Lestarferðin

Smásaga

Það er ys og þys á aðalbrautarstöðinni í Kaupmannahöfn. Mér gremst að hafa sofið yfir mig og ná ekki að laga mig almennilega til, en ég hrindi því frá mér. Mikilvægast af öllu er að ná lestinni.

Svitinn bogar af enninu því taskan og hljóðfærið taka í. Ég sný mér að hávöxnum ljóshærðum manni í vönduðum jakkafötum og spyr hvort hann viti eitthvað um lestina sem nálgast.

– Fer hún ekki örugglega til Prag?
– Langleiðina, svarar jakkafatamaðurinn og brosir.
– Þú þarft samt að skipta í Hamborg.

Mér léttir og ég finn hvernig slaknar á pikkstífum axlavöðvunum. Við göngum samhliða inn í rúmgóðan lestarklefann, þar sem er pláss fyrir sex farþega.

– Hefurðu annars nokkuð á móti því að ég tylli mér í sama klefa? Spyr maðurinn í vönduðu jakkafötunum.

– Nei, nei, alls ekki.

Samferðamaður minn sest á móti mér. Lestin rennur rólega af stað framhjá nýútsprungnum blómum trjánna, sem breytast á svipstundu í grænar breiður. Vorið er kærkomið með allri sinni fegurð.

– Ertu að fara langt? Spyr ég sessunaut minn.

– Til Hamborgar, svarar hann glaðhlakkalegur á svip. Skólasystir mín frá Köben býr þar.

– En þú? Æ-i, hvernig læt ég? Þú ert að fara til Prag með þetta líka risahljóðfæri!  Ég giska á að þú sért að fara að spila í rómantísku borginni?

– Nei, reyndar ekki í þetta sinn, svara ég og leita að marglesna bréfinu í töskunni.

– Mig dauðlangar annars í kaffi – á ég að taka eitthvað fyrir þig í leiðinni? Spyr samferðamaður minn um leið og hann stendur upp.

– Já takk, einn bolla af svörtu og sykurlausu.

Ég vil fá að vera í friði, því hugurinn leitar stöðugt til Prebens, kennara míns og fyrrum elskhuga. Þegar ég hitti hann í fyrsta sinn, þá gerðist eitthvað sem varla er hægt að útskýra. Það var svo ótrúlega sterk upplifun.

Preben var nýskipaður prófessor við Konunglega konservatoríið í Kaupmannahöfn, þar sem ég var í framhaldsnámi. Ég get þakkað ömmu minni sálugu það. Hún hvatti mig ótrauð áfram og gaf mér einnig heilræði sem ég hef alltaf varðveitt. „Mundu að láta hjartað ráða för“ voru hennar síðustu orð til mín.

– Gjörðu svo vel, hér kemur rjúkandi kaffibolli!
– Takk fyrir kærlega, hvað kostar hann?
– Í boði hússins, svarar samferðamaður minn og brosir. Hann ræskir sig um leið og hann lyftir annarri augabrúninni.
– Ég hef alltaf verið forvitinn um fólk, mig langar til að vita eitthvað um þig. Ertu atvinnutónlistarmaður?
– Já, það er rétt ágiskun. Síðustu ár hef ég leikið með sinfóníunni, bæði Kaupmannahafnar sinfóníunni og nú með sinfóníuhljómsveitinni í Malmö.
– Hvað með þig? Við hvað starfar þú?
– Ég vinn hjá auglýsingafyrirtæki og er að þróa viðskiptahugmynd með vinkonu minni, sem býr í Hamborg.
– Áhugavert, segi ég hálf viðutan.
– Á svo að stoppa lengi í Prag?
– Ég bara veit það ekki, það verður að koma í ljós.

Svarið eykur á forvitni samferðamanns míns, sem lækkar róminn og hallar sér fram í sætinu.
– Ertu að fara að hitta ættingja eða vini?
– Hvorugt, svara ég. Ég er að fara að heimsækja æskuástina mína eftir langan aðskilnað.

– Þú meinar, þá lætur rómantíkin nú ekki á sér standa.

Eftir stutta þögn heldur samferðamaður minn áfram:
– Ég er mjög forvitinn, mig langar til að vita meira um  langa aðskilnaðinn.
– Satt best að segja veit ég ekki hvort ég kæri mig nokkuð um að tala um hann. Ég er ekki mikið fyrir að tjá mig um tilfinningar mínar og síst við ókunnuga… en ástin er sterkt afl sem erfitt er að ráða við.
Samferðamaður minn hváir: Hvað meinarðu?
– Æ-i fyrirgefðu, ég var að hugsa upphátt.

Ég dreg mig í hlé og horfi út um gluggann. Smám saman hverf ég inn í minn eigin hugarheim.

Það var bjartur sumardagur. Við borðuðum hádegisverð á svölum efstu hæðar tónlistarhússins og nutum  þess að vera saman og  horfa á mannlífið.

