Anna Rós Árnadóttir

„Þessi stelpa leynir leti sinni eins og sá sem drekkur í laumi“
~ Úr skáldsögunni Milla eftir Kristínu Ómarsdóttur ~

Ég heiti Anna Rós Árnadóttir og er 22 ára nemi í almennri bókmenntafræði, með ritlist sem aukagrein í Háskóla Íslands. Samhliða námi vinn ég sem stuðningsfulltrúi í íbúðarkjarna þar sem einhverft fólk býr. Ég eyði mestum mínum frítíma í að lesa, skrifa, spila á píanó, þykjast kunna á gítar, semja óáheyrileg tónljóð og hálfkláraðar laglínur fyrir ímyndaðar bíómyndir, ráfa stefnulaust um netheima og nefna Spotify play-listana mína.

Ég hef gaman af allskyns bókmenntum, þá aðallega fagurbókmenntum og ljóðum, íslenskum sem erlendum. Íslensk samtímaljóðlist er í sérstöku uppáhaldi. Þar má nefna skáld eins og Sigurbjörgu Þrastardóttur, Kristínu Ómarsdóttur, Kristínu Eiríksdóttur, Gyrði Elíasson og fleiri og fleiri. Ég á erfitt með að fara í leikhús án þess að klökkna og ég er með veikan blett fyrir söngleikjum, þó ég hafi í raun mjög litla yfirgripsþekkingu á því fyrirbæri. Einnig finnst mér gaman að lesa bækur og hlusta á hlaðvörp um sálfræði, heimspeki, sagnfræði og pólitík svo eitthvað sé nefnt. Skáldskaparhlaðvarpið sem The New Yorker heldur uppi er til dæmis minn helsti ferðavinur í strætó og hlaðvarpið Í ljósi sögunnar á RÚV fylgir mér oft inn í draumalandið.

Af þeim fjölmörgu góðu áföngum sem ég hef tekið í Háskólanum standa áfangarnir „Óheyrilegt óréttlæti: Ofbeldi, frásagnir og félagslegar sjálfsmyndir“ og „Ergi, usli og duldar ástir: Hinsegin bókmenntir til dæmis uppúr. Ástæðan er áhugi minn á jaðarbókmenntum og samfélagsrýni. Ég hafði einnig mjög gaman af að fást við nútímaleikritun í samnefndum áfanga. Svo viðurkenni ég líka fúslega að ég er sökker fyrir góða yfirlitsáfanga eins og til dæmis Bókmenntasögu og Stefnur í bókmenntafræði.

Mínar áherslur í náminu eru út um allt og og stefna mín í framtíðinni er á reiki eins og er. Planið er þó að gera heiðarlega tilraun til að elta sköpunarþrána, í þeirri mynd sem hún birtist hverju sinni.