Homo Sapína

Grænlenskur sprengikraftur

Homo Sapína sem er fyrsta skáldsaga grænlenska rithöfundarins Niviaq Korneliussen er í senn afar óþægileg og falleg. Skáldkonan hefur einstakt lag á því að skapa áhrifamikil hughrif, meira að segja kápa bókarinnar öskrar á mann. Það er því ekki að undra að bókin hafi vakið mikla athygli þegar hún kom út en hún seldist eins og heitar lummur á Grænlandi og var fljótlega gefin út í Danmörku. Skáldsagan kom út hér á landi árið 2018 í íslenskri þýðingu Heiðrúnar Ólafsdóttur og vakti talsverða athygli. Bókin hefur einnig verið þýdd á að minnsta kosti átta önnur tungumál.

Allmikið hefur verið fjallað um Homo Sapína en í viðtali við The New Yorker, segir sjónvarpskonan Nina Paninnguaq Skydsbjerg Jacobsen, að fyrir útkomu bókarinnar hafi  grænlenskar bókmenntir gert allt út á hefðina. ,,Loksins sé ég eitthvað sem ég þekki” sagði Nina, en hún er þrjátíu og eins árs að aldri. Í sömu grein er haft eftir Jes Stein Pedersen, bókmenntaritstjóra Politiken: ,,Aldrei hef ég lesið annað eins eftir svona ungan rithöfund“. Segja má að hún sé mætt, hin nýja rödd Grænlands. Hún er pönkuð og gefur heiminum eitt stórt fokk merki. Hér skrifar kona sem er huguð og lætur sig litlu máli skipta hvað sagt er um hana.

Bókin gerist á innan við viku og segir frá lífi fimm hinsegin Grænlendinga. Kaflarnir eru jafn margir aðalsögupersónunum en þau heita Fía, Inuk, Arnaq, Ivik og Sara. Saga þeirra fléttast saman enda búa þau í Nuuk sem er ekki stór bær og samfélagshópur hinsegin fólks því mjög lítill. Sjónarhornið er hjá einni persónu í hverjum kafla, sem nefndir eru eftir amerískum dægurlögum. Bókin byrjar á sögu Fíu, sem kemst að því að hún er lesbísk eftir að hafa komið sér úr vonlausu sambandi við kærastann sinn. Inuk bróðir hennar er ,,skápahommi“ og finnur sig ekki í samtíma sínum. Honum finnst hann fastur á milli hins grænlenska og danska veruleika. Arnaq glímir við afleiðingar misnotkunar sem hún varð fyrir af hendi föður síns í æsku. Í stað þess að takast á við vandann er hún reið og deyfir sig með áfengi. Ivik er karlmaður sem er fastur í konulíkama og Sara er lesbísk og finnur ekki fótfestu eða tilgang í lífinu. Örlagaríkt kvöld á djamminu í Nuuk breytir lífi þeirra en sagt er frá atburðum út frá sjónarhóli hvers og eins.

Lýsingar í bókinni á hömlulausri drykkju og djammi eru átakanlegar. Þegar saga Arnaq er sögð eru lýsingarnar þannig að lesandinn næstum finnur áfengis-þynnku andfýluna af henni og ekki er laust við að flökurleikinn og höfuðverkurinn smitist af síðunum til lesandans. ,,Mig svíður í lungun og þegar ég hósta gýs upp svo megn reykingafýla að ég get ekki haldið aftur af mér. Ég lyfti klósettsetunni og kasta mér á hnén. Vona innilega að þetta taki fljótt af. Líkaminn þolir ekki þetta eitur sem ég hef látið ofan í mig, maginn spennist og upp úr mér vellur eitthvað ógeð.“ (bls. 69) Og þetta er bara byrjunin á þynnkunni! Djamm lýsingarnar, sem hverfast um leigubílaakstur í endalausri leit að eftirpartýum, gætu allt eins verið úr íslenskum veruleika.

Gefum sögupersónunni Inuk orðið: ,,Ég er kominn í fangelsið. Fangelsismúrarnir, sem litu út fyrir að vera lágir þegar ég sá þá ofan frá, umkringja svæðið eins og fjallgarður. Ég átta mig á því að héðan er ekki hægt að flýja. Fangelsislyktin er kunnugleg og ég endurupplifi þjáninguna.“ (bls.43) Hann er nýkominn heim frá Danmörku, en þráir ekkert heitar en að komast aftur til baka. En hann finnur sig ekki heldur þar. Hann er ,,Greenlander by force“ Hann er fastur á milli heima. Hann er landlaus maður. Inuk þolir ekki Grænlendinga og kallar Grænland ,,eyju reiðinnar“. Hann er reiður útí Arnaq sem honum finnst hafa staðnað í hlutverki fórnarlambsins í stað þess að taka ábyrgð á sjálfri sér. Staða Arnaq speglar þannig stöðu Grænlendinga.


Það þarf ekki djúpa bókmenntarýni til þess að sjá að skáldkonunni Niviaq er mikið niðri fyrir og á þessum 160 blaðsíðum tekst henni vel til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Texti bókarinnar er talmálslegur en líka í formi enskra lagatexta, smáskilaboða og bréfaskrifta. Oft er gripið til ensku og lesandanum finnst danskan vera forvitnilega langt í burtu. Spurningar úr grænlenskum veruleika um kynvitund og ekki síður þjóðarvitund ber á góma. Og ekki er hægt að skrifa um bókina án þess að minnast á hliðartextann. Forsíðuna prýðir skáldkonan sjálf. Á svarthvítri myndinni er hún er nakin og gæðir sér kæruleysislega á banana. Myndir sem eru inn í bókinni eru í sama stíl. Gæti þetta verið ádeila á feðraveldið?

Í lokakaflanum segir Sara sögu sína. Hún er full vonleysis og finnst dauðinn eina lausnin.  Á vefsíðu Kalak segir: „Sjálfsvíg voru þriðja algengasta dánarorsökin þetta ár (2019). 45 sviptu sig lífi. Sjálfsmorðstíðni á Grænlandi hefur verið allt að tíu sinnum hærri en á öðrum Norðurlöndum síðan á sjöunda áratug síðustu aldar. Áður var hún svipuð eða lægri en í Danmörku.“

En allt breytist þegar hún hittir litla, nýfædda systurdóttur sína, þá kviknar von í brjósti hennar. ,,Allt sem hefur íþyngt mér hverfur. Líkaminn mun lifa þetta af. Sálin hefur verið endurlífguð.” (bls. 156) Það er nefnilega alltaf von. Og allir sem vilja, geta, eins og Fía segir; fengið sér far með Von.

Niviaq Korneliussen, rithöfundur

 

Höfundur bókarinnar  hrindir lesandanum inn í vonleysislega stöðu Grænlendinga sem kljást við margvíslegan félagslegan vanda en kemur svo óvænt í lokin með sterka von um  breytingar og betri framtíð.