Þegar degi var tekið að halla birtist ung og falleg kona í tónlistarsalnum, þar sem ég og Preben spiluðum sellósvítu af mikilli ástríðu. Konan leiddi lítinn dreng, sem hljóp  beint í fangið á Preben.

Þessi mynd líður mér seint úr minni. Preben stóð upp, gekk í burtu með drenginn í fanginu og unga konan fylgdi fast á eftir.

Ég horfði eins og í dáleiðslu á eftir þeim, þegar þau gengu úr salnum. Í fyrstu fann ég fyrir máttleysi, síðan skjálfta og ólýsanlega örum hjartslætti…

Eftir dágóða stund snéri Preben aftur inn í salinn. Hann var niðurlútur og vandræðalegur og bað mig  um að fyrirgefa sér. Hann sagðist ekki hafa treyst sér til að segja mér sannleikann um hjónaband sitt af ótta við að missa mig. Viðbrögð mín komu mér í opna skjöldu, því ég æpti margsinnis á hann: „Hvernig gastu eiginlega gert mér þetta?“

Preben sagðist ekki geta hugsað sér lífið án mín. Hvernig á ég að geta treyst honum? Hann talaði um föður sinn og valdið sem hann hafi  haft yfir sér. Einnig um flóknar aðstæður, flóknari en hann réði við. Ég vissi að faðir hans var umdeildur maður, en mér fannst ekki viðeigandi að blanda honum í tvöfalt líf Prebens.  Ég rauk á dyr og sá enga aðra leið en að binda enda á tveggja ára samband okkar, sem var mér þó kærara en allt annað.

Á einu augnabliki var allt breytt, dásamlegi sumardagurinn varð að martröð.

Samferðamaður minn vekur mig upp af þungum þönkum þegar hann segir skyndilega:
– Hættuð þið alveg að hafa samband?
– Það má segja það, ég flutti til Svíþjóðar, því ég varð að breyta um umhverfi. Hann skrifaði mér oft til að byrja með, síðan leið lengra á milli bréfanna.
– Hann bað mig stöðugt um fyrirgefningu og endaði öll bréfin á sömu orðunum: Ég mun alltaf elska þig.
Ég svaraði  bréfunum aldrei. En fyrir stuttu fékk ég bréf sem var stimplað í Prag. Það var öðruvísi en öll hin, ég fann það einhvern veginn á mér. Auðvitað þekkti ég strax rithöndina og hjarta mitt hamaðist við það eitt að horfa á umslagið.

Ég dett aftur í eigin hugsanir og leita lengi í töskunni, sný öllu við. Ég finn loksins bréfið vandlega samanbrotið í vasanum.  Bréfið sem er orðið að áráttu, ég verð að lesa það aftur og aftur.

music sheet, in a shadow, flute

Prag, 9. mars 1993

Ástin mín,

Ég ákvað að gera eina tilraun enn, en geri mér sáralitlar vonir um að ná til þín, nú frekar en áður. Aðstæður mínar eru þó aðrar en í fyrri bréfum, þess vegna ber ég veika von í brjósti.

Ég er fráskilinn, konan mín fyrrverandi er flutt aftur til Kaupmannahafnar, en sonur okkar býr hér í Prag og hefur nýverið fengið stöðu við Fílharmóníuna.

Ég geri mér fulla grein fyrir því hvað ég særði þig djúpt fyrir 18 árum, en það var hvorki vilji minn né ásetningur. Ég kvæntist mjög ungur og var undir mikilli pressu frá föður mínum, sem þrýsti stöðugt á mig, þar til hann fékk vilja sínum framgengt. Þú hittir föður minn aldrei, en þér var vel  kunnugt um stjórnsemi hans. Hann var hátt skrifaður í tónlistarheiminum, valdamikill, sjálfselskur og ráðríkur.

Það mátti hvergi falla blettur á fjölskylduna, hann sá til þess. Móðir mín, sem er hjartahlý og skynsöm kona, tók ekki af skarið þó svo að hún hafi vitað innst inni að hjónaband á þessum tíma var ekki það sem ég vildi.

Ég held að hún hafi aldrei þorað að beita sér gagnvart föður mínum. Hann beitti kúgun og komst upp með það. Hann hafði nánast óhugnanlegt vald, eftir á að hyggja. Faðir minn lést fyrir síðustu jól en móðir mín lifir hann.

Eiginkona mín fyrrverandi var nemandi föður míns, sem var mjög flinkur fiðluleikari. Hún passaði vel inn í fjölskylduna, þar sem hún var af þekktum tónlistarættum. Yndisleg manneskja, en ég gat aldrei gefið henni þá ást sem hún verðskuldaði. Við ákváðum að skilja þegar við vorum orðin tvö ein.

Hún fann og vissi lengi vel hvar hugur minn var en lét ekki á neinu bera. Við vorum sammála um að veita drengnum okkar allt það besta, ást, umhyggju og hvatningu, sem veganesti út í lífið.  Okkur farnaðist vel í þeim efnum, sem betur fer.

