Af pönkurum og prúðu fólki

Á R6013 er jaðarinn breiður

Úr kjallara íbúðarhúss við Ingólfsstræti berast hrjúfir tónar. Forvitnir vegfarendur ganga á hljóðið og sjá að á götunni við inngang lóðarinnar stendur gömul, margmáluð hurð. Á hurðina er fest gamalt bílnúmer, R6013 og málað með stórum stöfum: ,,Tónleikar! Free show  Pay What you like. Free vegan food“. Inni er sveitt stemning, þröngt og hávaðinn næstum yfirþyrmandi.

Þú ert kominn á tónleikastað Ægis Sindra Bjarnasonar, tónlistarmanns og útgefanda. Hér á jaðartónlistarsena Reykjavíkur sér samastað, algjör suðupottur ólíkra tónlistarstefna. Húsið er í eigu fjölskyldunnar og ævintýrið hófst á því að Ægi vantaði æfingapláss og því kom hann sér fyrir í bílskúrinn sem smám saman breyttist í þennan fína tónleikakjallara. Nafnið á staðnum kemur frá númeraplötu sem fylgdi bílskúrnum og var seinna fest á hurðina til að fela gat, en nú er hurðin auglýsingaskilti staðarins og hefur þykkt málningarlag vegna þess að hún er máluð upp á nýtt fyrir hverja tónleika.

 

„Hljómsveitir eiga að vera nálægt áhorfendum sínum“ segir Ægir.

Hugmyndin kviknaði vegna takmarkaðs framboðs af hentugum tónleikastöðum fyrir jaðarhljómsveitir. Aðspurður segir Ægir að honum finnist húsnæðið henta fullkomlega því hljómsveitir eigi að geta verið nálægt áhorfendum sínum. Hann er á móti því að setja hljómsveitina upp á svið, hann vill að mörk hljómsveitar og áhorfenda hverfi því nándin er mikilvæg og nærandi fyrir tónlistarfólkið ekki síður en áhorfendum. Óreiðan sem myndast við þetta finnst Ægi heillandi.

En er ekki ónæði af því að hafa háværan tónleikastað í íbúðarhúsi þar sem barnung dóttir hans sefur? Ægir segir að hann passi að hafa tónleika á þeim tíma sem truflar sem minnst. Yfirleitt hefjast tónleikar um klukkan sex í eftirmiðdaginn og standa sjaldan lengur en eftir klukkan tíu en dóttir hans sefur værum svefni þótt rúmið hennar sé beint fyrir ofan hljómsveitarstæðið. Fyrir tónleikagesti sem vilja passa upp á heyrnina, eru eyrnatappar í boði.

Falleg stemning þegar allir borða saman

Oft er boðið upp á grænkera mat fyrir tónleika sem Ægir segir vissa yfirlýsingu en það er ekki síður vegna fallegrar stemningar sem myndast þegar allir eru saman að borða. Það styrkir enn frekar hina nánu tengingu listamannanna við áhorfendur og það myndast einhverskonar samfélag fyrir og eftir tónleikana. Ægi finnst mikilvægt að tónleikarnir séu opnir öllum aldurshópum og hann leggur ríka áherslu á að ná til unglinga. Hann nefnir sem dæmi einn 15 ára strák sem slysaðist á tónleika og áður en hann vissi af var stór unglingahópur mættur á hverja tónleika. Annað sem honum finnst mikilvægt er að sjá fleiri  konur og kynsegin fólk spila því senan hefur tilhneigingu til þess að vera of karllæg.

Ægir byrjaði níu ára gamall að læra á trommur, hefur alltaf haft brennandi áhuga á tónlist og hann hefur varla tölu á því hversu mörgum hljómsveitum hann hefur spilað í. En þó að hann hafi þegar mest lét, spilað í átta hljómsveitum í einu, kemur hann ekki alltaf fram sjálfur. Hér fær listafólk líka að koma sér á framfæri og hægt er að verða vitni að allskonar tilraunastarfsemi og gjörningum. Ungir tónlistarmenn fá þar pláss fyrir tilraunir sínar og æfa sig að koma fram.

Ægir ber það ekki utan á sér að vera fyrir háværa, harðkjarna tónlist, heldur kemur hann fyrir sem hinn mesti rólyndismaður og er með einstaklega þægilega nærveru. Ekki kemur klæðnaðurinn heldur upp um hann, því hann er í ósköp venjulegum fötum, e.t.v. keyptum á nytjamarkaði?  Hann er allavega ekki hinn steríótýpíski harðkjarni sem hægt er að ímynda sér að klæddist rifnum fötum, leðurjakka, miðneshring og svörtu naglalakki.  Það er oft raunin með tónlistarmenn sem fá útrás fyrir margs konar tilfinningar og tjáningarþörf sína í listinni. Þeir þurfa ekki að blóta einhverjum á rauðu ljósi eða ögra í klæðaburði og hegðun heldur eru þeir hin mestu prúðmenni.

Bókmenntafræðinemanum mér leikur forvitni á að vita hvort Ægir leggi mikla áherslu á textagerð og ef svo er, hvernig hann vinnur textana? En Ægir segir að hann láti aðra hljómsveitarmeðlimi gjarnan um textana en hugmyndir að titlum laga í eins manns hljómsveitinni Ægir fær hann gjarnan úr sms-skilaboðum, bókum eða einhverju öðru sem grípur athygli hans.

Ör-útgafa sem gefur eingöngu út vínylplötur

Ægir er líka með ör-útgáfufyrirtækið, Why Not? sem gefur eingöngu út vínylplötur en þar sem kúnnahópurinn hér heima er mjög lítill er ekki mikil arðsemi í útgáfunni. Þetta er fyrst og fremst ástríðu-verkefni og nokkuð kostnaðarsamt. Til þess að ná til fleira fólks,  opnaði Ægir vefsíðu þar sem þeir sem vilja, geta stutt útgáfuna og hefur það gefist mjög vel. Enda vita stuðningsmenn að starfsemi eins og hans er dýrmæt og má færa fyrir því rök að hún sé ómissandi fyrir menningarlífið á Íslandi.

Ég kveð Ægi og þakka honum kærlega fyrir spjallið. Það er mikil upplifun að koma á tónleika í R6013 og það er ekki laust við að maður verði heilmikið snortinn yfir sköpunargleðinni sem hrífur mann með eins og galdur. Því miður get ég ekki kíkt á tónleika hjá þeim á næstunni. Vegna smæðar staðarins er erfitt um vik að halda Covid takmarkanir og gæta fjarlægðar milli gesta. En ef ég hugsa betur um það held ég að stemningin yrði ekki sú sama sem tónleikagestir hans sækjast eftir en hún er það sem gerir R6013 svo sérstakan tónleikastað sem raun ber vitni.