Mín upplifun á barneignum sem nemi við Háskóla Íslands á einstaklega skrýtnum tímum

Ég hef verið að þjást af ritstíflu. Líklega vegna þess að ég er gjörsamlega einangruð vegna Covid-19 og því dettur mér ekkert spennandi í hug að skrifa um. Því ákvað ég að skrifa þennan pistil. Mín upplifun á barneignum sem nemi við Háskóla Íslands á einstaklega skrýtnum tímum.

Ég vildi ekki taka mér hlé frá námi þrátt fyrir að verða ljósberi (fallegra en orðið ólétt) í kring um desember í fyrra. Námsráðgjafinn ráðlagði mér að senda tölvupósta á þá kennara sem væru með námskeið sem ég hafði áhuga á. Athuga hvort efnið yrði of mikið eða hvort hægt væri að fá að vera í fjarnámi. Ég var sett að fæða viku áður en misserið átti að hefjast. Þá var Covid standið búið að minnka töluvert og allir orðnir rosalega bjartsýnir. Ég ætlaði að vera í fjarnámi, fara með barnið í mömmuhópa, læra á kaffihúsum, hitta fólk og njóta þess að vera ekki í vinnu með námi. Þó vissi ég full vel að það yrðu svefnlausar nætur og langir dagar með barn í námi. Skipulagning er mjög mikilvæg fyrir mér og fyrstu þrír mánuðir barns eru óútreiknanlegir. Þrír kennarar frá Háskólanum (allt dásamlegar konur) voru tilbúnar að koma til móts við mig svo að ég gæti haldið námi mínu áfram og halda heilanum gangandi. Einn kennari sagði hins vegar að líklega yrði efnið sem hún væri að kenna of mikið með barninu. Ég er þakklát fyrir þá hreinskilni því akkúrat núna gæti ég ekki ímyndað mér að vera að lesa bækur. Námsefnið er alveg nóg í þremur minni áföngum með barn á brjósti.

Svo eignaðist ég dásamlega litla dóttur þann 18 ágúst. Fyrsta barnið mitt. Skipulagningin fór út um gluggann. Fæðingin var erfið, það þurfti sogklukku til að ná henni, og ég missti töluvert magn af blóði. Samt vildi ég sinna náminu líka sem hófst aðeins um þremur vikum seinna. Ég sendi á kennarana tölvupóst og útskýrði að fyrsta verkefnið gæti borist þeim seint. Þarna var seinni aldan af Covid komin í gang en aftur voru allir frekar bjartsýnir. Kærastinn fór að vinna eftir fjórar vikur af orlofi og nú var komið að mér að vera 100% með litluna, heimilið og námið. Ekki má líka gleyma hundspottinu sem var búinn að alast um sem einkabarn og því afskaplega húsbóndahollur og athyglissjúkur. Vegna Covid mátti barnsfaðirinn ekki koma með dótturinni í skoðanir eða rannsóknir og því var það líka á mér. Ég sá að dagbækurnar og skipulagið safnaði bara ryki en ég náði að læra þegar hún svaf og ég var ekki of þreytt. Hún ljón í stjörnumerki svo hún er mikið fyrir það að vaka, líka á nóttunni.

Skírnin varð líka allt öðruvísi en ég var búin að vonast til. Fjölskyldur sem búa út í heimi gátu ekki komið og það voru fjöldatakmarkanir. En við gerðum gott úr þessu. Þar sem þýski faðir minn og finnska konan hans voru á landinu og loks búin í sóttkví ákváðum við að bjóða hinum ömmunum og öfunum í smá kaffi. Bara litla nafnaveislu. Systkinin okkar komu líka en bannað var að mæta með maka eða börn. Þegar fólkið gekk inn um dyrnar tók prestur á móti þeim. Þetta var falleg lítil athöfn inn í stofu hjá okkur með allt of miklum veitingum. Á myndunum má sjá gesti með grímur. Eins gott að ég muni hver er hvar.

Við Emma litla og Sherlock hundspott göngum mikið á hverjum degi. En stjórnlaust. Því það er ekki hægt að fara neitt. Draumarnir mínir um kaffihús, mömmuhittinga og risa skírn urðu aldrei að veruleika. Ég ráfa enn um bæinn, hverfið, Klambratún og veit ekkert hvert við mæðgur endum. Við erum í sjálfskipaðri einangrun og höfum verið það nokkurn veginn frá því að ég varð ólétt… ég meina ljósberi. Meðgangan var einmanaleg og ekki mikið gert eða farið en allir héldu að það yrði búið þegar hún væri komin í heiminn. En núna er enn meiri einangrun en áður því ég þarf ekki bara að passa upp á mig heldur líka þetta litla líf sem mér var gefið. Til þess að hún geti hitt ömmurnar og afana er best fyrir okkur að vera bara heima. Enda þau öll í áhættuhópi. En einangrunin er hræðileg. Ekki bara með nýfætt barn þegar hormónin eignast sitt eigið líf. Heldur bara fyrir alla. Aðallega fólk sem áður þjáist andlega. Mæður fá í dag mikla aðstoð með andlegu heilsuna enda er hún jafn mikilvæg og sú líkamlega. En það eru ekki allir aðrir jafn heppnir. Í heilbrigðiskerfinu er ekki að sjá að andleg heilsa sé mikilvægur partur af kerfinu. Margir hafa auk þess ekki efni á að sækja sér hjálp. Sumir reyna að kalla á hjálp en fá engin svör. Því getur það oft endað á versta veg. Heilbrigðiskerfið verður að opna augun sín gagnvart þessum sjúklingum og ekki seinna en í dag. Bendi á síðuna www.39.is sem fjallar um þetta efni, að setja geðheilsu í forgang sem allra fyrst.

Mömmuhóparnir sem ég sá fyrir mér á kaffihúsum og í ungbarnasundi, eru núna bara á samfélagsmiðlum. Börnin okkar upplifa ömmur og afa með grímur, andlitslausa lækna, mikinn skjátíma þegar það er hringt í aðrar mömmur eða afa í útlöndum í gegnum facetime og einangrun með mæðrunum. Það verður því spennandi að sjá hvernig þessi kynslóð barna tekur á heiminum líkamlega og andlega. Ég sit inn í stofunni minni að reyna að læra á meðan hún Emma sefur. Jákvæðni í kennurum og námið sjálft hefur hjálpað mér einstaklega mikið. Vil ég því þakka mínum kennurum og námsráðgjafa að koma til móts við okkur mæðgur og gefa mér eitthvað annað að hugsa um heldur en einmanaleika og Covid-19. Takk kærlega fyrir okkur.