Geta góðir strákar nauðgað?

Umfjöllun um bókina Things we didn‘t talk about when I was a girl eftir Jeannie Vanasco.

Samkvæmt tölfræði UN Women verða um 35% kvenna fyrir grófu kynferðisofbeldi á lífsleiðinni. Ef þú veltir þeirri tölfræði fyrir þér um stund þá áttar þú þig fljótt á því að það hljóti að vera svo að þú þekkir ekki aðeins konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi, heldur þekkir þú einnig einhvern sem hefur beitt slíku ofbeldi. Það eru jafnvel miklar líkur á því að það sé einhver sem þig myndi aldrei gruna um slíkan glæp. Tölurnar sýna að flestum konum er  nauðgað af einstaklingi sem er þeim nákominn og  þær treysta. Í slíkum tilvikum eru hverfandi líkur á því að konur kæri verknaðinn þar sem skömmin er svo mikil. Oftar en ekki kenna þær sjálfum sér um og þá fyrst og fremst fyrir það að hafa borið traust og jafnvel ást til gerandans. 

Geta vel innrættir einstaklingar gert hræðilega hluti og hvað fær þá til þess? Jeannie Vanasco veltir einmitt þessari spurningu fyrir sér í bók sinni Things we didn‘t talk about when I was a girl – Það sem við töluðum ekki um þegar ég var stelpa sem út kom á síðasta árið 2019. Besti vinur Jeannie  sem hún kallar Mark í bókinni, en það er dulnefni, nauðgaði henni í partýi sem fram fór á heimili Marks. Jeannie taldi sig þekkja Mark mjög vel og hélt hann væri góður strákur sem hún gæti treyst. Jeannie var 19 ára þegar atburðurinn átti sér stað og var enn að syrgja dauða föður síns sem hafði látist stuttu áður. Hún drakk áfengi í fyrsta skipti þetta afdrifaríka kvöld til að deyfa sársaukann sem fylgdi sorginni og varð á endanum ofurölvi. Mark ákvað þá að fara með hana niður í kjallara sem var jafnframt herbergið hans. Hann fékk sameiginlegan vin þeirra til þess að hjálpa sér að drösla hálf meðvitundarlausri Jeannie niður í kjallara, jafnvel þó að það væru önnur herbergi í húsinu. Þegar þangað var komið sendi Mark vin þeirra í burtu, afklæddi hana, nauðgaði henni með því að stinga fingrum sínum í leggöng hennar og fróaði sér svo yfir hana á meðan Jeannie lá frosin og grét.

Fjórtán árum síðar ákvað Jeannie að skrifa bók um þennan atburð og hafði því samband við Mark því hún vildi heyra hans hlið á málinu. Hún vildi fá að vita af hverju hann gerði þetta og jafnframt af hverju hann fór með hana niður í kjallara. Gerði hann það viljandi því hann hafði ákveðið að hann ætlaði að nauðga henni þetta kvöld eða var nauðgunin augnabliks misbrestur af hans hálfu?

Jeannie tók fljótt eftir því hversu meðvirk hún var í samskiptum sínum við Mark. Meðvirknin kemur fram í samtölum þeirra og felst í því að hún tekur upp hanskann fyrir hann og gerir lítið úr hlutunum því hún vill ekki að honum líði illa yfir þeim. Eftir samtölin er hún sár út í sjálfa sig fyrir að bregðast við á slíkan hátt. Jeannie er einnig stöðugt að afsaka hann fyrir vinum sínum og viðurkennir sjálf að hún vilji að lesendum líki við hann svo þeir skilji betur af hverju hún treysti honum. Hún á jafnframt erfitt með að skilja af hverju hún er ekki meira reið út í hann og af hverju hún fyrirgaf honum verknaðinn svo auðveldlega. Hún áttar sig jafnfram á því að það er þetta kerfisbundna valdaójafnvægi kynjanna í samfélaginu sem fær jafnvel vel innrætta einstaklinga til þess að gera illa grundaða hluti og endurspeglast einnig í meðvirkni þolandans.   

Jeannie átti mjög lengi erfitt með að viðurkenna það fyrir sjálfri sér og öðrum að það sem gerst hafði flokkaðist sem nauðgun. Hún reyndi fremur að draga úr verknaðinum. Hún dæmdi í fyrstu alvarleika verknaðarins út frá því hvaða part af líkama Marks hann notaði, það er að segja fingurna, og urðu leggöngin hennar óviðkomandi í samhenginu. Hún forðast það lengi vel að kalla Mark nauðgara því hún var hrædd um að það hefði áhrif á minningar hennar um hann. Mark hinsvegar viðurkennir sjálfur að hann hafi nauðgað henni og segir henni jafnframt að verknaðurinn hafi breytt því hvernig hann sér sjálfan sig og hafi fengið hann til að efast um eigið ágæti. Nauðgunin bar hinsvegar upp mikilvæga en erfiða spurningu: hvers virði var vinátta þeirra í augum Marks?

Þessi bók endurspeglar veruleika svo margra kvenna og þær gætu mögulega upplifað að þær séu að lesa sína eigin sögu. Þessi yfirþyrmandi meðvirkni sem litar öll samskipti þolandans við nátengdan gerandann er gerð skil á svo snilldarlegan hátt að mínu mati í þessari bók bæði með hugleiðingum Jeannie og samskiptum hennar við Mark. Jeannie skrifar upp samtöl þeirra en þau endurspegla þetta valdaójafnvægi kynjanna.

Bók þessi er mikilvægt innlegg inn í #metoo umræðuna þar sem hún varpar ljósi á það hversu nálægt okkur kynferðisglæpir eru. Mark er allsstaðar í samfélaginu. Við þekkjum öll Mark. Hann er ekki illa innrættur einstaklingur en hefur samt framið hræðilegan glæp sem hann sér mikið eftir og þarf að lifa með því að hafa valdið fórnalambi sínu óafturkræfanlegum skaða. En hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir það að Mark (sem hér er samheiti yfir gerendur) taki slíkt feilspor í lífinu? Umræða og vitundarvakning er vissulega skref í rétta átt en það þarf meira til svo að sigurinn sé unninn. Það þarf stórfellda hugarfarsbreytingu í samfélaginu sem leiðréttir þetta valdaójafnvægi á milli kynjanna sem er rótin að kynbundnu ofbeldi.