Litla systir Sherlock Holmes flækt í furðulega lögsókn

Þann 23. september síðastliðinn setti Netflix í sýningu kvikmyndina Enola Holmes sem er  hugarfóstur bandaríska rithöfundarins Nancy Springer. Kvikmyndin byggir á fyrstu bók hennar af sex í seríu um hina 16 ára gömlu Enolu Holmes (Millie Bobby Brown), yngri systur hins fræga einkaspæjara Sherlock Holmes (Henry Cavill). Í upprunalegu bókum rithöfundarins Sir Arthur Conan Doyle um Sherlock Holmes er þó ekki minnst á neina systur, aðeins eldri bróður hans Mycroft en Enola Holmes er þó að engu að síður skemmtileg viðbót við Holmes fjölskylduna.

Eitthvað virðist hins vegar túlkun Henry Cavills í hlutverki einkaspæjarans fræga fara fyrir brjóstið á umsjónarmönnum dánarbús Doyles því það hefur nú lögsótt Netflix og Nancy Springer. Af hverju? Jú af því að Sherlock Holmes í myndinni sýnir tilfinningar.

Rök dánarbúsins fyrir þessari furðulegu lögsókn er sú að Sherlock Holmes eins og hann birtist áhorfendum í kvikmyndinni Enola Holmes, er mun blíðari og sýnir meiri tilfinningar en Sherlock Holmes í fyrstu bókum Doyles. Sherlock Holmes í tjáningu Cavills er líkari þeim Sherlock sem kemur fyrir sjónir í seinni verkum Doyles en dánarbú Doyles á einkarétt á síðustu 10 sögum Doyles um Holmes sem skrifaðar voru á árunum 1923-1927. Doyle skrifaði í heildina fjórar skáldsögur og 56 smásögur um Sherlock Holmes en sú síðasta kom út 1927. Aðrar bækur Doyles sem skrifaðar voru fyrir það tímabil eru í almannaeigu og þessar bækur sem eru í eigu dánarbús hans munu einnig allar falla í almannaeigu fyrir árið 2023.

Það sem gerir þetta mál enn furðulegra er að ýmsar myndir hafa verið dregnar upp af einkaspæjaranum fræga í fjölmörgum bókum, kvikmyndum og öðrum birtingamyndum eftir hina og þessa höfunda. Hinsvegar hefur dánarbú hans aðeins einu sinni áður lögsótt fyrirtæki fyrir túlkun þeirra á persónunni en það var árið 2015 þegar það lögsótti kvikmyndaframleiðandann Mirimax fyrir kvikmyndina Mr. Holmes sem sýnir Sherlock Holmes á eldri árum. Hins vegar virðist fíflaleg túlkun grínistans Will Farrels á Sherlock Holmes í gamanmyndinni Holmes & Watson hafa verið í fínu lagi.

Það sem Netflix hefur með sér í þessu máli er að sögusvið Enolu Holmes er árið 1884 og því fyrir tíma Sherlock Holmes í bókum Arthur Conan Doyle. Því væri hægt að færa rök fyrir því að hann sé þar enn þá ungur og óharðnaður og þrátt fyrir þá kvenfyrirlitningu sem hann sýnir í bókum Doyle þá hafi hann þó sýnt litlu systur sinni umhyggju og hlýju. Hann er þó enn einfari og röksýnn í hlutverki Cavill og þær litlu tilfinningar sem hann sýnir eru samt sem áður mjög lágstemmdar.

Mögulega liggur eitthvað annað að baki lögsókninni. Gæti það verið þessi nýja femíníska aðlögun sem sagan fær? En þessi frumfemíníska hugsjón sem fær mikið pláss í myndinni er á skjön við hið íhaldssama feðraveldi Viktoríu tímabilsins sem er sögusvið myndarinnar og þá kvenfyrirlitningu sem fyrirfinnst í bókum Doyles.

Nancy Springer segist hafa verið mikill aðdáandi bóka Arthurs Conan Doyle um hinn klóka Sherlock Holmes en segist hafa saknað sterkra kvenpersóna og því skapað Enolu og móður hennar Eudoria (Helena Bonham Carter) sem kennir dóttur sinni að treysta á sjálfa sig með óvenjulegri nálgun, lifandi kennsluaðferðum og frjálsum hugsjónum. Hún kenndi henni meðal annars skák, orðaleiki og sjálfsvörn í formi Jiu Jitsu.

Enola Holmes í leikstjórn Harry Bradbeer eftir handriti Jack Thorne, hefur fengið mjög góða dóma og lof gagnrýnenda en á Rotten Tomatoes hefur kvikmyndin fengið 92% jákvæða gagnrýni og á IDMb er hún með 6.7/10. Þess má einnig geta að hin sextán ára Millie Bobby Brown er framleiðandi myndarinnar.