„Þetta er vitnisburður minn“

Um heimildarmynd David Attenborough: A Life on Our Planet

Sir David Attenborough fæddist þann 8. maí, 1926 í bænum Isleworth í Middlesex á Englandi. Hann var ungur að aldri þegar hann fékk áhuga á náttúrunni og varði miklum tíma í að kanna umhverfið í kringum sig og safna steingervingum og öðrum sýnum af náttúrufræðilegum toga. Hann stundaði náttúruvísindanám með áherslu á jarð- og dýrafræði við Háskólann í Cambridge og útskrifaðist þaðan árið 1947. Á lífsleiðinni hefur Attenborough hlotið samtals 32 heiðursgráður frá ýmsum háskólum í Bretlandi fyrir framlag sitt til náttúruvísinda. Þekktastur er hann fyrir sjónvarpsferil sinn þar sem hann hefur verið þáttastjórnandi fjölda náttúru- og dýralífsþátta allt frá árinu 1951. Þar má nefna þættina Life on Earth (1979), State of the Planet (2000), The Blue Planet (2001) og Blue Planet II (2017), Planet Earth (2006) og Planet Earth II (2016), Life (2009) og Our Planet (2019).

1

Attenborough er nú orðinn 94 ára gamall en þann 20. október, 2020 gaf hann út heimildarmyndina David Attenborough: A Life on Our Planet. Myndina segir hann vera vitnisburð sinn þar sem hann lýsir þeim loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra sem hann hefur orðið var við á löngum ferli sínum. Attenborough lýsir jafnframt yfir áhyggjum sínum af ástandi plánetunnar vegna loftslagsbreytinga og að lokum deilir hann framtíðarvonum sínum með áhorfendum.

Myndin hefst í Pripyat í Úkraínu þar sem um 50.000 manns bjuggu áður en borgin var rýmd eftir að stórslys varð í kjarnorkuverinu Tsjernobyl þann 26. apríl, 1986. Attenborough gengur um byggingu í borginni, sem er í eyði, og rifjar upp ferill sinn sem þáttastjórnandi náttúru- og dýralífsþátta. Allt frá 6. áratugi síðustu aldar hefur starfið hans gert honum kleift að ferðast um heiminn og sjá jörðina og náttúru hennar í allri sinni dýrð. Attenborough segist þó á sama tíma hafa séð áhrif loftslagsbreytinga á náttúruna með eigin augum þar sem líffræðilegur fjölbreytileiki dvínaði óðum og þar með varð ávallt erfiðara og erfiðara að finna villt dýr í sínu náttúrulega umhverfi.

Attenborough segir okkur nú lifa á tímum þar sem sjötta útþurrkunarskeiðið er að eiga sér stað. Útþurrkunarskeið hafa verið eðlilegur hluti af sögu jarðarinnar en það sem er athugunarvert við það útþurrkunarskeið sem er í gangi núna er að það er að gerast á mun styttri tíma en áður og er bein afleiðing náttúruhamfara af mannavöldum. Áhrifin sjást ekki einungis á útdauða villtra dýra heldur einnig á útdauða villtra planta eins og má sjá á stöðu skóga, heimili þúsunda dýra- og plöntutegunda. Staðreyndin er sú að helmingur allra skóga á jörðinni hefur verið ruddur, að miklu leyti til þess að útbúa ræktunarland fyrir eina trjátegund- olíupálma. Attenborough segir líffræðilegan fjölbreytileika náttúrunnar vera lykilinn að lífi á jörðinni og ef við höldum áfram á sömu braut gæti það leitt til óafturkræfra náttúruhamfara á næstu 100 árum. Amasonregnskógurinn gæti orðið að þurri grassléttu, jöklarnir á norðurheimskautinu gætu horfið á sumrin, kóralrif gætu dáið og ofnotkun á jarðvegi gæti leitt til matarkreppu á heimsvísu, svo dæmi séu nefnd.

Attenborough segir þó ekki alla von úti og lýsir þeim aðgerðum sem geta komið í veg fyrir þessar hörmungar. Lykilinn segir hann vera að koma líffræðilegum fjölbreytileika jarðarinnar í samt lag aftur. Með því að koma fátækum löndum úr fátækt, gefa öllum greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu og auka aðgengi ungra stúlkna að menntun er hægt að stemma stigu við fjölgun jarðarbúa og þannig auka möguleikann á að nýta auðlindir jarðarinnar á sjálfbæran hátt. Sjálfbærum lifnaðarháttum er að hluta til náð með því að hætta notkun á jarðefnaeldsneyti og nota þess í stað endurnýtanlega orku líkt og sól-, vind-, vatns- og jarðhitaorku. Attenborough segir jarðarbúar einnig þurfa að breyta mataræði sínu með því að hætta eða takmarka neyslu á kjöti, því með því að kjósa jurtafæði fram yfir kjöt er hægt að nýta land betur og þar með lifa á sjálfbærari hátt.

Með aðgerðum sem þessum segir Attenborough okkur geta bjargað mannkyninu frá óafturkræfum afleiðingum loftslagsbreytinga og fjöldaútdauða. Jafnframt nefnir hann að álíka aðgerðir sem farið hefur verið í löndum eins og Japan, Kosta Ríka, Palaú og Hollandi hafi skilað góðum árangri og því er í raun ekkert til fyrirstöðu. Að lokum gengur Attenborough út um dyrnar á byggingunni og sýnir okkur hvernig náttúran hefur endurheimt borgina. Hann segir þetta ekki snúast um að bjarga jörðinni, heldur um að bjarga okkur sjálfum. 

Náttúran getur og mun taka við sér án okkar líkt og borgin Pripyat í Úkraínu sannar.