi og friður, náttúra og maður. En í raun eru þetta tvær hliðar af sama peningnum því þar sem er friður leynast átök. „[O]fbeldi sem birtist í náttúruhamförum en líka hreint mannlegt ofbeldi, andlegt og líkamlegt,“ sagði Vigdís á Ritþingi árið 2011. Skáldið stillir upp kúguninni og blekkingunni á móti fögrum myndum af vatni, fuglum og fjöllum. Eitt af því sem gerir ljóðabálkinn Lendar elskhugans svo áhrifamikinn er einmitt þetta samspil á milli náttúru og mannsins, þar sem svikult mannlegt eðli tekur yfir landið.

„Við búum þegar við þrúgandi ofríki og höfum gert alltof lengi og það er einmitt þetta ofríki sem fer sífellt vaxandi í heiminum þótt við kærum okkur kannski ekkert um að sjá það,“ (Vigdís Grímsdóttir, Sögueyjan, e.d.).

Þegar verk Vigdísar Grímsdóttur, Lendar elskhugans, er skoðað út frá sjónarmiðum vistrýninnar má túlka það á þann máta sem biðlar til lesandans að endurskoða samband sitt við umhverfið og valdið. Líf jarðarinnar er hægt og rólega að fjara út og því verður samfélagið að grípa inn í. Ljóðið er því eins konar hvatningarljóð eða víti til varnaðar.  Áherslan er á að svipta ,,svartri hulunni frá augum,“ lesenda, benda þeim á raunverulegt ástand jarðarinnar og hvetja þá til að hætta að lifa í blekkingunni. Þetta er auðvitað nýstárleg túlkun, verkið var gefið út árið 1991 áður en baráttan gegn loftslagsbreytingum fór almennilega á flug. Engu að síður er ekki erfitt að komast að þeirri niðurstöðu séu ljóðin lesin út frá sjónarhorni nútímans.

Ofbeldið birtist því í mynd mannsins gagnvart jörðinni og auðlindum hennar. Strax frá fyrstu ljóðlínum má greina blekkingu af hálfu mannsins: ,,Enn reika ég um spegilfægðan / turninn sem mennirnir reistu / efanum,“ (9). Í gegnum verkið talar hvítklædd kona til ljóðmælanda og biðlar til hans að koma aftur til sín. Ég hef ávallt túlkað þessa hvítklæddu konu sem móður jörð sem þráir ekkert heitara en að endurreisa heimili sitt til fyrri dýrðar. ,,Komdu / leggstu / við hlið mína / strjúktu / líkama minn / eins og forðum” (35). Hún líkir jörðinni við fallegt, blámálað timburhús þar sem hún bjó í sátt og samlyndi við mannkynið, en nú er það hálfhrunið og ljótt:

,,Hér var einu sinni / blámálað timburhús / með hvítum gluggakörmum / og dyrnar í suður / móti sólinni / græn flöt / svart grindverk / og túlípanar / meðfram stéttinni / [h]ér bjuggum við,” (22).

Á móti því sem húsið er orðið: hrunið, mosavaxið og ryðgað (20). En maðurinn reynir sífellt að finna leiðir til þess að komast inn í þetta hálfhrunda hús og smíðar lykla án þess að átta sig á raunverulegu ástandi þess. Þessu má líkja við ástand jarðarinnar í dag, þar sem maðurinn gengur ítrekað á auðlindir hennar án þess að skeyta nokkuð um afleiðingarnar.

Í þessu verki Vigdísar endar maðurinn á sama stað og hann byrjaði. Ljóðið er því eins konar ádeila á samfélagið og hvetur lesanda til þess að taka upp hanskann fyrir náttúruna á sama tíma og það fordæmir samfélagið sem hætti að elska hana. Verkið er falleg blanda af ljóðrænu máli og harðskeyttri gagnrýni á það samfélag sem Vigdís fjallar um. Lendar elskhugans er því áhrifaríkt ljóðverk sem ég mæli með fyrir alla sem hafa á huga á óhefðbundnum loftslagsbókmenntum.