Unnur Steina K. Karlsdóttir

„I only achieve simplicity with enormous effort“
~ Clarice Lispector, Hour of the Star ~



Ég er að læra bókmenntafræði með ritlist sem aukagrein. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á bókum, myndasögum, kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, tónlist og myndlist. Ég hef enga hugmynd hvert ég stefni en vonandi er það í rétta átt.


Mér finnst mjög gaman í náminu og langflest námskeið hafa verið skemmtileg en þó á ég mér nokkur uppáhaldsnámskeið. Á síðasta misseri fór ég í Barna- og unglingabókmenntir þar sem við skoðuðum sögu, þróun og einkenni barnabóka og lásum bæði íslenskar og erlendar barna- og unglingabækur. Á fyrsta árinu mínu fór ég einnig í tvo áhugaverða áfanga; Sagnir, ævintýri og sagnamenn: Þjóðsagnafræði, annars vegar og Óheyrilegt óréttlæti: Ofbeldi, frásagnir og félagslegar sjálfsmyndir, hins vegar. Í þjóðsagnafræðiáfanganum lærðum við um einkenni þjóðsagna, þróun þeirra í gegnum aldirnar og hlutverk þeirra í samfélögum heimsins. Í Óheyrilegt óréttlæti: Ofbeldi, frásagnir og félagslegar sjálfsmyndir lásum við bækur frá ýmsum heimshornum þar sem kvenrithöfundar lýsa ofbeldi gegn konum og við skoðuðum hvernig fjallað er um mismunandi ofbeldi og hvernig það hefur áhrif á félagslegar sjálfsmyndir kvenna.

 

Áhugasviðið mitt er gífurlega breitt og er því mikið í uppáhaldi. Af uppáhaldsbókum mætti nefna bækur J.R.R. Tolkiens, þá sérstaklega The Lord of the Rings og The Hobbit. Ég hef alltaf haft gaman af því að lesa fantasíur og kolféll ég hreinlega fyrir mikilfenglega heiminum sem Tolkien skapaði þegar ég las bækurnar hans fyrst. Ég elska sögur og persónur bókanna og mér finnst aðdáunarvert hversu stór og víðtækur heimurinn og sagan á bak við hann er.

Kvikmyndir Peter Jacksons sem hann gerði upp úr The Lord of the Rings þríleiknum eru einnig í miklu uppáhaldi. Uppáhaldsbíómyndin mín er þó líklegast The Fall (2006) en ég tel þá mynd vera eina fallegustu mynd sem gerð hefur verið.

Ég horfi mikið á allskonar sjónvarpsþætti. Bandaríska sjónvarpsserían Psych er þar í mestu uppáhaldi, einfaldlega vegna þess að mér finnst hún fyndin og skemmtileg. Aðrir þættir sem ég held mikið upp á eru Pushing Daisies og The Good Place en þessir þættir eiga það báðir sameiginlegt að meginefni þeirra er dauðinn en á sama tíma eru þeir húmorískir, litríkir og glaðlegir. Þeir blanda fullkomlega saman gríni og alvöru, fantasíu og raunsæi, gleði og sorg.

Ef ég er ekki að lesa eða horfa á kvikmyndir eða sjónvarpsþætti þá finnst mér skemmtilegast að fara á listasöfn og -sýningar. Fyrir nokkrum árum heimsótti ég Glyptoteket í Kaupmannahöfn og er það enn eitt fallegasta safn sem ég hef farið á. Listasöfnin hér á landi eru mér þó einnig mjög kær og reyni ég að fara á þau reglulega. Hafnarhús er þar í sérstöku uppáhaldi en mér finnst sýningarnar þar alltaf frumlegar og skemmtilegar.

Mig langar helst að leggja áherslu á fjölbreytileika í námi og því hef ég reynt að taka áfanga sem endurspegla það. Ég hef aðallega verið að leggja áherslu á að skoða marga mismunandi menningarheima, femíníska greiningu og hinseginfræði og er það einnig eitthvað sem ég hef áhuga á að skrifa um.