Náttúran og mannöldin

Vistrýni í ljóðum

Margir halda að vinna bókmenntafræðinemans fari aðallega í að greina stuðla og höfuðstafi á milli þess sem hann les Shakespeare og Laxness. En því fer auðvitað fjarri. Í haust er ég skráð í námskeið sem heitir Norrænar bókmenntir nýrrar aldar. Hingað til höfum við aðallega verið að skoða ör-forlög og nauðsyn þeirra í menningu okkar, en nýlega bættist við vistrýni og mannaldarhugmyndir og hvernig þessi hugtök geta tvinnast inn í bókmenntafræðina.

Með hugtakinu mannöld, er verið að vísa í tímabil í jarðsögunni þar sem áhrif athafna mannsins eru greinileg og er þá nærtækast að tala um hlýnun jarðar. Fólk greinir á um hvenær mannöldin byrjar. Sumir segja að hún sé frá upphafi iðnbyltingarinnar, fyrir u.þ.b. 250 árum síðan, á meðan aðrir telja hana vera frá upphafi landbúnaðarbyltingarinnar fyrir 10.000 árum og enn aðrir mögulega frá upphafi mannsins og forvera hans á jörðu. Í bókmenntum er hugtakið mannöld notað mest í sambandi við vistrýni þar sem mannkynið og náttúran er sem ein heild og íróníuna, ljótleikann og fegurðina sem getur falist í því.

Anna Malan Jógvansdóttir er færeyskt ljóðskáld sem hefur í skrifum sínum lagt áherslu á vistrýni í ljóðum sínum.  Hún segir að með skrifum sínum sé hún að reyna að afneita hinu mannlega eðli og leyfa náttúrunni að taka yfirhöndina. Með ljóðabók sinni Korallbruni (2018) vill hún að við endurhugsum hlutverk okkar hér á jörðinni. Í stóra samhenginu erum við sjálf jarðneskt efni og samofin umhverfinu.

Anna skreytir bækur sínar sjálf og það vakti athygli mína að gróðurinn sem hún teiknar á forsíðu bókarinnar minnti mig á lungnavef eða tauga og æðakerfið. Þannig undirstrikar hún að við erum eitt með náttúrunni og ættum að líta á okkur sem slík. Við erum ekki yfir allt hafin á jörðu hér.


Ljóðabókin lýsir því hvernig kona talar við hafið sem tælir hana til sín þangað til hún drukknar. Eftir dauða hennar leggja lítil sjávardýr sér hana til munns og gróðurinn vex inn í henni og utan um hana þar til hún leysist upp og verður eitt með með hafinu. Þó að viðfangsefnið sé gróteskt virkaði lestur ljóðanna róandi og sefandi. Fegurðin við það að mannslíkaminn geti orðið samofinn hafinu, hafi sína tilveru þó að hann sé bara örlítill dropi segir allt sem segja þarf.

 

 míni bróst eru djúpblá

havið andar gjögnum tey

skolar algur og kombikk

undir slímið

(Korallbruni bls. 38)

Við höfum öll hlutverk og erum öll hluti af einni og risastórri heild. Með ljóðabók sinni kom Anna Malan því svo sannarlega til skila. Allavega til mín.