Fáðu mér hníf!

Endurfæðing Charlyar í The Long Kiss Goodnight (1996)

I was born 3000 days ago on the beach

in New Jersey. I entered the world

fully grown, wearing clothes I don’t

remember buying. Nothing in the

pockets but a single key, filed

smooth.

~ Samantha Caine ~

Kvikmyndin The Long Kiss Goodnight eftir leikstjórann Renny Harlin kom út árið 1996. Í aðalhlutverkum eru þau Geena Davis í hlutverki Samönthu/Charly og Samuel L. Jackson í hlutverki einkaspæjarans Mitch Henessey. Í fljótu bragði er myndin aðeins góð spennumynd en ef betur er að gáð er hún yfirfull af myndrænu táknmáli sem athyglisvert er að rýna í.

Hér á eftir verður tekin fyrir nálgun á kvikmyndinni í formi þess sem kvikmyndagreiningar hafa þróast á seinni hluta tuttugustu aldar. Hægt er að notast við formgerðar- og sálfræðigreiningar á kvikmyndum ekkert síður en í bókmenntum. Notast verður við djúpgerð merkinga eins og í fræðum Claude Levi Strauss og Algirdas Julien Greimas. Einnig verður greining Sigmunds Freud um dulvitundina mátuð við kvikmyndina.

Greiningin, sem hér fer á eftir, er byggð upp á svipaðan hátt og Torfi Tulinius gerir í grein sinni ,,Adam og Eva í Júragarðinum“, um jafnvægisleit, hlutverkaskipan og djúpgerð merkingar.”

Jafnvægi er raskað og jafnvægisleit byrjar

Sagan hefst í litlum smábæ þar sem grunnskólakennarinn Samantha býr ásamt eiginmanni og dóttur. Áhorfandinn fær fljótt að vita að Samantha þjáist af minnisleysi og veit ekkert um líf sitt nema síðustu átta árin. Á sama tíma og eineygt illmenni, Jack, sér hana í sjónvarpi og öskrar uppyfir sig af bræði, lendir hún í bílslysi þar sem hún fær slæmt höfuðhögg. Þegar hún vaknar finnur hún að gamlar minningar reyna að komast upp á yfirborðið. Við heimkomu af spítalanum, ræðst sá eineygði inn á heimilið hennar, hún hefur hann samt undir með mikilli fimi og drepur hann kalt og yfirvegað. Jafnvæginu er raskað. Daginn eftir yfirgefur hún eiginmann og dóttur í leit að sönnunum fyrir því hver hún er og jafnvægisleit sögunnar hefst. Inn í söguna fléttast uppgjör Charlyar (sem er annað sjálf Samönthu) við gamla fjendur og atvinnurekanda sem hefur spillst. Hún kemur þeim öllum fyrir kattarnef svo hún geti fundið ró og frið sem móðir, eiginkona og töffarinn sem hún er. Í lok myndarinnar hefur hún fundið frið þegar ofantaldir eiginleikar hennar hafa sameinast. Mitch, einkaspæjari sem hún hafði ráðið til að hjálpa sér að finna út hver hún er, slæst í för og er henni stoð. Hann er sjálfur í leit að viðurkenningu og langar að verða betri maður og sanna sig fyrir syni sínum.

Hlutverkaskipan

Í myndinni er hlutverkaskipanin  nokkuð skýr. Sendandi og viðtakandi er Caitlin dóttir Samönthu/Charly. Samantha þarf að fara af stað og finna út hver hún er. Annars verður aldrei friður hvorki á heimili þeirra, né lífinu yfirleitt og þau gætu væntanlega alltaf átt von á ,,heimsóknum“ eins og þegar Jack ræðst inn á heimili þeirra. Gerandinn er Samantha. Hún þarf að fara að finna Charly. Andstaðan eru gömlu vinnuveitendur Charlyar og hryðjuverkamennirnir með hinn ógurlega Timothy í fararbroddi. Hjálpina fær Charly frá Mitch, sem gerist förunautur hennar í leitinni.

Djúpgerð merkingar

Samantha og Charly eru sama konan en ekki sama persónan. Það er sterkasta andstæðuparið í myndinni. Þær eru mjög ólíkar og finnst erfitt að skilja hvor aðra. Samantha lifir þægilegu lífi í litlum smábæ með manni sem er kvenlegur/mjúkur þannig að karlmennskan/fallus er fjarri. Samantha veit ekkert hvernig líf hennar var fyrir utan síðustu átta ár. Hún varð ólétt af Caitlin áður en hún missti minnið, þannig að hún veit ekki hver er faðirinn. Þegar hin persóna Samönthu kemur uppá yfirborðið, kemur í ljós að hún er eins og ýkt karlmennska. Fallus sem hefur vantað algerlega í líf Samönthu hingað til.

Charly hefur enga móðurtilfinningu, hefur vantað móðurímynd allt sitt líf og hefur aldrei átt fjölskyldu. Þar kemur annað andstæðupar í myndina. Að vera foreldri eða ekki og að öðlast fjölskyldu og mynda tengsl við annað fólk. Charly kann ekki að sýna hlýju og veit ekki hvernig hún á að vera við Caitlin, vegna þess að hún er þjálfuð til þess eins að drepa og hefur aldrei fengið að mynda tengsl. Hún er hranaleg við Caitlin vegna þess að þannig hefur alltaf verið komið fram við hana og verður til þess að Caitlin handleggsbrýtur sig. Leit Samönthu og Charlyar snýst um ást og tengsl. Samantha þarf að tengjast Charly og sættast við hana og öfugt.

