Christine de Pizan

„Mesta óhamingja að hafa verið sett á jörðina í líkama konu“

Christine situr á bókasafninu sínu. Hún grípur bók að lesa sér til yndisauka, en yndi hennar og gleði minnka heldur við lesturinn. Henni þykir leiðinlegt hversu konur fá slæma útreið í bókinni og hún leiðir hugann að því hvers vegna flestir rithöfundar og karlmenn yfirhöfuð, skrifa niðrandi um konur. Ekki bara einn eða tveir, heldur virðist ekki skipta máli hvort það eru heimspekingar, skáld eða ræðumenn. Orðræðan er öll af svipuðum meiði og þeir komast að þeirri niðurstöðu að konan sé lastafull vera. Hún fellur í þunga þanka og veltir fyrir sér hvort þetta geti verið rétt, að allar konurnar sem hún þekki fyrir gott eitt, séu í rauninni svona meingallaðar? Svo hljóti að vera fyrst svona margir gáfaðir, menntaðir og frægir menn tali með slíkum hætti um konur. Varla fara þeir með rangt mál?

Eftir miklar vangaveltur kemst hún að þeirri niðurstöðu að Guð hafi skapað andstyggilega veru þegar hann skapaði konu. Hví skapaði hann það illa hylki lasta og illgjörða sem konan er? Christine kemst að þeirri niðurstöðu að það sé hennar mesta óhamingju að hafa verið sett á jörðina í líkama konu.

Hún situr þarna í hugleiðingum sínum þegar allt í einu birtir til á bókasafninu og þrjár konur standa fyrir framan hana. Ein þeirra ávarpar hana sem dóttur. Hún róar Christine og spyr hana hvort hún ætli nokkuð að týna visku sinni og minnir hana á að þeir sem segja særandi og ljóta hluti um aðra, skaði eingöngu sjálfa sig. Þó að konurnar séu svo sannarlega líkar útlits, skiljast þær að með ólíkum hlutum, nokkurs konar valdasprota, sem hver þeirra heldur á í hægri hendi. Sú fyrsta sem ávarpar Christine, ber spegil sem valdasprota en hann stendur fyrir sjálfsþekkingu. Hún kynnir sig sem Skynsemi og segir að konurnar þrjár séu systur, Guðsbörn komnar til þess að færa mönnunum ráð og reglu. Þær byrja á að leiða Christine frá villu síns vegar, fáfræðinni sem hefur smitað hana og byrgt henni sýn. Spyrja hvers vegna hún gleymi vitneskjunni sem hún hefur áður viðað að sér í gegnum tíðina? Hún eigi að vita betur! Þær hafi valið að koma til hennar vegna þess að hún hafi ást á þekkingu og sannleika. Hennar bíði mikilvægt verkefni sem er að byggja borg kvenna, þar sem enginn mun búa nema konur sem njóta virðingar og eiga alla hylli skilið. En fyrst þarf að ryðja burt illgresi og steinum til þess að hægt sé að byggja á sterkum grunni. Hver einasti steinn sem notaður er í borgina stendur fyrir sögu einnar konu. Frá þeim þremur fái hún efnið. Skynsemi hjálpar Christine að leggja grunninn að borg kvenna. Hún talar um konur sem skera sig úr og komast til valda. Hún segir Christine að vegna þess að konur eru minni að atgervi hafi Guð skapað þær með betra gáfnafari en karla.

Á eftir Skynsemi tekur önnur til máls, það er systir hennar Reglufesta. Hún ber reglustiku sem valdasprota. Hún talar um tryggð dætra og hversu vel þær hugsa um foreldra sína. Hún verndar konur sem beittar hafa verið nauðgunum og harðræði. Hún sannfærir Christine um dyggð kvenna. Með reglustikunni mælir Reglufesta breiddina á milli þess sem er rétt og þess sem er rangt. Sú breidd ákvarðar þykktina á steinunum sem verða notaðir við byggingu borgar kvenna. Hún hjálpar til við að hlaða veggina. Þriðja systirin er Réttsýni en valdasproti hennar er gyllt hylki skreytt lilju hinnar heilögu þrenningar. Hún byggir þakið á borgina. Hún býður hinni heilögu jómfrú Maríu mey að koma og vaka yfir íbúum kvennaborgarinnar. Hún og Christine klára þakið á borginni saman. Að lokum afhendir Réttsýni Christinu lykilinn að borginni.

Þannig, í grófum dráttum,  hljómar söguþráðurinn í Le Livre de la Cité des Dames (Bókin um borg kvenna). Höfundurinn Christine de Pizan var fædd árið 1364 í Feneyjum en flutti ung til Frakklands þegar föður hennar bauðst vinna við hirð Karls V Frakklandskonungs. Hún var vel skrifandi, víðlesin og hafði öðlast góða þekkingu á latínu sem var óalgengt fyrir konur þess tíma. Fimmtán ára gekk hún í hjónaband en varð ekkja tuttugu og fimm ára og stóð ein uppi með þrjú börn og aldraða móður til að sjá fyrir. Þá greip hún til þess ráðs að skrifa ljóð í þeirri von að framfleyta fjölskyldunni og þeim varð strax vel tekið. Svo vel að þau náðu alla leið til hirðarinnar þar sem hún var brátt ráðin sem ævisöguritari Karls V.

Það var stórkostlegt afrek að vera kvenkyns en um leið virt ljóðskáld á þessum tíma þar sem þjóðfélög Evrópu 14. og 15. aldar, voru afar karllæg samfélög. Christine byrjaði fljótt að láta að sér kveða og hófst handa við að breyta orðræðunni og ímynd kvenna í bókmenntum karla. Meðal annars í bókum eins og allegoríunni Le Roman de la Rose sem var skrifuð að hluta af samtímamanni hennar, Jean de Meun. Sú bók varð kveikjan að bók Christinar L´Epistre au Dieu d´Amours (Bréf til Guðs ástarinnar.) Þar er sögumaður ritari ástarguðsins. Í bókinni kemst hún að þeirri niðurstöðu að karlmenn sem gera lítið úr og segja ósatt um konur fái ekki að vera við hirð hans. ,,Menn ættu að vera þakklátir konum fyrir að hugsa um þá alla þeirra ævi, í stað þess að sýna þeim vanvirðingu.” Með útgáfu bókarinnar upphófust á milli Christinar og Jean og fleiri karla það sem kallað var La Querelle de la Rose  eða Rökræður um rósina. Christine var ómyrk í máli, allskostar óhrædd og fannst þeir sýna kvenfyrirlitningu. Seinna skrifaði hún svo Le Livre de la Cité des Dames (Bókin um borg kvenna) en verkið hefur verið nefnt sem fyrsta rit femínískra bókmennta.