Ég á enga ósk heitari en að þú komir til mín, ég held að við getum fundið hamingjuna á ný, en auðvitað get ég ekki talað fyrir þig. Getur þú hugsað þér að koma til Prag, og sjá til hvernig þér líst á mig og borgina?  Ég hef lítið breyst nema ég ber þess merki að tíminn hefur ekki staðið í stað.

Ég er leiðandi sellóleikari í Fílharmóníusveitinni, sem Ashkenazy stjórnar. Hér er eins og þú veist mikið og fjölbreytt menningarlíf, sem yndislegt er að njóta.

Vona innilega að þú getir fyrirgefið mér og brugðist á einhvern hátt við bréfinu. Ég virði að sjálfsögðu ákvörðun þína, hver svo sem hún verður. Komdu, hringdu eða sendu mér póstkort.

Kratnasky 24, Prag 1.

Ég mun alltaf elska þig.

Eldheit kveðja, Preben.

cello, string instrument, instrument

– Af hverju ætlar þú að hitta fyrrverandi elskhuga þinn eftir mörg, mörg ár, hvað hefur breyst? spyr sessunautur minn.
– Ég vil fyrirgefa og fylgja eftir heilræði ömmu minnar um að láta hjartað ráða för.
– Veit hann að þú verður í Prag eftir nokkra klukkutíma?
– Nei, reyndar ekki, ég vil koma honum á óvart. Hann á að leika einleik með Fílharmóníunni klukkan níu í kvöld. Ég á miða á fremsta bekk, segi ég um leið og ég sting samanbrotna bréfinu í töskuna.
– Samferðamaður minn lítur á klukkuna og segir: Bíddu nú við!  Getur verið að það séu aðeins nokkrar mínútur í Hamborg?
– Já, tíminn hefur vængi, svara ég.

Við kveðjumst á brautarpallinum fyrir framan lestina  og sessunautur minn segir:
– Gaman að hitta þig og lánið fylgi  þér!
– Takk, sömuleiðis, svara ég á meðan ég skima eftir lestinni til Prag.

Ég er eini farþeginn í lestarklefanum á leið til Prag. Ég loka augunum og læt mig dreyma, ég heyri magnaða tóna frá sellóinu hans, tóna sem enginn annar getur framkallað, nema sá sem ég þrái svo heitt.

Ég sé fyrir mér gylltan bogadreginn tónlistarsalinn, fullan af prúðbúnu fólki. Þarna er Preben á upplýstu sviðinu, hann spilar af sömu ástríðu og áður við dynjandi lófaklapp.

Dökkir hárlokkarnir leggjast fram á fallegt ennið og töfrandi munnsvipurinn framkallar dauft bros.

Augu okkar mætast og mér finnst ég himinn höndum hafa tekið.

Ég vakna upp af dagdraumum þegar rödd berst úr hátalarakerfinu fyrir ofan sætið mitt.

„Við erum komin á endastöð í Prag, farþegar eru vinsamlegast beðnir um að yfirgefa lestina og taka handfarangurinn úr farangurshólfunum fyrir ofan sætin.“

Ég flýti mér með allt mitt hafurtask út í rakt rökkrið.

Ég get varla beðið eftir að sjá Preben í tónlistarhúsinu, sem er rétt við Karlsbrúna. Ég gríp gular gladíólur úr blómastandi sem stendur neðst á Karlsbrúnni.

Myrkrið er skollið á þegar ég kem að tónlistarhúsinu, byggingin er fallega upplýst.

Mér er vísað til sætis á fremsta bekk fyrir miðju. Það eru fáir í salnum, enda tæpur hálftími í tónleikana. Ég nýt þess að vera tímalega til að undirbúa mig andlega fyrir endurfundina.

Preben kemur inn á sviðið við dynjandi lófaklapp. Ég upplifi það sama og svo oft áður, mér finnst hann heillandi.

Fílharmóníusveitin spilar undurfallegan sellókonsert eftir Dvorak, þegar nær dregur kadensunni mætast augu okkar augnablik. Preben virðist agndofa. Hann brosir breytt og augu hans fyllast af tárum.

Tónleikagestir klappa hljómsveitina upp að sellókonsertinum loknum. Preben gengur aftur inn á sviðið og segir hátt og skýrt: „Mig langar til að tileinka ástinni minni aukalagið hér í kvöld, sem er upphafskaflinn úr fyrstu sellósvítu eftir Bach.

Má ég biðja þig um að standa upp svo tónleikagestir átti sig á hvað ég er að tala um.“  Orð hans snerta mig djúpt. Ég stend upp um leið og ég laga bindishnútinn og strýk yfir skeggbroddana á hökunni.

Hver veit nema það vanti annan sellóleikara í Fílharmóníusveitina í Prag?