Arftaki hefðbundinna bókmennta?

Vefbókmenntir (e. web fiction) er bókmenntagrein þar sem verkin eru oftast eða alltaf aðgengileg á veraldarvefnum. Algeng tegund vefbókmennta eru framhaldssögur (e. web serial). Ólíkt klassískum bókmenntum  eru framhaldssögur á vefnum sjaldan birtar í heild sinni. Heldur eru hlutar af verkinu birtir í senn, en það svipar til sagnasería sem komu oft út í nokkrum hlutum í dagblöðum.

Vefbókmenntir komu fljótlega til sögunar eftir að Internetið ruddi sér til rúms. Spot serían, sem kom út á árunum 1995 og 1997, átti eftir að ryðja brautina fyrir fleiri vefbókmenntaverk. Í Spot var sagan sögð með dagbókarfærslum sögupersóna og gagnvirkni við lesendur. Síðan árið 2008 hafa vinsældir vefbókmennta aukist til muna. Aðdáendur skrifa oft sínar eigin sögur sem ýta en þá meira undir vinsældir greinarinnar. Sumar vefseríur notfæra sér frumlegar og gagnvirkar leiðir, eins og myndbönd eða tögg, til þess að  miðla sögunum. Eitthvað sem hefðbundið bókarform býður ekki upp á (nema kannski sögur eins og „Þín eigin goðsaga“ eða „Make Your Own Story“ bókaflokkar).

Vefbókmenntaformið býður upp á marga skemmtilega möguleika hvað varðar lengd og geta sögurnar í rauninni gengið endalaust, enda þurfa höfundar ekki að glíma við þær hindranir sem fylgja hefðbundinni prentun bóka eða skilafresti eða þrýsting frá útgefanda, enda er kostnaður lítill sem enginn við framleiðslu vefbókmenntaverka. Hins vegar uppfylla sögurnar ekki alltaf þær gæðakröfur sem gerðar eru til hefðbundna bókmennta. Að hluta er það vegna hve miklum stakkaskiptum verkin geta tekið með tímanum.

Framhaldssögurnar eru oftar en ekki birtar jafnóðum sem þær eru skrifaðar og er því algengt að höfunda skorti heildarsýn yfir verkið þegar þeir hefjast handa við að skrifa, og þá er ekki hægt að ritskoða þær aftur í tímann. Til dæmis geta höfundar ekki snúið við til þess að strika út ónauðsynlegar sögulínur, eða stytta of langa kafla. Þannig getur samfella (e. continuity) oft orðið að vandamáli fyrir höfunda og gæti það því gerst að að rithöfundur segir að einhver var í gallabuxum en svo er hann skyndilega kominn í leðurbuxur. Oft á tíðum er mikið um stafsetningarvillur og málfræði er ekki upp á tíu, en vinsælustu sögurnar eiga það þó sameiginlegt að vera grípandi.

Fyrir þá sem vilja kynna sér vefbókmenntir frekar er vert að benda á síðurnar Web Fiction Guide, Webnovel, eða Wattpad.  Þar er að finna gríðarlega mikið úrval af sögum og seríum. Dæmi um frægar framhaldssögur vefbókmennta eru til dæmis Worm og Mother of Learning. Worm, eftir John C. “Wildbow“ McCrae fjallar um unglingsstúlku sem öðlast ofurkraft sem felst í því að geta stjórnað ormum, köngulóm og fleiri skordýrum. Verkið inniheldur um það bil 1.68 milljón orð sem, ef gróflega er áætlað, myndu rúmast á sirka 6400 blaðsíðum. Fyrsti kaflinn birtist þann 11. júní árið 2011 en sá síðasti þann 19. nóvember 2013. Á árunum 2017 til 2020 kom síðan út framhaldið. Worm má nálgast hér. Mother of Learning eftir Domagoj Kurmaic fjallar um ungan seiðkarl í þjálfun. Hann lendir í því að upplifa sama daginn aftur og aftur og leitar svara. Sagan var skrifuð á árunum. Sagan kláraðist í febrúar 2020 og má finna hana hér.