Þetta eru einmitt öflin sem eigast við í myndinni. Það er: ýkt karlmennska/fallus í konu (Charly) og vönun/vönunarhræðsla. Myndin er yfirfull af merkingarlegum atriðum sem koma fyrir aftur og aftur eða merkingarsamstæðum. Það er það sem fræðimaðurinn Greimas kallar ísótópíur. Í myndinni er það til dæmis móðurhlutverk eða móður og föðurleysi, heitt og kalt, valdefling með fallus táknum á móti vönun og vönunarhræðslu. Þegar Charly kemur fyrst fram í Samönthu kemst hún fljótt að því að hún er klár með hnífinn og sýnir listir sínar við að skera niður grænmeti og kasta hnífnum. Samantha/Charly (hér eftir verður talað um annaðhvort Samönthu eða Charly) finnur risastóra byssu undir fölskum botni í ferðatösku sem inniheldur gömul föt af Charly. Hnífar og byssur eru áberandi í myndinni og það eru sterk fallus tákn. Charly afvopnar karlmenn. Dæmi um sterkt fallus tákn er þegar Charly tekur byssu úr buxunum af líki Waldman sem þjálfaði hana áður fyrr. Samantha gefur Caitlin kerti og biður hana að halda loga á því í glugganum svo hún rati aftur til hennar. Þannig gefur Samantha dóttur sinni styrk (fallus). Það eru mörg feðraveldis/fallus tákn alla myndina á enda, en hið kvenlæga er eingöngu hjá Samönthu. Charly virðist hræðast það kvenlæga/vönun. Hún vanar alla karlmennina. Hún blindar Jack og skýtur annan mann í augað, hún skýtur Daedalus í hnéð, áður en hún drepur hann og áfram væri hægt að telja upp.

Mitch, vinur Charlyar er með skaddaða karlmennskuímynd, en reynir að bæta það upp með orðbragði og klæðnaði. Hann fær nokkrum sinnum byssuna í hendur (fallusinn) en missir hann alltaf aftur. Hann reynir að gefa syni sínum leikfangabyssu (fallus) en fær það ekki vegna þessa að barnsmóðirin kemur í veg fyrir það.

Það er augljóst að húfur og hattar eru notuð sem tákn og nefni ég hér nokkur dæmi.

Í byrjun myndar, þegar óttaslegin Samantha skilur ekki hvað er að gerast er hún með áberandi rauða húfu en seinna í myndinni er Caitlin komin með húfuna. Rauða húfan merkir hættuna. Þegar Samantha leggur af stað í ferðalagið með Mitch til þess að fá botn í málið, er hún með bútasaumshúfu, sem stendur fyrir það að hún er að reyna að púsla saman hinu sálræna. Mitch er látin klæða sig í grænt (grænt gæti hér þýtt heppni og reynsluleysi). Hann ber grænan hatt og er í glansandi skóm á meðan hann hjálpar Charly.

Í lok myndarinnar fær hann nokkurs konar uppreist æru og þá er samskonar gulur hattur komin í hendur hans (viska, þekking, afslöppun og hamingja). Í kringum Samönthu eru hlýir litir, en þegar Charly kemur breytist allt í kuldalegt umhverfi. Hún kemur fyrst fram í snjónum eftir bílslysið, hún endurfæðist á milluhjólinu í ísköldu vatninu og hún er lokuð inni í frystiklefa sem hún sprengir upp með með eldi og gengur út sem Samantha og Charly sameinaðar. Í lok myndar er svo gylltur og gulur litur allsráðandi í kringum Samönthu og Charly sameinaðar.

Bæling, þrá og frumskynjanir

Dulvitundin getur verið bæld þrá. Þrá Charlyar eftir tengslum er sterk. Hún er með dauðaþrá sem kemur fram á nokkrum stöðum. Til dæmis á milluhjólinu í húsi Daedalusar og þegar hún segir Mitch að horfa vel á sig vegna þess að bráðum verði höfuðið sprengt af henni. Hvernig hún gengur fram, sýnir að hún hræðist ekki dauðann. Charly þráir föður sinn, sem dó frá henni ungri. Perkins tók hana að sér, aðeins til þess að þjálfa hana sem morðingja. Þráin eftir föðurnum er svo sterk, að þó að Charly sé horfin og Samantha muni ekki eftir gamla lífinu, gefur hún dóttur sinni bangsa og nefnir hann Perkins. (Þess má geta að sjálfur Perkins, sem svíkur Charly, færir Caitlin, stjúp-barnabarni sínu, brúðu sem ber í sér dauða hans.)

Í grein Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur „,,Á frátekna staðnum fyrir mig“ Ást og dauði í Tímaþjófnum í ljósi sálgreiningar“ segir: ,,Hin talandi sjálfsvera miðlar skorti og tungumálið er vitnisburður um byrði bælingarinnar.“ Það má vel heyra á tali Charlyar að hún þráir karlmennsku. Hugmyndin um þrána grundvallast á skortinum. Charly hefur ekki föðurinn sem hún þráir. Charly er með árásar- og eyðileggingarhvöt. Hún þráir dauðann því hún getur ekki tengst. Samantha er með lífshvötina því hún þráir barnið sitt og þráir að tengjast Charly. Þannig að Samantha er hin hliðin á Charly sem verður yfirsterkari og það bjargar Charly.

Hér hefur verið dregið fram hvernig myndmál og tákn geta leynst ótrúlega víða í kvikmynd sem að öllu jöfnu væri metin sem léttmeti/afþreying. Myndin þótti vissulega framúrstefnuleg á sínum tíma með þessa ,,hasar” kvenhetju. En eins og greiningin sýnir fram á er myndin merkileg að svo mörgu öðru leyti og rýnin hér á undan er langt í frá tæmandi.